Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

„Brotin kosningaloforð“
Fimmtudagur 28. október 2010 kl. 13:20

„Brotin kosningaloforð“

Mér varð hugsað til síðustu sveitastjórnarkosninga þegar ég las grein á íslenskum vefmiðli um daginn um væntanlegan niðurskurð í Reykjanesbæ. Tiltekin umfjöllun fjallaði m.a. um niðurskurð á umönnunargreiðslum til foreldra ungra barna.

Þegar boðað var til kosninga í ár fóru bréfsneplar að hrúgast inn um bréfalúguna mína líkt og hjá mörgum öðrum. Meðal þeirra var stór bæklingur frá Sjálfstæðismönnum sem bar heitið “Við saman”. Þegar ég gerði upp hug minn las ég alla þessa bæklinga samviskusamlega og rýndi í eitt kosningaloforð Sjálfstæðismanna sem fólst í því að þeir ætluðu að tryggja áfram umönnunargreiðslur til barna fyrir leikskólaaldur auk þess sem hækka átti þessar greiðslur í áföngum. Ég tók þessu loforði vissulega með fyrirvara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég átti ekki erfitt með að gera upp hug minn og kaus samviskusamlega þann flokk sem ég hafði mesta trú á. Það voru ekki Sjálfstæðismenn.

Ég var bjartsýn á breytingar en þegar niðurstöður kosninganna voru ljósar féllust mér hendur. Aftur, höfðu íbúar Reykjanesbæjar kosið yfir okkur Sjálfstæðismenn.

Hvað um það. Ekki allir vita hvað umönnunargreiðslur eru eða hvaða tilgangi þær þjóna. Sem móðir tveggja ungra barna hef ég í tvígang þurft að nýta mér umönnunargreiðslurnar síðan 2007 og tel mig því nokkuð fróða um það fyrirkomulag.

Umönnununargreiðslur eru í raun greiðslur sem foreldrar eiga rétt á eftir töku fæðingarorlofs og þar til barninu hefur verið úthlutað leikskólaplássi við 18-24 mánaða aldur. Þessar greiðslur eiga að gefa foreldrum tækifæri á að vera lengur heima með barni sínu eftir að fæðingarorlofi þeirra lýkur eða geta kosið að láta þær ganga upp í dagvistunargjald hjá dagforeldrum. Þessi upphæð er svo mikið sem 25 þúsund krónur á mánuði.

Þegar þessar greiðslur hófust var upphæðin 30 þúsund krónur. Nú þegar hafa þær verið lækkaðar um 5000 kr.

Gallinn við þetta fyrirkomulag er því miður tvenns konar. Annars vegar getum við sjálf sagt okkur það að enginn sem rekur heimili lifir eingöngu á 25 þúsund krónum á mánuði þannig að sá möguleiki að dvelja lengur heima með barninu sínu eftir töku fæðingarorlofs án nokkurra annarra tekna er mjög lítill.

Hins vegar er hinn gallinn sá að þessi upphæð kemur í stað niðurgreiðslu til dagforeldra. Foreldrar þurfa því sjálfir að leggja út fyrir heildargreiðslu til dagforeldra í hverjum mánuði, sem getur numið frá 60 þúsund krónum og allt að 90 þúsund krónum. Þessar 25 þúsund krónur koma síðan á móti. Miðað við önnur sveitafélög þá er þessi upphæð mjög lág. Í flestum sveitarfélögum niðurgreiðir sveitarfélagið beint til dagforeldra og síðan er upphæð foreldranna reiknuð út frá félagslegri stöðu þeirra, þ.e.a.s. hvort foreldrarnir séu í sambúð, einstæðir, atvinnulausir, í námi o.s.frv. Í Reykjanesbæ er það ekki þannig. Þar eru allir settir undir sama hatt. Sambúðarfólk og hjón fá til að mynda aðeins greitt frá 9 mánaða aldri barns , sem þýðir það að ef báðir foreldrar hafa lokið töku fæðingarorlofs um 6 mánaða aldur þá þurfa þeir að greiða fullt dagvistunargjald í 3 mánuði.

Nú hefur bæjarstjórn ákveðið að stytta þetta tímabil úr 15 mánuðum og niður í 6 mánuði. Hagnaðurinn er eflaust mikill fyrir bæjarfélagið en hverjar eru afleiðingarnar fyrir unga barnafólkið sem treystir á þessar greiðslur? Ég get sagt ykkur það. Þetta þýðir það að fólk á eingöngu rétt á þessum greiðslum frá því að barnið nær 9 mánaða aldri og til 15 mánaða aldurs. Frá 15 mánaða aldri og þar til barnið kemst inn á leikskóla, sem er venjulega við 24 mánaða aldur, þurfa foreldrar því að greiða dagvistunargjöldin að mestu eða alfarið úr eigin vasa. Upphæð sem getur hæglega numið helming tekna þessa fólks og rúmlega það. Við erum að tala um ungt barnafólk sem býr á svæði þar sem er mesta atvinnuleysið á landinu! Mér er svo fullkomlega misboðið að orð fá því ekki lýst.

Sjálf er ég uppalin í Reykjanesbæ og hef búið þar alla mína ævi. S.l. vor lauk ég námi af sjúkraliðabraut auk þess sem ég lauk stúdentsprófi. Þegar því var lokið vissi ég að ég þyrfti að flytja af svæðinu. Ég átti ekki kost á atvinnu við mitt hæfi og ég gat ekki stundað frekara nám á háskólastigi þar sem ég hafði ekki efni á því að greiða dagvistunargjöld með námslánunum mínum. Ég neyddist til þess að flytja frá Reykjanesbæ. Ég veit að nú standa fleiri en ég frammi fyrir þessari ákvörðun, ungt fólk sem er annað hvort atvinnulaust eða í námi, með algjöra lágmarksframfærslu á mánuði. Þetta fólk þolir ekki frekari skerðingar. Mín kynslóð er valin sem “breiðustu bökin” þegar í raun hún er það ekki.

Ég skora á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að endurskoða ákvörðun sína eða leggja fram raunhæfar tillögur til að koma til móts við barnafólkið í bæjarfélaginu.

Mbk.

Sara Björg Pétursdóttir
Nemi í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri.