Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

D-listi: Kári sækist eftir 3.-4. sæti í Suðurkjördæmi
Þriðjudagur 19. september 2006 kl. 10:57

D-listi: Kári sækist eftir 3.-4. sæti í Suðurkjördæmi

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. – 4. sæti í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.  Ég hef verið félagi og þátttakandi í starfi Sjálfstæðisflokksins í tuttugu ár, fyrst á Hornafirði, þar sem eru mínir heimahagar, en síðustu ár í Reykjavík.  Ég var kosinn fyrsti formaður félags ungra Sjálfstæðismanna á Hornafirði, ég var varabæjarfulltrúi og varaformaður hafnarstjórnar fyrir hönd flokksins.  Síðustu ár hef ég tekið þátt í félagsstarfi flokksins í Reykjavík þar sem ég hef verið stjórnarmaður og gjaldkeri Félags Sjálfstæðismanna í Austurbæ-Norðurmýri, einu af mörgum hverfafélögum flokksins í borginni.

Árið 1992 var mér falið að taka að mér framkvæmdastjórastarf  hjá Fiskmarkaði Hornafjarðar hf. sem var þá nýstofnaður. Fyrirtækið var hlutafélag í eigu um fimmtíu aðila; fyrirtækja og einstaklinga á Höfn.  Þetta tækifæri sem ég fékk í minni heimabyggð var dýrmæt reynsla og markaði upphafið af lífsstarfi mínu til þessa dags. Í sjö ár starfaði ég  fyrir SÍF, þar af þrjú í Sandgerði og fjögur í Frakklandi.  Undanfarin tvö ár hef ég starfað við að markaðssetja íslenskan eldisfisk en hef nú nýverið ráðið mig til starfa sem sölustjóri landfrystra afurða hjá HB Granda.  Ég hef starfað innan útflutningshóps Félags íslenskra stórkaupmanna að hagsmunamálum útflytjenda, nú síðast sem formaður þess hóps.

Ég tel að framboð mitt í þriðja eða fjórða sætið muni auka nauðsynlegt jafnvægi framboðslistans. Reynsla mín í trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn svo og önnur félagsstörf og starfsreynsla innanlands í báðum endum kjördæmisins og við störf erlendis, gerir mig að góðum frambjóðanda fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.  Njóti ég trausts hlakka ég mikið til þess starfs sem framundan er, að tryggja flokknum gott fylgi.

Kári Sölmundarson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024