Dagur umhverfisins: Blái herinn 5 ára
Ágætu Suðurnesjamenn. Dagur umhverfisins er í dag 24. apríl. Í dag eru nákvæmlega 5 ár liðin síðan undirritaður fór af stað með baráttu sína undir merkjum Bláa hersins. Baráttan var hugsuð til að vekja almenning til umhugsunar um umhverfismál, umgengni okkar og virðingu fyrir náttúrunni og hvað þyrfti að gera til að ná augum og eyrum ráðamanna svo betrumbæta mætti umhverfið. Það er búið að vera mikill ólgusjór að standa í þessarri baráttu þau fimm ár sem liðin eru. Til að þeim markmiðum verði náð sem stefnt er að í upphafi þarf mjög margt að ganga upp en fyrst og fremst má ekki gefast upp. Blái herinn á mjög marga styrktar- og stuðningsaðila sem stöppuðu í okkur kjark þegar allar leiðir virtust lokaðar til að ná settum markmiðum. Í dag getum við verið stolt og horft bjartsýnisaugum á framtíðina, í bæjarfélaginu okkar hefur verið stigið geysilega stórt skref til að hlúa að náttúrunni og umhverfinu okkar. Reykjanesbær getur verið mjög stoltur af sinni umhverfisstefnu og hvernig þeir leggja metnað sinn í að virkja aðra til þess að gera betur. Slagorð Bláa hersins er Leiðréttum fortíðina fyrir Framtíðina. Ég vil þakka öllum þeim sem lagt hafa okkur lið í þau 5 ár sem liðin eru og um leið hvet ég ykkur ágætu Suðurnesjamenn til að hjálpa til og leggja ykkar að mörkum og hugsa umhverfisvænt í framtíðinni, sameinuð um það gerum við Reykjanesskagann hreinasta landssvæði Íslands, öðrum til eftirbreytni.
Virðingarfyllst
Tómas J. Knútsson,
formaður Bláa hersins.
Virðingarfyllst
Tómas J. Knútsson,
formaður Bláa hersins.