Búum til betri börn
– Jóhann Snorri Sigurbergsson skrifar
Ein af ástæðum þess að ég fluttist til Reykjanesbæjar fyrir tæpum 10 árum var að ég varð sannfærður um að hér væri gott að ala upp börn. Hér eru öflug íþróttafélög sem hafa náð góðum árangri í meistaraflokkum í flestum ef ekki öllum þeim íþróttum sem hér eru stundaðar og ekki síður öflugt barna- og unglingastarf. Þetta tvennt helst í hendur þar sem góður árangur eldri árganga hvetur hina yngri til dáða. Ég á tvo drengi sem báðir hafa æft íþróttir frá 3 ára aldri. Sá eldri hóf æfingar með Keflavík í fótbolta í 8. flokki og flutti sig svo yfir til Njarðvíkur þegar við foreldrar hans skiptu um húsnæði. Sá yngri hefur æft sund og fótbolta auk sem hann mætir á fimleikaæfingar þegar þær skarast ekki á við annað. Mín reynsla af yngri flokka starfi þessara félaga í bænum er að hér er unnið gríðarlega öflugt starf. Þjálfararnir eru metnaðarfullir í viðleitni sinni að börnin læri aga og þroskist sem hluti af liði eða sem einstaklingar. Ég reyni að mæta á sem flestar æfingar hjá drengjunum til að sýna þeim stuðning og veit því frá fyrstu hendi hversu jákvæð þessi upplifun þeirra er. Góðir þjálfarar hafa gríðarlega mikil áhrif á upplifun barnanna og því er mikilvægt að þeir hafi nauðsynlega þekkingu og reynslu til að sinna þessu hlutverki. Reykjanesbær hefur lagt mikla áherslu á þetta og veitir félögunum þjálfarastyrki gegn því að þau standist kröfur ÍSÍ um fyrirmyndarfélög. Í umræðu fer oft minna fyrir þjálfarastyrkjum til félaganna en þeirri sem er um hvatagreiðslur. Hvatagreiðslur sem greiðast beint til foreldra kynnti Reykjanesbær fyrst sveitarfélaga fyrir nokkrum árum síðan eiga að tryggja lægri kostnað fjölskyldna vegna tómstundastarfs barna. En gæði íþrótta- og unglingastarfsins þurfa að vera í lagi og fagleg svo börnin fái sem mest út úr þátttöku í þeim. Við Sjálfstæðismenn höfum metnað til þess að auka hvatagreiðslur vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna og er ég þess fullviss að við munum sjá mjög jákvæða þróun í þá átt á næstu árum. Greiðslurnar hækka nokkur á þessu ári frá því sem áður var og munu hækka áfram á næstu árum ef við fáum til þess stuðning í næstu kosningum.
Góðar samgöngur skipta miklu máli
Sem íbúi í Njarðvík, með drengi í Akurskóla og leikskólanum Akri, veit ég líka að það getur verið flókið verk að koma börnunum til og frá æfingum. Breytt leiðarkerfi og aukin tíðni strætisvagna hefur hjálpað mikið þar sem eldri drengurinn getur nýtt sér það til að komast á æfingar. Vagnarnir ganga á hálftíma fresti og getur hann verið mættur rétt fyrir æfingar og náð strætó heim að þeim loknum. Þann yngri sem er enn á leikskóla skutlast ég þó enn með og fagna því að geta átt tækifæri til þess en það er oft púsluspil með vinnu. Við eigum að stefna að því að koma sem mest af tómstundastarfi barnanna okkar fyrir sem fyrst frá því að skóla lýkur og reyna að skapa betri heild úr dögum barnanna. Það er samstarfsverkefni bæjarins, íþróttafélaga, tónlistarskóla og annarra aðila sem vinna með börnunum okkar. Hluti af því er t.d. að koma frístundarútunni aftur í gang fyrir yngstu hópanna.
Börnin eru í tónlistarnámi í 1. og 2. bekk í grunnskóla og stunda tónlistarnám sitt á skólatíma í næstu bekkjum þar fyrir ofan sem veitir þeim dýrmætan aðgang að tónlistarnámi fyrir þá sem það kjósa, þessa hugmyndafræði má útvíkka til að ná til annarra tómstunda.
Við erum með einn öflugasta tónlistarskólann á landinu sem hefur nú flutt sig í ný og glæsileg heimkynni í Hljómahöllinni og öflugt barna og unglingastarf í íþróttum.
Höldum áfram að bæta þetta góða starf og tryggjum að börnin okkar njóti alls þess besta.
Jóhann Snorri Sigurbergsson
frambjóðandi D-lista Sjálfstæðisflokksins