Bróðurþel Lalla og Birgis III
Afmælisveislan
„Til hamingju með afmælið, Sessa mín," segi ég um leið og ég kyssi systur mína á kinnina. Við hliðina á vagnstjórabúningi húsbóndans hengi ég upp yfirhafnirnar af mér og syni mínum á sjöunda ári.
„Hæ Lalli. Það er mikið að maður fær að sjá þig," segir Eygló sem nú birtist í gættinni svo hugljúf að erfitt er að ímynda sér að þar fari einn mesti slagsmálagikkur unglingsáranna.
Uppi á efri hæðinni heyrast hvatningarhróp frá ungu kynslóðinni. Andrés, átta ára, sonur Sesselju og Rúnars, er í tölvuleik.
„Ó, ó, hann er kominn í draugahúsið. Passaðu þig, passaðu þig, ertu orðinn snar?” bergmálar á milli veggjanna.
„Indíána Jones," hrýtur af vörum sonar míns sem tekur viðbragð og þýtur upp stigann.
Ég lít inn í eldhúsið og sé að Birgir er að hella sér kaffi í bolla.
„Komdu sæll."
„Sömuleiðis."
„Alltaf jafn gaman að hitta þig."
„Það skulum við vona."
„Ég var að horfa á svo frábæran þátt með Chuck Berry í sjónvarpinu í gær. Sástu þáttinn?"
„Heldur betur," svarar Birgir hressilega, „tók hann meira að segja upp á myndband."
„Þeir fóru á kostum hann og Julian Lennon í „Johnny B. Goode."
„Strákurinn er góður eins og pabbinn og raddirnar furðu líkar,” segir Birgir og bætir við,
„þetta er í genunum á honum, erfist á milli feðganna, á því er enginn vafi."
„Þá þarf ekki að spyrja þig um tónlistina, gengur mann af manni. Er ekki Ingi sonur þinn í músíkinni rétt eins og guttinn minn fyrir vestan?” spyr ég.
„Byrjaður í hljómsveit, segðu. Spilar á hljómborð, ekki orgel, hljómborð. Á því er stigsmunur hjá ungu kynslóðinni. Ég hef þó enga trú á að erfðirnar hafi fært honum ofurgnægð eða gullskeiðar hvað mig varðar, heldur að þetta sé frá honum sjálfum komið."
„Hvaða hógværð er þetta. En þú, ert þú hættur öllu gítarpikki?"
„Já og nei." Bróðir gefur sér tíma til að ná sér í mjólk í ísskápinn.
„Einhver fann það út fyrir austan og kann ég honum engar þakkir, að ég myndi pluma mig flott ef ég fengi tækifæri. Og áður en ég vissi af var allt klappað og klárt, auglýsingar upp um veggi og ég skráður til hljómleikahalds með sólarhrings fyrirvara í kirkjunni á staðnum.”
„Í kirkjunni?" spyr ég undrandi. Frumsamda efnið hefur auðvitað tekið sinn skerf af efnisskránni, prelúdíur, fúgur, svítur og annað?"
„Heimur versnandi fer get ég sagt þér Lalli minn, þegar smástirnin fara að verða boðleg út um borg og bý. Að vísu voru þetta ekki nema tvö lög."
„Það hefur reddast?"
„Þú getur rétt ímyndað þér."
Þó fátæktin hefði oft nætt um taugar á nöprum vetrarkvöldum í uppvextinum, var með ólíkindum hvað margt klæddi okkur vel, féll eins og klæðskerasaumað beint úr búðinni, og hvað var til betra en að spóka sig snyrtilegur til fara í afmæli, brakandi fínn, í betri fötunum, innan um þá sem manni þótti vænst um?
„Eitt hefur mig langað til að spyrja þig að hin síðari ár, hvernig ferðu að þessu?" Ég banka létt með handarbakinu á jakkaboðungana í magahæð.
„Hverju?"
„Nú að vera alltaf svona nettur en samt viðhaldið þessum þétta massa sama hvað árunum líður?"
„Því er erfitt að svara. Útiveran, fjallaloftið."
„Labbarðu mikið á fjöll?"
„Aðeins."
„Þarf ekki sérútbúnað, sérstaka skó..?"
„Það þýðir ekkert að ætla sér í fjallgöngu í strigaskóm. Þeir geta verið stórhættulegir á hálu grjótinu, ef þú ert á göngu þar sem laust er fyrir, í urðum og skriðum."
Hér hef ég kveikt áhuga hjá Birgi.
„Þarf ekki skó sem halda vel um ökklana. Hermannaskór væru þeir ekki upplagðir?"
„Ef maður kæmist í slíkan munað..." Bróðir lætur dæluna ganga.
„Ég held nú samt," gríp ég fram í „að það sé eitthvað annað en útiveran og fjallaloftið sem geri það svona gott að búa í sveitinni."
„Ég veit..." Hann ætlar að segja eitthvað, hrukkar ennið en hættir svo við.
„Ætli það ekki. Viltu?" spyr hann mig um leið hann lyftir kaffikönnunni undan trektinni og gerir sig líklegan eftir bolla upp í skáp.
„Jú endilega, tíu takk."
Ég ber bollann upp að vörunum og vellíðunar stuna brýst fram á milli varanna þegar sopinn rennur ljúflega niður.
„Það hressir Bragakaffið," verður Birgi að orði.
„Þetta er ekki Bragakaffi."
„Hefur ekki hugmynd um það, varst að koma inn."
„Ég segi þá eins og ráðherrann sem aldrei varð orða vant en var hankaður
á einni skröksögunni. Þetta hefði getað verið satt."
„Er ekki annars allt gott af þér að frétta?"
"Allt gott að frétta nema af þessum bíl," svara ég mæðulega.
„Hann er svo forkastanlegur."
„Er Kangoo-inn að angra þig?"
„Ég er farinn að trúa því að þessi skrölttík, nei ég meina eðalvagn, sé að breyta mér í frjálsíþróttamann."
Birgir ýtir gleraugunum betur upp á nefið, læst vera að laga til jakkann með því að hreyfa til axlirnar en er í raun að fela brosið sem óvart brýst fram á varirnar.
„Í krumpuðum rykfrakka gæti ég nú frekar trúað að hann breytti þér í Columbo. Er Kangoo-inn orðin svona tregur í taumi, segirðu?"
„Frekar mætti útleggjast að hann væri orðinn svona þungur á öxlinni. Sjáðu."
Ég svipti frá mér jakkanum og sýni línurnar.
„Hvað?"
