Bryndís Gunnlaugsdóttir sækist eftir 1. sæti Framsóknarflokks í Grindavík
Ég, Bryndís Gunnlaugsdóttir, hef ákveðið að sækjast eftir 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Grindavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Hávær krafa er nú uppi um endurnýjun á framboðslistum stjórnmálaflokka í komandi sveitarstjórnarkosningum í Grindavík enda hafa tíð meirihlutaskipti ekki farið fram hjá neinum. Fjöldi Grindavíkinga hefur sýnt mér stuðning og traust og óskað eftir því að ég gefi kost á mér til að leiða lista framsóknarmanna. Ég hef ákveðið að verða við þeirri áskorun. Treysti framsóknarmenn mér til að leiða lista okkar mun ég vinna af heillindum, sanngirni, metnaði og með hagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi.
Ég er 29 ára, lögfræðingur, fædd og uppalin í Grindavík, dóttir hjónanna Gunnlaugs Jóns Hreinssonar og Láru Marelsdóttur. Ég hef lokið meistaranámi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Með námi starfaði ég hjá Útlendingastofnun, var í starfsnámi hjá Héraðsdómi Reykjaness og lærlingur á lögfræðistofu Stanzler, Funderburk & Castellon LLP í Los Angeles. Í dag starfa ég sem lögfræðingur hjá PricewaterhouseCoopers hf.
Ég hef víðtæka reynslu af félagsmálum og hef sinnt ýmsum trúnaðarstörfum innan Framsóknarflokksins og er í dag formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Sem formaður SUF hef ég fengið mikla reynslu við að stýra starfi félagsins en félagsmenn eru yfir 3.500 einstaklingar. Þá situr formaður SUF þingflokksfundi Framsóknarmanna og situr í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins. Ég er einnig varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Ég tel mig geta lagt gott að mörkum í þágu Grindavíkur með það að leiðarljósi að setja ávallt manngildi ofar auðgildi.
Grindavík, 5. janúar 2010
Bryndís Gunnlaugsdóttir