Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

„Byggðasaga af bestu sort
Höfundur les upp úr bók sinni á bókakynningu í Álfagerði.
Sunnudagur 3. desember 2023 kl. 06:06

„Byggðasaga af bestu sort

– vel rannsökuð, læsileg og ítarleg lýsing á byggð, búskap og þó fyrst og fremst sjávarútvegi í Vatnsleysustrandarhreppi frá miðöldum og fram um 1930.“

Svo segir í ritdómi Guðmundar Jónssonar í tímaritinu Sögu (2:2023, bls. 238-241), um bók Hauks Aðalsteinssonar, Út á brún og önnur mið, sem kom út fyrir ári síðan.

Í bókinni er rekin saga bændaútgerðar í Vogum og á Vatnsleysuströnd, allt frá elstu fáanlegu heimildum fram á þriðja áratug tuttugustu aldar þegar vélbátar höfðu leyst árabátana af hólmi. Sagt er frá áhrifum Viðeyjarklausturs á svæðinu, konungsútgerð, spítalafiski, sjósókn, netaveiðideilum, saltfiskverkun, sjóbúðum og þilskipaútgerð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bók þessi byggir á viðamikilli könnun frumheimilda í fornbréfasafni, Þjóðskjalasafni og fleiri skjalasöfnum sem gefur í mörgum tilfellum nýja sýn á söguna, bæði sögu svæðisins sem og sjósóknar. Hún er öllum áhugasömum um útgerðarsögu fróðleg lesning og fræðandi um lífshætti þeirra sem sóttu sjóinn og byggðu landið fyrr á öldum.

Höfundurinn, Haukur Aðalsteinsson (f.1945), er skipasmiður, fæddur og uppalinn á Vatnsleysuströnd. Hann hefur lengi verið áhugamaður um sögu útgerðar og hefur áður birt tímaritsgreinar um sögu þilskipa á Suðurnesjum. Þá hefur hann einnig smíðað tvíæring, algengasta fiskibát við sunnaverðan Faxaflóa á átjándu öld, eftir teikningu úr Íslandsleiðangri Joseph Banks árið 1772 og er bátnum lýst í bókinni. Bátur þessi hefur verið til sýnis í Duus í Keflavík.

Mikið af efninu er sótt í frumheimildir og hefur ekki áður komið fyrir sjónir almennings.

Ritstjóri bókarinnar er Jóhanna Guðmundsdóttir, sagnfræðingur á Þjóðskjalasafni, búsett í Vogum.

Ljósmyndari er Ellert Grétarsson og kortagerðarmaður Hans H. Hanssen.

Í ritdómnum segir Guðmundur ennfremur: „...man ég varla eftir veglegri umfjöllun um fiskveiðar og útgerð yfir svo langan tíma. Að baki verkinu liggur mikil rannsóknarvinna og er lofsvert hve vel höfundur nýtir sér skjöl af ýmsu tagi, bréf og skýrslur embættismanna, fógetareikninga, jarðarbækur, hagskýrslur, dómabækur, skipshafnarskrár og fleira. Mjög fín kort, ljósmyndir og uppdrættir bæta miklu við efnið. Ekki sakar að höfundurinn er heimamaður, gjörkunnugur staðháttum og útgerð í hreppnum – og hefur sjálfur haft skipasmíðar að starfi. Svo vandaða bók með svo mörgu áhugaverðu efni verður að telja umtalsvert framlag til byggðar- og sjávarútvegssögu.“

Guðmundur rekur síðan fjölmörg efnisatriði bókarinnar og endar ritdóminn á þessum orðum: „Út á brún og önnur mið sýnir að háskólagráða í sagnfræði er ekki nauðsynleg til að skrifa fyrirtaks sagnfræðirit.“

Slóð á bókina í Bókatíðindum: Bókatíðindi - Út á Brún og önnur mið - útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930 - Haukur Aðalsteinsson 

Hún fæst í Pennanum, Bókakaffinu og hjá útgefanda í Vogum.

Þorvaldur Örn Árnason,
stjórnarmaður í Minjafélaginu.