„Er að verða eins og þú , sérðu það ekki maður, fjallafari, heilsufrík og aflraunatröll."
„Hvort ég sé, þakka hrósið, ef þú ert að verða eins og ég... og ég að verða svona íþróttamannslega eggjandi í vextinum..."
„Já haltu áfram. Þetta fer að verða spennandi."
„Hvað í ósköpunum er þá þetta?" spyr hann og bendir á umframþyngd sem slútir fram yfir beltið."
„Þetta? Þetta er ekki neitt. Vöðvageymsla áður en ég pumpa búntin og hnykla vöðvana eins og Schwarsenegger."
„Í hvíldarstöðu?" Hláturstaugin er farin að kitla svo magann hjá Birgi að hann er hættur að horfa á mig.
„Hvað?"
„Er líkaminn þá núna í hvíldarstöðu?"
„Einmitt. Þó brjóstkassinn hafi sigið þetta nokkurn veginn niður að belti get ég fullyrt að allt annað eru hreinir vöðvar."
Inni í stofunni má sjá föndur liðinna ára, málaða leirmuni, styttur, skálar og klukkuumgjörðir. Pastelmyndir af íbúunum hanga upp á vegg ásamt stórri mynd af hesti sem hleypur út úr kólgu litafans með einurð og allt að því trylling í augnaráðinu. Samræðurnar snúast um uppeldisstöðvar móðurættarinnar norður í landi. Þær systurnar, móðir mín og Unnur, feta sig frá úthaga að heimatúni með viðkomu á bæjunum í kring. Spákonufellshöfði kemst inn í umræðuna, klettaborg úr stuðlabergi sem afmarkar þessa breiðu vík sem byggðin stendur við. Heimilið við sjávarsíðuna, tveggja hæða steinhús með viðarþiljum og trégólfi.
Unnur hefur sett sig í frásagnarstellingar, hallar sér að borðinu og lætur augun líða yfir hópinn.
„Ég gleymi aldrei hvað ég var hrædd við lækninn, þegar ég var lítil stúlka. Ja, það var þannig að ég frétti af heimsóknum hans og í nokkur skipti vildi svo óheppilega til, eins og fylgir gamla fólkinu að það hreinlega dó og auðvitað setti ég það í samband við lækninn."
Nokkur kliður heyrist frá ungmennunum sem hlaupa upp og niður stigann.
Ungur drengur með grallarasvip um andlitið vill endilega fá að sýna hæfni sína í fimleikum, tekur upp á því að velta fram yfir sig, hverfur sjónum með skarkala inn í næsta herbergi.
Dóttir Svandísar ásamt Ægi, syni Birgis, koma hlaupandi inn í stofu, fela sig við endann á skenkinum.
„Er þetta löggubófaleikur?" heyri ég hana spyrja.
„Nú, nú," segir Unnur, hagræðir kaffibollanum á hvítri undirskálinni og lætur ekki slá sig út af laginu.
„Nokkru síðar, skal ég segja ykkur, átti ég að fara til hans. Ég man ekki af hvaða tilefni, trúlega hefur átt að bólusetja mig, og þó, ég man þetta ekki. Jæja."
Unnur hækkar róminn og setur grátklökkvan hljóm í röddina.
„Mamma mín! Ekki senda mig til læknisins, ekki senda mig til læknisins þá dey ég ábyggilega. Hvaða vitleysa er þetta í þér barn."
Hún rétt nær að bleyta varirnar áður en hlátursrokan brýst fram.
Ein sjö eða átta börn standa í hnapp í stiganum, fremstur Andrés sem bendir inn í stofuna.
„A - ha, búinn að finna ykkur. Eruð inn í stofu. Gefið ykkur fram og upp með hendur ef þið viljið ekki að við gerum áhlaup."
Eftir lágvært samtal og „nei, nei," við allri uppgjöf skríða frændsystkinin út úr fylgsni sínu.
„Þið svindlið. Við fengum ekki nægan tíma til að fela okkur," svarar Björg, dóttir Svandísar, með festu í röddinni. Hún vill meina að handtaka á svo veikum forsendum sé hreint lögreglumál.
Orðakliðurinn eykst, allir virðast hafa rétt fyrir sér.
„Ég hef aldrei séð konu með jafn falleg augu og ömmu," nær Sesselja að koma inn í umræðuna.
„Og fallega liðað, glóbjart hár," áréttar móðir okkar.
„Og saltkjötstunnan," bætir hún við með áhersluþunga. „Aldrei reiddist pabbi þó hann kæmi að henni galtómri hvað eftir annað."
„Já blessunin útdeildi þessu til þeirra vandalausu, afskiptu og umkomulausu hvenær sem færi gafst."
Ljúfsár tilfinning svífur yfir vötnunum og mér finnst tími til kominn að leggja mitt af mörkum í umræðuna.
„Hver átti allan þennan helling af Basil fursta?" (Bækurnar um Basil fursta eru litlar kiljur sem fjalla um mann sem ásamt þjóni sínum eltast við bófa og ræningja í kringum aldamótin 1900. Mjög spennandi og vel skrifaðar þýddar skáldsögur.)
Systurnar þagna og líta brosandi hvor til annarrar eins og þær séu að gera upp við sig hvor eigi að svara. Á meðan hafa börnin dreift sér út um hvern krók og kima í húsinu. Í herberginu við hliðina á stofunni hafa tveir guttar fundið kassa fullan af smádóti og gramsa allt hvað af tekur.
„Það er miklu auðveldara að finna stýrið í öllu Legóinu ef við hvolfum úr kassanum á gólfið," segir sá stærri og býr sig undir að hefjast handa.
Löggubófaleikurinn hefur fært út kvíarnar. Það er rótað í öllu, grafið inn undir, falið sig á bak við, eða skriðið undir rúm. Hver einn og einasti hefur náð að hverfa sporlaust af sjónarsviðinu þegar sonur minn og Andrés labba niður stigann. Byssubeltin á sínum stað, slútandi hattabörð niður fyrir augu að ógleymdum köflóttum afaklút um hálsinn. Strokið eftir jaðri kaldra byssuskeftanna með ögrandi sveiflu áður en hendur eru settar í viðbragðsstöðu í hálfboga út frá síðum.
Þögnin varir í nokkrar sekúndur en þá brestur það á.
„Ég hitti."
„Nei ég, áður en þú hreyfðir þig."
Það er rifist skotið og skammast í allar áttir. Villta Vestrið í algleymingi, íbúðin er rústir einar. Sesselja stenst ekki mátið lengur.
„Viljið þið hafa hljóð, þarna."
