Dagur umhverfisins er í dag
Gríðarlegt átak hefur verið unnið á síðustu árum í umhverfismálum í Reykjanesbæ og hafa íbúar bæjarins yfir mörgu að gleðjast í þeim efnum enda hefur umhverfi bæjarins tekið miklum stakkaskiptum á mjög skömmum tíma. Umhverfismál er mikilvægur þáttur í nútíma þjóðfélagi en með góðum árangri í þessum málaflokki má auðga mannlíf og lífsgæði til muna, auka atvinnutækifæri og bæta útivistarmöguleika. Dagur umhverfisins er haldinn hátíðlegur í sjötta sinn 25. apríl og má með sanni segja að Reykjanesbær sé nú kominn í hátíðarbúning.
Öll viljum við hafa fallegt og aðlaðandi umhverfi. Fegrun bæjarins af hálfu bæjaryfirvalda hefur verið markviss og hnitmiðuð síðustu ár. Hvatning til einstaklinga og fyrirtækja til fegrunar húsa og síns nánasta umhverfis hefur þegar skapað bæjarfélag þar sem gott er að búa og gott heim að sækja en í fallegu umhverfi hefur Reykjanesbær alla burði til að verða einstakur ferðamannastaður á Íslandi með eitt besta aðgengi að 350.000 ferðamönnum árlega. Og með Bláa lónið við bæjarmörkin og útvistarparadís við Reykjanesvita í okkar bæjarlandi eru stóru tækifærin skammt undan.
Fitjar
Aðalaðkoma frá tvöfaldri Reykjanesbraut til bæjarins verður við Fitjar en þær eru í dag glæsileg útvistarparadís þar sem fuglalífið fær að njóta sín. Ein stærsta framkvæmd bæjarins í umhverfismálum síðustu ár er án efa fráveitumannvirkin á Fitjum þó þau láti ekki mikið yfir sér. Með tilkomu þeirra hefur sýnileg ásýnd Fitja og uppbyggingar möguleikar tekið stakkaskiptum. Gerð Fitjabakka er enn í fullum gangi en okkar framtíðarsýn á manngerðri Fitjatjörn er sjósport við lægi Íslendings og falleg ylströnd bæjarbúum og gestum til yndisauka. Steinsnar frá hafa ný og skemmtileg íbúðarsvæði verið skipulögð í svokölluðu Tjarnarhverfi. Í þessu glæsilega umhverfi með nýjan grunnskóla og öflugan leikskóla mun hverfið án efa byggjast hratt upp á næstu árum.
Hafnargatan
Um fáar framkvæmdir hefur meira verið rætt á síðustu árum en endurbyggingu Hafnargötunar sem um árabil hefur verið þyrnir í augum. Löngu tímabært var að hefja þessar mikilvægu framkvæmdir sem eru ekki síst í þágu frekari uppbyggingar í verslun og þjónustu. Heildarútlit götunnar hefur þegar tekið miklum breytingum, gangstéttir hellulagðar svo og mikill hluti götunnar sjálfrar, lýsing endurhönnuð og hringtorg gerð við helstu gatnamót en nýjum bekkjum, beðum og nýju stjörnuspori mun verða komið fyrir áður en framkvæmdum lýkur fyrir næstu Ljósanótt. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa en í dag eru því sem næst engin laus verslunarpláss í miðbænum og dæmi eru um að margir aðilar hafi barist um laus rými. Framtíðaráform um verslunarmiðstöð í miðbænum þykja ekki lengur fjarlægur draumur í tengslum við lifandi aðalgötu á lífæðinni og skemmtilegan bæjarbrag.
Strandlengjan frá Keflavíkurbergi að Stapa
Frá ómunatíð hefur umhverfi frá sjávarsíðu bæjarins ekki verið okkur til framdráttar og mikið um það rætt á ýmsum vettvangi. Klæðning strandlengjunnar frá glæsilegu Keflavíkurbergi í norðri að þverhníptum sjávarbjörgum Stapans er einstakt stórverkefni sem þegar setur mikinn svip á umhverfi bæjarins bæði frá sjó og landi en við ströndina eru fjölmargar og einstakar klettamyndanir sem nú njóta sín fyrst til fulls. Með þessari stóru framkvæmd hefur okkur bæði tekist að bæta sjónrænt útlit strandarinnar um leið og öflugir sjóvarnargarðar munu verja landið ágangi sjávar til langrar framtíðar.
Bæjarhlið, stórgrýti og kynjaverur
Um leið og fegrunarframkvæmdir setja æ meiri svip á Reykjanesbæ var áætlun um Bæjarhlið hrint í framkvæmd og má með sanni segja að vel hafi til tekist í þeirri þróunarvinnu sem verkefnið krafðist. Í tengslum við Bæjarhliðið vaknaði síðan hugmynd um að stórgrýti gæti á skemmtilegan hátt rammað inn bæinn okkar séð frá Reykjanesbraut eins og meðfylgjandi mynd sýnir á skemmtilegan hátt sem aftur kallaði fram hugmynd Áka Gränz listamanns um steingerðar kynjaverur í bæjarlandinu.
Ég fullyrði að ekkert sveitarfélag á Íslandi hefur tekið eins miklum breytingum í umhverfismálum og Reykjanesbær hefur gert á síðustu árum. Auk þess sem að ofan greinir má nefna hreinsun Nikelssvæðisins, lagfæringu gatna, gangstétta og opinna svæða með göngustígakerfi sem nú er að mestu frágengið, uppbyggingu gamla bæjarins og Duushúsa og nánasta umhverfis. Þá má nefna árlega hreinsunardaga að vori og nýtt átak bæjarins í að fjarlæga járnrusl en á síðustu tveimur árum voru á annað þúsund tonn af járnrusli fjarlægt úr bæjarlandinu. Reykjanesbær tekur virkan þátt í Staðardagskrá 21 og með tilkomu Sopreyðingastöðvarinnar Kölku í Helguvík þar sem risin er ný og glæsileg brennslustöð og móttökustöð fyrir sorp má segja með sanni að Reykjanesbær sé orðin leiðandi bæjarfélag í eyðingu úrgangs á Íslandi.
Á heimasíðu Reykjanesbæjar má finna nýja umhverfisstefnu sem samþykkt var í bæjarstjórn í byrjun árs, starfsáætlun Umhverfis- og skipulagssviðs og fyrsta rammaskipulag Reykjanesbæjar. Markmið rammaskipulags, sem er millistig á milli aðalskipulags og deiliskipulags, er nútíma skipulagning svæða til lengri tíma þar sem settar eru fram hugmyndir af framtíðaruppbyggingu bæjar eða bæjarhluta. Í dag er unnið að gerð nýs aðalskipulags og gera áætlanir ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki þegar í upphafi sumars.
Það er mat undirritaðs að ofangreindar framkvæmdir séu bænum og bæjarbúum öllum til mikils sóma en oft er sagt að umhverfið sýni okkar innri mann. Við getum verið stolt af umhverfi okkar en ætlum að halda áfram góðu verki og munum hvergi slaka á í að gera góðan bæ betri. Fyrir mitt leyti hefur verið ánægjulegt að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað og setur mark sitt á umhverfi Reykjanesbæjar til lengri framtíðar.
Gleðilegt sumar í fallegu umhverfi.
Steinþór Jónsson,
formaður Umhverfis- og skipulagsráðs í Reykjanesbæ.