Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Miðvikudagur 30. október 2002 kl. 17:07

Búum við á litlu Kúbu?

-spyr Halldóra Magný Baldursdóttir fulltrúi V-lista í Hreppsnefnd Voga á Vatnsleysuströnd í aðsendri grein til Víkurfrétta

Á þeim tíma sem liðinn er frá kosningum hef ég verið að fara yfir stöðuna í hreppsmálunum og þar er ýmislegt sem ég hef gert athugasemdir við. Meðal annars hef ég lagt inn fyrirspurnir til hreppsnefndar og farið fram á skrifleg svör, en svör við fyrirspurnum mínum hafa snúist meira um útúrsnúninga en málefnanleg svör.Í upphafi gerði ég athugasemdir við laun sveitarstjóra og gat með engu móti samþykkt ráðningarsamning hennar. H-lista menn hafa sagt að það hafi verið kosningaloforð hjá þeim að endurráða sveitarstjórann, ég er sannfærð um að íbúar í Vatnsleysustrandarhreppi hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þessi sveitarstjóri er að kosta okkur Bara launin hennar eru um eittþúsundkrónur á hvern íbúa í hreppnum á hverjum mánuði, fyrir utan launatengdan kostnað og lífeyrisskuldbindingar. Þetta getur aldrei kallast ekki góð fjármálastjórn, en meirihlutinn hefur verið að hreykja sér af góðri fjármálastjórn. Ég dreg það í efa að það geti talist góð fjármálastjórn að fara út í framkvæmdir fyrir á annað hundrað milljónir án þess að bjóða verkið út, en allar framkvæmdir IAV fyrir Vatnsleysustrandarhrepp voru án útboðs. Einnig get ég ekki séð að það sé góð fjármálastjórn að hafa keypt þjónustu byggingafulltrúa af Tækniþjónustu SÁ ehf eins og gert hefur verið.

Svo er það Vídeóleigan! Á hreppnefndarfundi þann 10. sept. 2002 var staðfest afgreiðsla umsóknar Halldórs Ármannssonar fyrir hönd Bentínu Jónsdóttur, en þau sóttu um leyfi til að reksturs Vídeóleigu í bílskúr hjá sér. Á sama tíma og þeim er hafnað, er nágranna þeirra í sömu götu veitt leyfi fyrir rekstri rafverkstæðis í bílgeymslu heimilis síns.

Það sem vakti sérstaka athygli hjá mér er að í fundarboði hreppsnefndar sem barst mér í pósti föstudaginn 6/9 2002, var á dagskrá fundargerð byggingarnefndar, en fundinn átti að halda mánudaginn 9/9 2002 þannig að ekkert fylgiskjal gat verið með fundarboðinu, en fundargerð þessi var svo sett í póstkassann hjá mér seint á mánudagskvöldi.

Það kom líka í ljós um leið og þessi afgreiðsla var í höfn þá hætti tilboð á vídeóspólum í Esso.

Ég vil taka það fram og legg á það mikla áherslu að ég er mjög ánægð með að slíkt verkstæði sé komið hér í hreppinn og fagna allri aukinni þjónustu sem íbúum hreppsins er veitt.

Nú liggur fyrir tillaga frá meirihluta hreppsnefndar að sveitarstjóri hafi seturétt í öllum nefndum nema bygginganefnd með málfrelsi og tillögurétt, þetta er ekki frágengið í hreppsnefnd og ég vona að þeir láti af þessari kröfu sinni.

Þetta stjórnunarkerfi er ekki eins og ég hefði kosið. Ég vil sjá meiri valddreifingu og að öllum skriflegum erindum til hreppsins sé svarað skriflega, fljótt og vel. Þegar ég skoða stjórnkerfi hreppsins verður mér oft hugsað til orða góðs manns sem búsettur er í Vatnsleysustrandarhreppi en hann sagði „Ég bý á litlu Kúbu!“

Halldóra Magný Baldursdóttir
Vogum, Vatnsleysuströnd

Stjórnsýslukæra

Vatnsleysustrandarhreppi 12. sept. 2002

Félagsmálaráðuneytið
ágæti GuðjónBragason


Efni: Stjórnsýslukæra


Ég undirrituð fulltrúi í minnihluta heppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps leita liðsinnis ykkar í máli þessu, þar sem ég tel að hér hafi stjórnsýslulög verið brotin og vísa þá m.a. í helstu grundvallarreglur um meðferð mála hjá stjórnvöldum, "Jafnræðisreglan, sem felur í sér að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis" og "Meðalhófsreglan, sem felur í sér að stjórnvöld skuli gæta hófs í meðferð valds síns"

Málavextir eru þessir helstir:

Á hreppnefndarfundi þann 10. sept. 2002 var staðfest afgreiðsla umsóknar Halldórs Ármannssonar fyrir hönd Bentínu Jónsdóttur dags. 30.júlí.2002 um leyfi til að setja upp myndbandaleigu í bílgeymslu þeirra að Aragerði 16.

Á sama tíma og þeim er hafnað er nágranna þeirra í sömu götu veitt leyfi fyrir rekstri rafverkstæðis í bílgeymslu heimilis síns.

þessari umsókn var hafnað og vísað í gr. 4.2 í reglugerð 400/1998 og sagt að það sé m.a vegna ónæðis af umferð sem fylgir þjónustustarfsemi af þessu tagi, en umsókn nágrannans var samþykkt með vísan í sömu reglugerð og sömu grein.

Máli mínu til stuðnings sendi ég ykkur (skannað) bréf frá Halldóri Ármannssyni, Aragerði 16. Vogum, fundargerð byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps, frá 9/9 2002, brot af fundargerð hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepp, frá 10/9 2002, þar sem fjallað er um viðkomandi mál.

Það sem vakti sérstaka athygli hjá mér er, að í fundarboði hreppsnefndar sem barst mér í pósti föstudaginn 6/9 2002, var á dagskrá fundargerð byggingarnefndar, en fundinn átti að halda mánudaginn 9/9 2002 þannig að ekkert fylgiskjal gat verið með fundarboðinu, en fundargerð þessi var svo sett í póstkassann hjá mér seint á mánudagskvöldi.

Við afgreiðslu þessa máls vil ég einnig benda á að við búum í litlu samfélagi, þar sem stutt er í allar áttir, flestir sem fara og sækja sér vídeóspólur fara gangandi eða hjólandi, en ég efast nú um að þeir sem eru að fara að heimsækja rafverkstæðið í sömu götu komi gangandi með tæki sín og tól til viðgerðar. Ég vil taka það fram og legg á það mikla áherslu að ég er mjög ánægð með að slíkt verkstæði sé komið hér í hreppinn og fagna allri aukinni þjónustu sem íbúum hreppsins er veitt.

Frekari upplýsingar verða góðfúslega veittar.

Virðingarfyllst
Halldóra Magný Baldursdóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024