Andrés setur sig í stellingar andspænis móður sinni í stiganum.
„Hvernig hljóð, svona hljóð?"
Leikur eftir geltandi vélbyssu með viðeigandi handsveiflu.
„Eða svona hljóð?" Furðuhljóð sem aðeins fyrirfinnast í leikjatölvu eru næst á dagskrá og mér verður á að líta upp og horfi á son minn með opinn munn og augu á hverri hreyfingu frænda síns. Einhvern tímann mun hann þjálfa nákvæmlega þetta atriði á okkur foreldrunum.
„Ef þú lætur svona illa, verða krakkarnir að fara. Heyrirðu það Andrés?" Sesselja er staðin á fætur.
„Allir upp."
Börnin hverfa eins og dögg fyrir sólu.
„Má ég bjóða ykkur meira kaffi?" spyr hún lafmóð eftir ræðuhöldin og snýr sér í áttina að dúklagða borðinu sem hlaðið er litríkum gómsætum kökum, gosflöskum og bollastellum. Samræðurnar missa niður takt við þessa truflun en sveigja síðan aftur í gamla farið. Orðið gengur mann af manni með kynstur öll af fróðleik frá liðnum tíma.
Uppi á lofti í rólegheitum sitja ungar stúlkur við borð og eru að leika sér með púsl af Íslandi.
„Þórshöfn er á Langanesi fyrir austan," fullyrðir Ólína Margrét dóttir afmælisbarnsins.
„En Aðalvík, er hún til á Íslandi?" spyr frænka hennar sem á heima innar í sömu götu.
„Ég hef aldrei heyrt á hana minnst."
„Þú getur séð það á löguninni. Eru margir firðir í kring?"
„Já."
„Þá myndi ég veðja á Vestfirði."
Nokkrum tímum síðar er orðið tímabært að drífa sig af stað heim á leið. Við klæðum okkur og kveðjum fólkið í dyragættinni. Það má sjá langar leiðir að unga manninum, syni mínum, hefur þótt gaman í afmælinu.
Það sem mig undrar mest er hvað allt fer í hring. Fegurðin, hugsjónirnar, kærleikurinn og ómurinn frá þessu indæla vori lífsins. Stundum er sagt að „tvisvar verði gamall maður barn” og við oft minnt á hve mikilvægt sé að viðhalda barninu í okkur sjálfum, einlægninni, einfaldleikanum og lífsfjörinu þegar við fullorðnumst. Ég er þess fullviss að árin munu færa okkur dýpri skilning á því hvað skiptir og hvað ekki „máli” þegar halla fer að degi.
Með kvöldinu ætla ég að setja mig niður og rifja upp eitthvað af ævintýrum Lalla og Birgis og segja ykkur frá þessum góðu en dálítið myrkfælnu drengjum, því þeir eru mér hugleiknir. En áður en ósköpin byrja úr heimi æskunnar, fyrir alvöru, áður en ég fer að ydda blýantana, er best að nota morgundaginn til að heimsækja gömlu konuna, móður mína, sem mun bíða með rjúkandi kaffi, smurbrauð og alls kyns kökur innan um blómin sín, ef af líkum lætur. Og minningarnar munu þá tala til mín í gegnum myndaalbúm, viðmót og hluti. Með andagiftina, löngunina og hugarflugið í lagi veit ég að rithöfundurinn innra með mér mun vakna til lífsins og láta mig berast með straumi minninganna aftur í tímann, fá löngu liðin atvik til að birtast, stíga fram og raða sér saman. Sjoppur með stóreflis gosdrykkjatappa á hliðunum, mjólkurbúðir, apótekaralakkrís, opinn hugur og iðandi lappir, svo óteljandi atriði sem mynda til samans, bernskuna.
Hæ!!
Þetta er ég, Lalli.
Alltaf að reyna að skrifa eitthvað spennandi.
Verð 10 ára eftir einn mánuð. Sit við franska gluggann heima og er með opna stílabók fyrir framan mig. Veit sama og ekkert um hvað ég ætla að skrifa. Áður en ég segi nokkuð ættirðu bara að vita hvað ég á flottan bróður sem heitir Birgir. Hann er svo sérstakur og flottur að ég get eiginlega ekki lýst því. Tæpra 8 ára, frekur en samt ekki svo…jú hann er mjög góður strákur sko… ummmm…. Æjjii… Ég finn að það er allt orðið tómt og frosið þarna uppi. Hugarflugið, löngunin til að skrifa er mér horfin á braut. Þetta er vita vonlaust, segi ég mæðulega við sjálfan mig, eftir nokkrar tilraunir, leggst fyrir og byrja að lesa uppáhalds barnasöguna mína.
Höfundurinn er danskur og bókin fjallar um strák, Knút, sem er alltaf að hjálpa öllum. Þessi drengur er mitt uppáhald, enda er hann Skáti, hetja og ... Ég lifi mig inn í hverja atburðarásina á fætur annarri, blaðsíðu eftir blaðsíðu og áður en ég veit af orðinn einn af söguhetjunum… Vá, hvað þetta er gaman!!
Ég var eins og hann, hann var eins og ég!
Svo liðu dagar og nýi drengurinn var farinn að festa rætur í hjartanu, breyta mér og ýmsum kenndum sem höfðu blundað, ef til vill sofnað og því ekki náð að þroskast sem skyldi. Þessi dökkhærði hnokki, Knútur, var orðinn mér meira en andlegur leiðtogi og fyrirmynd. Hann var eitthvað óútskýranlega heilbrigt og lifandi sem festi sig inn í sálinni, varð göfugur innblástur á æðra plani, örvaði mig til athafna þó hann ætti einungis heima í ævintýrabók.
Ýmist eyddi hann dögunum í höndum mér eða undir koddanum, eftir því hvað mikið var að gerast. Hann var eins og ég, ég var eins og hann, en þegar hugsjónirnar náðu til handanna, til veruleikans byrjuðu vandræðin. Í nálægum götum var ég líkastur sporhundi, rakti slóðir í leit að ranglæti.
Eitt sinn, það var nú ekki oftar, féllst Íris á að lána mér hjólið sitt. AAAlveg rétt. Ég var næstum því búinn að gleyma þessari sögu. Ég hreinlega varð að sannreyna nýtt hraðamet, fyrir strákana, niður botnlangann en mér hefði verið nær að fara hægar, því þá datt keðjan af, þar með bremsurnar og ferðalagið endaði á stórum steini niður í holti.
Ég átti í erfiðleikum með að skila hjólinu, framgjörðin skökk og samviskan úr lagi.
