Burt með slysagildrurnar
Aðsend grein frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
Forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar hefur verið á að ná tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar, ná stöðugleika og búa til fjárhagslegt svigrúm sem þarf til að byggja upp innviðina. Heilbrigðiskerfið hefur verið í fyrirrúmi á forgangslistanum en við megum ekki gleyma samgöngunum. Við verðum að auka fjármuni til samgangna, bæði viðhalds og nýframkvæmda, og hagsmuni Suðurnesja verður að verja á þeim vettvangi.
Reykjanesbrautina efst á listann
Fyrir nokkrum árum fór af stað átak á vegum Suðurnesjamanna sem börðust fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. En brautin var mikil slysagildra. Samstaðan skilaði okkur tvöföldun. Nú er snýst verkefnið um að klára tvöföldun að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og laga öll gatnamót sem liggja að brautinni. Þar hafa orðið dauðaslys og fleiri alvarleg slys. Við það getum við ekki búið. Um brautina fer mikil umferð daglega, hraðinn er mikill og þungaflutningar algengir bæði á vörum og fólki. Ásigkomulag vegakaflans er ekki ásættanlegt.
Næst á dagskrá
Alþingi hefur samþykkt samgönguáætlun til næstu fjögurra ára og þar með að veita 300 milljónum króna í bráðaaðgerðir sem fela í sér gerð tveggja hringtorga við gatnamót á Reykjanesbraut, við Aðalgötu og við Flugvallarveg auk endurbóta á Hafnavegi. Tvö hundruð milljónum króna verður veitt í gerð hringtorganna á árinu 2017 og á árinu 2018 verða hundrað milljónum veitt til endurbóta á Hafnavegi, þar sem meðal annars er mjög hættuleg vinstri beygja. Það er áfangasigur að ná þessum framkvæmdum inn í samgönguáætlun þar sem ferlið við gerð hennar er bæði langt og þungt. Um þennan vegakafla fara nú 15 þúsund bílar á dag. Næstu skref felast í að tvöfalda Reykjanesbraut frá Fitjum að Rósaselshringtorgi. En í fyrsta áfanga þess verks verða framkvæmdir við mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg.
Þvottabrettin
Í sumar voru talsverðar framkvæmdir á Grindavíkurvegi, við gatnamót Bláa lónsins, til að auka umferðaröryggi á þeim kafla. Það var þarft og gott verk en enn þarf að bæta ástand Grindavíkurvegarins þar sem umferð um hann hefur stóraukist hin síðari ár. Hið sama á við um Reykjanesbrautina, frá Fitjum að Hafnarfirði. Vegagerðin hefur nýtt sumarið í viðhaldsframkvæmdir á nokkrum köflum en betur má ef duga skal. Auka þarf fjárframlög til viðhalds og nýbygginga vega og bæta umferðaröryggi kerfisbundið samkvæmt sérstakri umferðaröryggisáætlun.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins