Buðu í atvinnumálaferð um Reykjanesið
Nýtt fyrirtæki í Reykjanesbæ bauð Byggðastofnun og tengdum aðilum í sérstaka ferð um Reykjanesið þann 18. september síðastliðinn. Fyrirtæki þetta hefur verið í burðarliðnum lengi og margir komið að því. Í dag eru komin á annan tug fyrirtækja inn sem hluthafar og teymisaðilar. Fleiri standa við þröskuldinn og eru að virða fyrir sér möguleikana. Fyrirtækið TurnKey Consulting Group eins og kemur fram í stefnumótun fyrirtækisins er regnhlíf þekkingar þar sem við munum ekki eingöngu vera andlit út á við á markaðnum heldur nær því að vera markaðurinn sjálfur og innviðir hans eftir því sem fleiri bætast í hópinn með sérhæfða þekkingu á hinum ýmsu sviðum.
Fyrirtækið mun vinna fyrir alla sem til þess leita, skilgreina verkefni og koma þeim í ákveðinn farveg. Stefnan er að fyrstu skrefin hjá hugvitsmönnum og frumkvöðlum verði án endurgjalds og væntum við þess að með því móti verði engum úthýst sem telur sig hafa góðar hugmyndir í farteskinu. Eða eins og fram kemur á heimasíðu Byggðastofnunar: "Frumkvæði og framtak út á landsbyggðina"
Því vildum við hjá TurnKey Consulting Group hafa frumkvæði að því að bjóða Byggðastofnun og tengdum aðilum í sérstaka ferð til að skoða þau tækifæri sem eru á Reykjanesinu og um leið skapa grundvöll til þess að skiptast á skoðunum um atvinnumál. Á Reykjanesi eru fjölmörg tækifæri og má þar nefna, 100 hektara iðnaðarland í Helguvík, stálpípuverksmiðju, orkuver á Reykjanesi, víkingaheima að Fitjum sem mun verða ein stærsta einstaka víddin í ferðaþjónustu á Reykjanesi, safnahús í Garði, Ósabotnaveg, Hótel Festi, Flug og Sögusafn Reykjaness, Brú milli heimsálfa, Suðurstrandaveg, Bláa Lónið, Fræðasetur, Sæbýli og margt fleira sem er nú þegar komið í framkvæmd og annað sem er á vinnslustigi. Þetta er alls ekki tæmandi listi en gefur ákveðna hugmynd um tækifærin sem eru hér á svæðinu og hvers er hægt að vænta af þeim í framtíðinni. Það er von okkar hjá TKC að heimsókn þessi hafi orðið til þess að efla þá framtíðarsýn sem við höfum á svæðinu og um leið tengi aðila saman í öflugt samstarf til að ná sem bestum árangri í atvinnu- og byggðaþróun á svæðinu. Við viljum leggja okkar af mörkum og hvetjum aðra til þess að gera slíkt hið sama.
Stjórn TurnKey Consulting Group