Sem og vonlegt var ærðist fjölskylda hennar gjörsamlega þegar hún sá hjólið. En það virtist enginn verða þess var hvað ég var illa útleikinn og uppundinn eftir áreksturinn, hefði hæglega getað stórslasað mig. Eftir þetta atvik var ég altalaður sem vafasamur piltur og gat alveg gleymt að biðja um slíkan greiða aftur. En krakkarnir héldu áfram að hjóla og gleðin skein af hverju andliti. Meira að segja Íris var komin á nýtt hjól. Upp á lofti gerði ég árangurslausa tilraun við að koma rauða hjólinu í lag. Rauða hjólið var hálfgert drasl og fátt annað heillegt á því en stellið.
„Heldurðu að þetta sé mögulegt Lalli minn. Vantar ekki annað dekkið?"
Móðir mín var komin upp á skörina til mín.
„Það vantar allavega marga varahluti," varð mér að orði ekki of hress með tilveruna.
„Við gætum keypt hjól bráðlega ef ég legði fáeinar krónur til hliðar á mánuði. Það er ekki allt fengið með þessum stóru fúlgum, það safnast líka þetta litla þegar saman kemur."
Þetta var umhugsunarvert. En þegar aðstæðurnar voru hafðar í huga og hve oft þurfti að spara hverja krónu til heimilisnota, var stærðfræðin fljót að sjá vonleysið í dæminu.
„Bráðum verð ég svo stór að ég þarf ekki reiðhjól," svaraði ég dapur í bragði.
„Ég fékk dálítið á tilfinninguna eftir drauminn."
„Eftir drauminn?"
„Já ég held að það hafi verið í fyrradag."
Ég setti frá mér skiptilykilinn og skrúfjárnið.
„Þú varst hérna fyrir utan á bláu DBS, ja... eða eitthvað nálægt þessu, ég man nú þetta ekki alveg með tegundina."
„Bláu DBS, það getur ekki verið!"
„Ég sagði þér að ég myndi þetta ekki alveg með tegundina."
„Bláu DBS, kom nokkuð fram hvernig ég hefði eignast það?"
„Nei en þú varst í þykkri vinnuúlpu."
Eftir þetta samtal skipti tíminn mig engu máli því ég var þess fullviss að um leið og mér byðist vinna, þá kæmi hjólið.
Og hver hefði getað trúað því að nokkrum mánuðum síðar myndi bíða mín þetta líka flotta hjól, með speglum, bjöllum, gírum, fánum, lukt… og og og… rafmagnsflautu, hliðartöskum, bögglaberum að framan og aftan og aftan, niður í þvottahúsi?
Svona getur lífið verið skrýtið og skemmtilegt.
Tarzan í fötunum
Næsta dag var móðir mín á þönum við að koma okkur af stað í marg ætlað ferðalag. Sjöan skilaði okkur hjá Hagkaupi við Miklubraut og þaðan þrammaði blái Hafnarfjarðarvagninn lafmóður upp Öskjuhlíðina. Mann margt var í strætó. Ég labbaði á milli farþeganna og tókst að selja tvö hasarblöð, eitt með Hulk og annað með Thor.
Tveir strákar á fjórtánda ári sátu framarlega í vagninum. Gömul kona stóð við hlið þeirra og horfði vongóð á þá. Hún var orðin hnýpin og lúin en þeir létu sem þeir sæju hana ekki uns fleiri voru farnir að ræskja sig og gefa þeim auga.
„Ætli við verðum ekki að standa upp fyrir kerlingunni."
En sú gamla heyrði hvað þeim fór á milli, móðgaðist, þverskallaðist við góðseminni og stóð við súluna þangað til þeir yfirgáfu vagninn í Garðahreppi.
Þegar við heimsóttum Hafnarfjörð, byrjaði dagurinn ávalt með útiveru í Hellisgerði. Við eyddum megninu af deginum innan um trén og grasbalana. Þar var líka fallegur gosbrunnur, búið að lagskipta með hraunköntum fyrir blómabeðin og bekkir á víð og dreif fyrir þá sem vildu hvíla sig eða virða fyrir sér útsýnið. Svo mátti hver sem vildi setja pening í járnhausinn með löngu tunguna sem var stytta við innganginn.
Nú átti að loka garðinum vegna haustveðra, því héldum við í sjoppuna, ísbúðina upp af höfninni, til að byrgja okkur upp af kók og gúmelaði því Johnny Westmuller, öðru nafni Tarsan í fötunum, var í bíó.
Stelpurnar veinuðu í hvert sinn sem hann sást á tjaldinu.
„Brúnu augun er svo ótrúlega falleg, " sagði ljóshærða stelpan við vinkonu sína, fyrir framan mig.
„Geturðu ímyndað þér... að skauta niður á tjörn og..."
„Í ferskum andvara og glampandi götuljósum," bætti hin inn í.
„Já og hafa þennan draumaprins hjá sér."
„O, María, þú ert nú alltaf svo óraunsæ og draumlynd, en það væri..."
„Uss, uss þarna kemur hann."
Þær snarþögnuðu, horfðu með lotningu á aðalleikarann ganga þvert yfir götu inn á ræðimannsskrifstofu til að fá upplýsingar um týndan ferðamann inn í svörtustu Afríku.
Í áhrifaríkasta atriðinu át ég poppkornið linnulaust.
Hetjan sást á harðahlaupum undan þeldökkum múg með spjót í hendi og bein í nösum, sem þráði hann allan jafn heitt og stelpurnar en á annan hátt.
Með kvöldinu bauð Kanasjónvarpið upp á Lucy Ball og Northern Lighthouse upp á rómantískan vestra með Cary Grant og Katherine Hepburn í aðalhlutverkum. Perry Mason og Bonanza að ógleymdu Combat urðu að bíða betri tíma.
Þetta var tveggja hæða bárujárnsklætt timburhús sem Unnur og Bjarni bjuggu í við fallega götu í Hafnarfirði. Inngangurinn var í viðbyggingunni, fyrst til hægri var eldhúsið og nær baðinu, herbergið hans Guðmundar. Teikniblokkin stóð opin á rúminu, andlit og skútur prýddu hverja síðuna á fætur annarri. Inn af eldhúsinu var hjónaherbergið, Tíminn og krossgáturnar, en þar fyrir innan stofan sem gaf svo ógleymanlegar minningar í svart-hvítu fyrir framan sjónvarpskassann.
Í garðinum var digurt tré margra metra upp í loftið.
