Brottfall yfirmanna hjá Sveitarfélaginu Vogum áhyggjuefni
- alls hafa 5 forstöðumenn hætt síðastliðin 2 ár, þar af 3 skólastjórar
Styrk fjármálastjórn – stjórnun í molum?
Meirihlutinn í Vogum hreykir sér þessa dagana af styrkri fjármálastjórnun á sama tíma og forstöðumenn virðast ekki treysta sér til að vinna fyrir bæinn. Á síðastliðnum tveimur árum hafa 5 forstöðumenn hætt, byggingafulltrúi, 2 skólastjórar, leikskólastjóri og tómstundafulltrúi, allt úrvalsstarfsfólk sem slæmt var að missa. Þar af hafa 3 forstöðumenn hætt það sem af er þessu ári. Svo ekki sé minnst á fjölda kennara sem hætt hafa síðan meirihluti E-listans tók við stjórn Sveitarfélagsins. Því hlýtur maður að spyrja, er ekki eitthvað að í stjórnun bæjarfélagsins?
Þrír skólastjórar á tveimur árum
Það gefur auga leið að þegar þrír skólastjórar hætta á tveimur árum, þá hlýtur það að hafa mikil áhrif á innra starf skólanna. Eftir að E-listinn tók við hefur verið gríðarlega erfitt að manna kennarastöður, vandi sem H-listinn átti aldrei við að etja í sinni 16 ára stjórnartíð. Án efa hefur mikil mannekla í skóla og leikskóla verið afleiðing þessara tíðu skólastjóraskipta. Staðan í grunnskólanum er til að mynda sú að kennarar sem hafa kennt við skólann svo áratugum skiptir eru að hætta og nú vantar á annan tug kennara til starfa.
35 milljón króna tap árið 2007 og veltufé frá rekstri 6 milljónir
E-listinn hefur undanfarið flaggað í fjölmiðlum 129 milljón króna veltufé frá rekstri. 100 milljónir af þessari upphæð eru vaxtatekjur vegna sölu á hlutabréfum í Hitaveitu Suðurnesja. Raunverulegt veltufé frá rekstri þegar salan á HS er dregin frá, er 6,7 milljónir og tap á rekstrinum 35,8 milljón krónur. Það er móðgun við íbúa sveitarfélagsins að viðhafa slíka blekkingu. Á sama tíma og árið 2007 var eitt besta ár í rekstri sveitarfélaga á Íslandi er árangurinn ekki betri en raun ber vitni.
Engar nýjar framkvæmdir síðan E-listinn tók við
Það er ekki erfitt skila afgangi frá rekstri sveitarfélaga í góðæri og þegar engar framkvæmdir eru. Þrátt fyrir bestu aðstæður, nær E-listinn ekki að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Í stjórnartíð H-listans var miklu fé varið í uppbyggingu til að laða að nýja íbúa með það m.a. fyrir augum að auka hagkvæmni rekstrarins.
Síðastliðinn föstudag var fyrsta skóflustungan tekin að nýju hverfi í sveitarfélaginu Vogum, undirbúningur helstu forsvarsmanna sveitarfélagsins var ekki meiri en svo að forseti bæjarstjórnar sá ekki ástæðu til að boða sína eigin bæjarfulltrúa til að vera viðstadda, hvað þá fulltrúa minnihlutans. Sýnir þetta ekki áhugaleysi á mikilvægum framfaramálum í sveitarfélaginu? Framfaramálum sem unnin voru að nær öllu leyti í stjórnartíð H-listans. Þessari uppbyggingu er E- listinn nú að hreykja sér af sem sínum eigin verkum.
Sú mikla tekjuaukning vegna útsvars árið 2007 er ekki vegna styrkrar stjórnar E-listans heldur vegna þess að H-listinn úthlutaði lóðum og laðaði nýja íbúa til bæjarfélagins. Hvað hefur gerst síðan E-listinn tók við völdum? EKKERT. Örfáum lóðum hefur verið úthlutað, en meðal þeirra sem nú eru að byggja eru bæjarstjórinn og forseti bæjarstjórnar!
Bæjarfulltrúar H listans í Vogum
Inga Sigrún Atladóttir
Sigurður Kristinsson
Íris Bettý Alfreðsdóttir