Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Daður og fyrstu kynni
Laugardagur 11. desember 2010 kl. 18:24

Daður og fyrstu kynni

Eftir fyrstu augngoturnar, fyrsta daðrið og fyrstu kynni hafa átt sér stað milli „leitandi“ unglinga fylgja gjarnan skoðanaskipti og samtöl um hugsanleg sameiginleg áhugumál. Það þarf auðvitað að taka sér góðan tíma til að huga vel að því hvort tilvonandi passi sem slíkur eða eigi kannski betur heima í vinahópnum.


Þótt það geti reynst mörgum erfiður hjalli að komast yfir fyrstu unglingaástina er gott að hafa í huga að nokkrir virkilega góðir vinir geta verið betri en hundrað kunningjar. Við makaval má gera ráð fyrir að hver einstaklingur kynnist fjölda fólks. Mestu skiptir að velja rétt þær manneskjur sem passa best við eigin persónugerð þannig að á endanum standi „besti vinurinn“ upp úr. Í dag eru hugmyndir um eftirsóknarverðan lífsstíl öðruvísi en þær voru í „gamla“ daga. Tímarnir eru fljótir að breytast og hver kynslóð hefur misjafnar hugmyndir um líf og lífsstíl. „Svali gaurinn“ er ekki lengur sá eftirsóttasti heldur eru það innri eiginleikar manneskjunnar sem vekja meiri áhuga. Útlitið skiptir ekki meginmáli þegar upp er staðið heldur þeir persónuþættir sem liggja á bak við útlitið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Strax við upphaf kynna er hægt að mynda sér skoðun á hvort viðkomandi persóna hafi nægt aðdráttarafl til að næra alvöru samband. Líkams- og munnlykt hafa mikil áhrif við fyrstu kynni. Of mikil andlitsförðun og sterkt ilmvatn á fyrstu stefnumótum getur gefið hinum aðilanum þá hugmynd að á ferð sé „áköf og krefjandi“ persóna. Áður en fyrsta samtalið hefst er gott að velta fyrir sér ákveðnum atriðum til að kanna sameiginlega fleti og „húmor“ sem hægt væri að ræða. Gagnkvæmur skilningur verður við að meðtaka og sýna áhugamálum hvort annars athygli. Ef sameiginleg áhugamál eru til staðar og fiðrildi fljúga í maganum er ekki langt í fyrsta stefnumótið. Öll smáatriðin mætast svo í einni heild þegar fram líða stundir og kynni tveggja einstaklinga þroskast í fallegt ástarsamband. Viljir þú láta koma fram við þig eins og prinsessu eða prins skaltu haga þér í samræmi við það. Upplagt er að fyrsta stefnumótið fari til dæmis fram á kaffihúsi eða úti í göngutúr því alltaf er auðveldara að tala frjálslega saman í fersku lofti en í þröngu herbergi.

Ekkert er jafnt yndislegt og að finna fyrir þessum fiðrildum í maganum. Einhvern tímann kemur svo að þeim tímapunkti að maður vilji vera einn með viðkomandi manneskju og þá má auðvitað bjóða í rómantískt matarboð. Það ætti að huga vel að öllum smáatriðum eins og fallegum borðskreytingum, rétta andrúmsloftinu og mat sem viðkomandi aðila finnst góður. Best er auðvitað að kanna slíkt í samtölum fyrir stefnumót. Góðar og gefandi samverustundir í ró og næði eru lífsnauðsynlegar nærandi samböndum og þær ætti að endurtaka með reglulegu millibili. Það er góð leið til að kynnast annarri manneskju náið. Annar mikilvægur þáttur í góðu og gefandi sambandi er kynlífið. Það ætti að vera sameiginleg ákvörðun beggja aðila og alltaf er alfarsælast að byrja varlega.

Gott er ef ungar stúlkur ræða um kynlífið fyrst við foreldra sína og leiti síðan til kvensjúkdómalæknis og hlusti á það sem hann hefur að segja. Ungir karlmenn ættu hinsvegar alltaf að vera með smokka á sér.

Birgitta Jónsdóttir Klasen