Vegna funda hjá kvæðamannfélaginu og ljóðalesturs hjá átthagafélagi Húnvetninga hafði Unnur boðað mig, sérstaklega, til skrifstofustarfa ásamt gömlu Olivetty ritvélinni minni. Við fjölmenntum í Fjörðinn og fannst mér að Birgi finndist þessi upphefð mín, óverðskulduð.
Alltaf kom það mér jafnmikið á óvart hvað hún átti mikið af þessu súra slátri og skyrhræring. Ég át og át í öllum mínum heimsóknum og stundum svo mikið að það marraði í gólffjölunum ef ég hreyfði mig. Það var engu líkara en að slátrið yxi ofan í kjallara.
„Fáðu þér meira Lárus minn. Við förum rétt að byrja," sagði hún brosandi og stjakaði við stóra kettinum sem nuddaði sér við hana í von um mjólkurdreytil.
„Fannarbreiður, fjúk á hæðum..."
Upplesturinn var hafinn. Fingurgómarnir slógu stafina með hóflegri þögn
inn á milli.
„Fegurð skartar Spákonufell...
Uhm uhm, Dúdda dúdda, dadda dadey...
dú da dí daddey...
Nei þetta er eitthvað vitlaust hjá mér."
Hún hvarf á braut til að sækja lesgleraugun sín og nýjan stafla af ljóðum
inn í stofuna.
Stundum kom það fyrir að ég þurfti að leiðrétta eitt og annað og dró þá
út úr litlu hylki sem ég hafði límt við ritvélina, hvítan snepil með
efni á sem líktist kalki og setti undir stafhamarinn og sló á í nokkur
skipti. Ég var farinn að taka eftir sérkenni sem oft kom fram í þriðju
hendingu á fyrsta versi í ljóðagerð frænku minnar...
„Ó, þér..." svo kom eitthvað...
„Ó, þér Íslands-tár á kvarma fellir..."
„Hérna er það," sagði Unnur eftir að hafa blaðað í bunkanum smá stund.
„Fannarbreiður, fjúk á hæðum,
fegurð skartar Spákonufell.
Dunar heimþrá djúpt í æðum
í dýrðarljóma vort æskurell."
„Ha?" sagði hún hlæjandi eftir nokkrar vangaveltur og sló sér á lær.
„Ég á ekki orð. Það hlaut að vera eitthvað bogið við þetta.
Hérna er það.
Fannarbreiður, fjúk á hæðum..."
Fimmtán gullfalleg og tregafull ljóð fylgdu í kjölfarið um heimabyggðina norður í landi, þar sem heilsað var jafnt himni sem hauði, hverri holu sem og steini um gjörvalla Skagaströnd. Seinna um kvöldið héldum við heim á leið eftir viðburðarríka sjónvarpsdagskrá Varnarliðsins sem hafði líka fært mér atriði til umhugsunar og til útfærslu í njósnafræðum.
Félagarnir í X-9 leynireglunni
Klukkan var ekki orðin eitt þegar stytti upp, sólin gægðist fram á milli skýjanna og ég stóð við franska gluggann í stóra herberginu og fylgdist með Birgi og Edda leika sér saman á steyptu plötunni fyrir utan. Færði mig um set, beið við gluggann á Bjössaherbergi, falinn í gluggatjöldum, horfði á þá sitjandi á stéttinni og ræða saman mikilvægt mál í hálfum hljóðum.
Forvitni mín var vakin.
Ég vildi endilega fá að vita hvaða leynimakk væri á ferðinni en þeir voru varir um sig og ekki nokkur leið að heyra hvað stæði til. Ég klæddi mig í úlpu og setti upp húfu og vettlinga.
Þeir voru út við gaflinn á húsinu nýbyrjaðir í búðarleik, þegar ég kom út. Eddi var feginn að fá fleiri í leikinn en Birgir sýndi engin fagnaðarlæti, þvert á móti, varð þögull eins og gröfin og gaf mér auga.
„Ég ætla að stökkva inn og sækja svolítið vatn í kökurnar."
Við Eddi byrjuðum að malla og laga til í formin en stuttu síðar kom Birgir út. Gleðin skein af andliti hans. Þetta lofaði ekki góðu.
„Lárus minn. Komdu inn sem snöggvast ég þarf að ræða við þig."
Þetta var hún móðir mín sem hafði kallað.
Það rann upp fyrir mér að för Birgis inn eftir vatninu hafði ekki verið aðal ástæðan, heldur að fá mig úr leiknum áður en Eddi glopraði út úr sér upplýsingum um áform þeirra.
Mamma útskýrði fyrir mér að svona stór strákur ætti ekki að vera að leika sér við smástráka.
Það kæmi á mig bleyjulykt sem finndist langar leiðir.
Ég var samþykkur áliti hennar á smábarnalyktinni en ég var ekki á því að hætta við að finna út hvað þeir væru að bralla.
Upplýsingarnar bárust beint í hendurnar á mér tveim dögum seinna.
Fötin af Birgi voru þvæld og óhrein og meira að segja var moldarköggull í úlpunni hans.
Þetta sagði allt. Þeir höfðu verið að grafa pjakkarnir.
Ég njósnaði um þá næstu daga og var fljótur að finna út að skúrinn heima hjá Edda var oft heimsóttur og þar hlyti leyndarmálið að vera.
Næsta sunnudag kom Birgir út til mín, íklæddur dökkubláu jakkafötunum sínum, í viðhafnardressinu, þar sem ég lék mér við að varpa steinum með snúning og öskri eins og kúluvarparar gera. Svitinn draup af mér, ekki af erfiðinu beinlínis, heldur hafði ég reynt að gera mig þrekinn og stæltan, klæðst tveimur lopapeysum inn undir úlpuna.
Vöðvarnir hnykluðust og peysurnar krumpuðust þegar ég lagði steininn undir hökuna.
Mér varð litið á bróður.
„Hvaða múndering er þetta á þér. Stendur eitthvað til?"
„Mamma hans Edda ætlar að bjóða okkur í bíó."
„Í bíó?" át ég upp eftir honum grænn af öfund.
„Já."
„Á hvaða mynd ætlið þið?"
„Za Zí Zakk. Zorró auðvitað."
Ég horfði á eftir honum, með Tarsanblað upp úr rassvasanum, skokka léttstígan að vanda niður götuna. Eftir að hafa jafnað mig á þessu áfalli, þ.e.a.s. hann á bíó - ekki ég, fór ég
að leggja niður fyrir mig málin.
Þeir fara á myndina upp úr klukkan tvö og þá verður enginn til að gæta skúrsins...
Hollý jollý hó.
Ég byrjaði að raula lag sem ég hafði nýverið lært.
„Nú gaman, gaman er
í góðu veðri að leika sér
og fönnin hvít og hrein
og hvergi sér á stein.
Ó já húrra tra la…”
Þar bar vel í veiði. Þetta gat ekki betra verið.
Með skrúfjárn í annarri hendi skundaði ég af stað niður botnlangann, fram hjá óbyggða svæðinu og húsinu hans Ægis og niður að skúrnum. Með lagni tókst mér að fjarlægja skrúfurnar úr læsingarjárnunum. Ískrið og marrið þegar ég opnaði hurðina var nöturlegt.
Höfðu þeir sett upp gildru eða þjófavörn, naglamottu eða hlut upp á syllu sem felli niður um leið og hurðin opnaðist? Á kassafjalaborðinu sem var innar í skúrnum var lítil skrifblokk.
Á fyrstu blaðsíðu kom upptalning:
Eignir allra:
Birgir: Vasaljós, plastmappa og blár túss.
Holli: Stílabók, hasarblöð og 3 blýantar.
Eddi: Reglustika, dolla, spil og slímkúla.
Á blaðsíðu fjögur hafði einhver, trúlegast Holli verið að æfa sig í að skrifa og tekist nokkuð vel, nema R-in og B-in snéru öfugt.
Fyrir miðju í skrifblokkinni innan um bílnúmer allra í hverfinu hafði verið skrifað á leyniletri sem reyndist orðarugl eftirfarandi orðsending. Hún var dagsett fyrir 5 dögum:
Topptrúnaður.
Fundur leynifélagsins "Fljúgandi kráka" verður
haldinn af X 9 - reglunni í aðalbækistöð,
byrgi 1, klukkan l8.00, næsta sunnudag.
Munið aðgangsbankið - 3.2.3.
Stjórnin.
Næsta sunnudag?
Það þýddi að fundurinn yrði haldinn í dag. Þetta kallaðist heppni. Við rannsókn á trégólfi skúrsins fann ég hlera, lyfti upp og þá blöstu göngin við. Þau voru stór, frekar stutt og enduðu út í skurði rétt fyrir neðan. Hvort ég skyldi ekki nýta mér þessar upplýsingar. Ég fór rakleiðis heim og náði í segulbanið. Leynifundurinn skyldi hljóðritaður og spilaður fyrir hvern sem vildi. Segulbandið var hvítt úr plasti, Philips, með spólurnar ofan á tækinu.
„Hvaða asi er þetta á þér?"
Eygló systir stóð í gættinni og varnaði mér útgöngu.
„Asi? Alveg sallarólegur."
„Jæja, já. Á að fara að framkvæma eitt prakkarastrikið enn?"
"Nei ég ætla að fara að taka upp."
„Taka upp hvað?" spurði hún með tortryggni í málrómnum.
„Hélstu kannski að ég ætlaði að taka upp kartöflur eða hvað?"
Ég ruddist fram hjá henni.
Það fór ekki á milli mála að göngin voru hugsuð sem flóttaleið út úr
skúrnum og ofan í þeim ætlaði ég að fela mig.
Klukkan var rúmlega fimm þegar ég kom til baka, fór ég inn í skúrinn með því að skríða eftir skurðinum og síðan göngunum.
Nægur tími var til stefnu og ég athugaði hvort rafhlöðurnar væru ábyggilega í tækinu, tók hljóðnemann og hengdi á snúrunni upp undir gólffjalirnar og beið átekta.
Mörgum mínútum seinna heyrði ég mannamál. Einhverjir voru að opna sig inn.
Ég fór yfir í huganum hvort ég hefði ekki gengið óaðfinnanlega frá læsingarjárnunum. Upp í gegnum gólffjalirnar sá ég að gestirnir voru Birgir, Eddi og bróðir hans Holli.
Þeir settust við borðið.
Ég teygði mig eftir rauða takkanum á tækinu og fékk dynjandi hjartslátt þegar ég ýtti honum niður. Skyldu þeir heyra suðið? En þeir virtust einskis verða varir og héldu áfram að skipuleggja njósnastarfsemi sína.
Skyndilega var barið á dyrnar.
Þeir hrukku í kút.
„Hver veit að við erum hérna?" hvíslar Birgir í eyrað á Edda.
„Enginn held ég."
„Það getur ekki staðist."
Holla sem langar til að koma mikilvægum upplýsingum til skila, byrjar að banka í öxlina á bróður sínum, sem er of önnum kafinn í samræðum við Birgi, til að taka eftir því. Eftir árangurslausar tilraunir ýtir hann putta í bakið á Edda sem dauð bregður, sleppir skrifblokkinni og réttir upp hendurnar.
„Hver er þar? Hver hefur tekið mig fastan?” spyr Eddi með hræðslutón í röddinni.
“Segðu til nafns,” bætir hann við. „Hver ert þú sem hefur handtekið mig?”
„Fyyyrrrirgefðu bróðir ég ætlaði ekki að gera þetta," segir Holli hálf aumingjalega.
Eddi snýr sér við og sendir bróður sínum augnatillit sem ekki er hægt að misskilja.
„Það sem mér finnst skipta mestu máli..."
Á meðan Holli talar, strýkur hann yfir blettinn á bakinu á bróður sínum eins og hann sé að fægja spegil með þurrum klút.
„.. að við séum umfram allt yfirvegaðir, því annars fer allt í steik."
„Nú veit ég," segir Birgir og gefur orðum Holla engan gaum.
„Það hefur einhver komist að því að við erum að halda hér leynifund og kjaftað frá."
Þeir horfa hver á annan.
„Það gæti verið en þyrfti ekki að vera.” segir Holli með spekingssvip.
„Við verðum að flýja. Leynigöngin, leynigöngin."
Það er hamagangur á gólffjölunum fyrir ofan mig og ég sé hendi koma niður á milli gólffjalanna þar sem hlerinn er og svipta honum upp. Um leið og þeir stökkva allir sem einn ofan í göngin dreg ég peysuna upp á hnakkann til að vera torkennilegur, hnipra mig saman, læt hendur nema við gólf og hoppa fram og til baka.
„Muuu muuuu..." segi ég eins djúpt og ég mögulega get.
„Hvað er þetta?” Þeir snarstoppa.
„Muuuu muuuu.."
Þegar ég sé viðbrögð þeirra verður þetta að hreinu uppáhaldi hjá mér „Muuuu muuuuu” endurtek ég. „Muuuu muuuu.”
Hræðslan gagntekur þá.
