Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Dagur Umhverfisins
Mánudagur 25. apríl 2005 kl. 15:50

Dagur Umhverfisins

Tilefni þess að undirritaður setur niður á blað nokkrar línur varðandi þennan dag er fyrst og fremst til að gleðjast yfir því að einn dagur á ári skuli mera tileinkaður umhverfinu. Í okkar samfélagi þykir það sjálfsagður hlutur að gera sér dagamun ef tilefnið er gott og aðstæður leyfa. Er þá gjarnan brugðið á það ráð að breyta út af vananum og dagurinn notaður til að hafa gaman af, farið út í náttúruna, bíltúr, heimsókn eða hvað annað sem gleður mann.

Oft hefur undirritaður gert sér slíkan dagamun og þá oftast keyrt um á Reykjanesi og skoðað umhverfið okkar, þetta einstaka náttúrufyrirbæri sem Reykjanesskaginn er. Framtíð okkar sem búum hér á skaganum er alfarið í okkar höndum, við getum lifað í sátt og samlyndi og notið þess besta sem völ er á, nýtt allar auðlindir sem hér eru og notið þess að hér eru lífsskilyrði með því besta sem völ er á á Íslandi. En getum við gert betur og viljum við gera betur?

Ég er sannfærður um að ferðamannastraumur til Reykjaness getur stóraukist ef við tökum höndum saman og gerum skagann umhverfisvænasta landsvæði Íslands. Við sýnum samfélagslega ábyrgð og endurvinnum allt sem frá okkur kemur, hreinsum til í og við fyrirtækin okkar, hættum að henda rusli út um bílgluggana, hættum að keyra vegaslóða og henda rusli í náttúrunni, virðum lög og reglur samfélagsins og setjum okkur þau markmið að um það sé talað að Reykjanesskaginn sé fallegur, hreinn og fólkið þar meðvitað um hversu mikla ábyrgð við viljum sýna okkur sem og öðrum sem hingað koma.

Með ósk um að þið sem þetta lesið hugsið jákvætt um greinarskrif undirritaðs og leggist á sveif með þeim sveitarfélögum og ráðamönnum sem hvetja til umhverfisverkefna í sinni byggð.                                                                       

Með vinsemd og virðingu 

Tómas J. Knútsson formaður Bláa hersins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024