Fix Trix, nýjasta brellan mín ætlar að lukkast. Ég fálma með höndunum í áttina til þeirra.
„Komið þið litlu skinnin mín til hans Leppalúða, ha ha ha," segi ég með
rykkjum og skrækjum og berst við hláturinn.
Þeir snúa við, veltast hver um annan á leiðinni upp. Um leið og þeir ryðjast að dyrunum er bankað og heldur betur fastara. Skúrinn leikur á reiðiskjálfi.
„Við erum umkringdir," hrópar Birgir.
„Fáum makleg málagjöld," andvarpar Eddi þunglyndislega.
„Fjórir fyrir utan, að minnsta kosti."
„Eða hann Börkur."
„Og þarna ofan í.. göngunum er Moldbúinn... sjálfur."
Holli bendir í áttina að gólffjölunum og hryllir sig.
„Muuuu muuu, " segi ég og læt öllum illum látum. „Muuu muuu."
„Gefumst upp," segja þeir hver upp í annan.
„Þetta er vita vonlaust."
Þeir opna hurðina setja hendur á hnakka og bíða örlaga sinna.
Á meðan læðist ég út um göngin í burtu með segulbandið.
Fyrir utan dyrnar á kofanum stendur vera nokkur allgrimmdarleg á svip með hendur á mjöðmum.
„Hvernig er þetta með ykkur drengir, áttuð þið ekki að vera komnir heim að borða klukkan hálf sjö?
Þetta er þá mamma Edda og Holla, orðin lang þreytt að bíða eftir þeim. Þeir félagar úr X 9 - reglunni ganga hálf sneypulegir í burtu.
Segulbandsspólan góða reyndist gulls í gildi. Ég samdi við Birgi um að fá ís, Kók, sleikjó og Prince Póló og til viðbótar að þegar aðrir væru nærstaddir kallaði hann mig:
Herra foringi, yfirmaður njósnadeilda... Lárus Bond.
„Hver var með þér ofan í göngunum," spurði Birgir fullur af áhuga eftir samningslotuna.
„Þú meinar Leppalúði og Leiðindaskjóða?"
„Var hún líka?"
„Og fáeinar skessur og nátttröll," svaraði ég drýgindalega.
„Varstu ekki hræddur?"
„Við hvað, við þau?"
„Já?"
Ég sá enga ástæðu til að leiðrétta þennan misskilning.
„Alvöru njósnarar eru aldrei hræddir."
Áður en ég afhenti honum spólurnar til förgunar vildi ég sannreyna hug hans.
„Sesselja," kallaði ég fram á ganginn og snéri máli mínu að bróður.
„Nú er komið að því. Þú biður hana um blýant og réttir mér hann síðan. Þú manst um hvað við töluðum?"
„Lalli Bond er flott. Er hann eins flottur og þú hann þessi þarna
Djammes Bond?"
Svona skjall er fáfengilegt. Ég var ekki ginnkeyptur fyrir slíku, en að vísu var dálítið ljúft að láta kitla í sér hégómagirndina.
„James Bond," leiðrétti ég og setti upp spekingssvip.
Orðið James bar ég fram með bíómyndaensku og sveiflaði til vísifingri.
„Eiginlega...nei... Veit það ekki. Hann á heima í útlöndum, svo heiti
ég ekki Lalli Bond heldur Lárus Bond."
„Lárus Bond er miklu flottara."
„Sesselja," sagði Birgir um leið og hún kom inn.
„Áttu blýant með strokleðri?"
„Bíddu aðeins."
Hún hvarf en kom að vörmu spori og rétti Birgi blýantinn.
„Gjörðu svo vel herra foringi Lalli Bond,.. Æ ég..."
„Hvað sagðirðu, Bond, Lalli Bond. Ertu orðinn snar," sagði Sesselja hlæjandi.
„Já ég sagði herra foringi Lalli Bond," áréttaði bróðir, dreyrrauður í
framan en vottaði fyrir brosi.
„Þú meinar Lárus Bond er það ekki," bætti ég inn í.
Sesselja horfði á okkur með forundran til skiptis.
Ég hafði uppskorið ríkuleg laun fyrir þetta lítilræði.
Algjört kjútí pæ
Um kvöldið þegar við vorum nýskriðnir upp í rúm leið átta-gata eðalvagn með mjúkum dýfum upp götuna að húsinu. Bláa lakkið, nýbónaða krómið ásamt vínilrauða áklæðinu gaf herramanns yfirbragð sem fylgt var eftir með olnboga út í glugga. Ein smárúða í franska glugganum í húsinu heima tók að glamra undan djúpum vélaniðnum.
„Einhver að koma, best að gá," sagði Birgir og var þegar horfinn mér sjónum fram á ganginn. Ég hljóp á eftir honum fram hjá stiganum og Doddaherbergi, niður trétröppurnar í þvottahúsinu og að glugganum sem snéri út á götuna.
Úti fyrir stóð dreki með krómi slegin stél og stirndi á bílinn undir ljósastaurnum.
Bílstjórinn ungur piltur, vatt sér út og opnaði hurðina farþegamegin. Ómur af rokktónlist barst til okkar.
„Vá maður, stærri en strætó, rafmagnsrúður, vængir og ég veit ekki hvað."
Hver gæti átt svona flottan bíl?
Við heyrðum umgang við útidyrnar og flýttum okkur til baka. Svandís var komin inn í eldhús, rjóð í vöngum, íklædd stuttu pilsi, rúllukragapeysu og þykkri köflóttri kápu sem hún bar á öxlunum eins og skykkju.
Eygló sat upp á eldhúsborði með augun á hverri hreyfingu systur sinnar. Nokkur dansspor voru tekin eftir bolla upp í skáp.
„Ohh hann er stór glæsilegur," sagði Svandís um leið og hún hellti handa sér kaffi og drakk svart og sykurlaust.
„Ömmm, ferlega hæverskur," bætti hún við á annarri kexköku.
„Er hann bjútí og röff ég meina gasalega huggó?"
Lappirnar á Eygló, hvítu sokkarnir og gallabuxurnar hættu að iða á meðan
hún beið svars.
„Huggó eða Lummó?"
Svandís lyfti upp annarri hendinni í hálfboga, vatt sér upp á hælinn og hringsneri sér af mikilli fimi fram eldhúsið. Kápan lyftist frá líkamanum. Fingursmellir, rykkir og handsveiflur ásamt „Tjú, tjú, tjú," fylgdu dansatriðinu.
„Hann er algjört Kjútí Pæ," sagði hún um leið og hún kleip systur mína í kinnarnar.
Birgir var kominn aftur upp í rúm og var að skrifa í stílabók þegar ég kom inn. Ég leit yfir öxlina á honum og las í hálfum hljóðum:
„Dökkblár kaggi R-3434333. Ökumaður til rannsóknar."
„Hvað er athugunarvert við þennan mann, Birgir minn?"
„Bara."
„Bara er ekkert svar, þú hefur varla séð hann."
„Mér líkar hann ekki. Ég held..."
Hann hikaði varð leyndardómsfullur í framan.
„Ég held að hann sé...."
„Sé hvað?"
„Glæpon," svaraði Birgir svo lágt að varla heyrðist.
„Nú slekk ég ljósið."
Andvarp, augnabliks þögn.
„Lalli viltu hjálpa mér að njósna á morgun?"
„Kannski, en farðu nú að sofa."
Eftir að við höfðum bilt okkur fyrir svefninn, Birgir skoðað tærnar, borað höfðinu í koddann, kvartað yfir að hans koddi væri lægri en minn, smíðað heila virkjun á bak við mig, kom draumagyðjan seint um síðir og tældi mig um undraheima.
Eitt gott spark og ég glaðvaknaði.
„Þú liggur með lappirnar ofan á mér."
„Læti í þér alltaf."
Ég bylti mér, snéri mér frá honum og reyndi að sofna aftur.
„Lalli hérna manstu maðurinn í gær, af hverju, af hverju var hann svona vondur?"
„Þú meinar pabbi tvíburanna?"
„Já."
„Æj-i, þeir voru að kasta í mig grjóti upp á hól. Annar þeirra fékk víst stein í sig."
„Og.." sagði Birgir og hafði reist sig upp á olnbogann.
„Og svo.." endurtók hann.
Mér varð hugsað til móður minnar, það gustaði af henni út við gætt.
„Hann Lárus minn í grjótkasti? Góði maður, hann hefur ekki farið út fyrir dyr i dag."
„Og svo og svo, hvað skeði svo?"
„Ég segi þér það seinna, farðu að sofa."
Birgir pírði augun og horfði annarlega á mig.
„Hvað skeði svo," spurði hann eins og rannsóknarlögreglumaður, sleit hvert orð í sundur með ábyrgðarþunga.
„Hvað skeði svo, dó hann nokkuð?"
„Farðu að sofa, segi ég, fyrir alla muni annars verður að minnka þetta sykurát á þér ef þú spennist svona upp af því.."
„Hvað skeði..."
„Viltu hætta. Þetta er ekki orðið hægt með þig. Ég verð að biðja mömmu um að taka af þér allt þetta nammi strax í fyrramálið og banna þér að kaupa þessar endalausu súkkulaðikúlur, Basokkatyggjó, krónukaramellur.."
„Allt nammið, hvað kemur gottið þessu við?"
„Sykurát er óholt fyrir svefninn."
„Ekki ef maður burstar tennurnar."
„Það skiptir engu máli."
„Víst."
„Nei."
„Vist , víst."
„Nei, maður verður andvaka."
„Mér er alveg sama."
„Mér er ekki sama, ég get ekki sofið fyrir þér."
„Mér er alveg sama."
„Í Guðs bænum farðu nú að sofa."
„Viltu þá lofa að njósna um Svandísi með mér á morgun?"
Sumir urðu þreyttir á stanslausu jagi en ég varð örmagna þegar Birgir átti í hlut.
„Já já, þá það og hættu að tuða svona."
Með ákveðni dróg ég til mín sængina.
Hann fór að bylta sér, eins og honum var tamt, fyrst upp á hlið, svo á magann, aftur upp á hlið og þaðan á bakið. Ég fann bröltið í bróður sem togaði ákaft í eitt sængurhornið án
teljandi árangurs.
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ
„Til hamingju með afmælið, Sessa mín," segi ég um leið og ég kyssi systur mína á kinnina. Við hliðina á vagnstjórabúningi húsbóndans hengi ég upp yfirhafnirnar af mér og syni mínum á sjöunda ári.
„Hæ Lalli. Það er mikið að maður fær að sjá þig," segir Eygló sem nú birtist í gættinni svo hugljúf að erfitt er að ímynda sér að þar fari einn mesti slagsmálagikkur unglingsáranna.
Uppi á efri hæðinni heyrast hvatningarhróp frá ungu kynslóðinni. Andrés, átta ára, sonur Sesselju og Rúnars, er í tölvuleik.
„Ó, ó, hann er kominn í draugahúsið. Passaðu þig, passaðu þig, ertu orðinn snar?” bergmálar á milli veggjanna.
„Indíána Jones," hrýtur af vörum sonar míns sem tekur viðbragð og þýtur upp stigann.
Ég lít inn í eldhúsið og sé að Birgir er að hella sér kaffi í bolla.
„Komdu sæll."
„Sömuleiðis."
„Alltaf jafn gaman að hitta þig."
„Það skulum við vona."
„Ég var að horfa á svo frábæran þátt með Chuck Berry í sjónvarpinu í gær. Sástu þáttinn?"
„Heldur betur," svarar Birgir hressilega, „tók hann meira að segja upp á myndband."
„Þeir fóru á kostum hann og Julian Lennon í „Johnny B. Goode."
„Strákurinn er góður eins og pabbinn og raddirnar furðu líkar,” segir Birgir og bætir við,
„þetta er í genunum á honum, erfist á milli feðganna, á því er enginn vafi."
„Þá þarf ekki að spyrja þig um tónlistina, gengur mann af manni. Er ekki Ingi sonur þinn í músíkinni rétt eins og guttinn minn fyrir vestan?” spyr ég.
„Byrjaður í hljómsveit, segðu. Spilar á hljómborð, ekki orgel, hljómborð. Á því er stigsmunur hjá ungu kynslóðinni. Ég hef þó enga trú á að erfðirnar hafi fært honum ofurgnægð eða gullskeiðar hvað mig varðar, heldur að þetta sé frá honum sjálfum komið."
„Hvaða hógværð er þetta. En þú, ert þú hættur öllu gítarpikki?"
„Já og nei." Bróðir gefur sér tíma til að ná sér í mjólk í ísskápinn.
„Einhver fann það út fyrir austan og kann ég honum engar þakkir, að ég myndi pluma mig flott ef ég fengi tækifæri. Og áður en ég vissi af var allt klappað og klárt, auglýsingar upp um veggi og ég skráður til hljómleikahalds með sólarhrings fyrirvara í kirkjunni á staðnum.”
„Í kirkjunni?" spyr ég undrandi. Frumsamda efnið hefur auðvitað tekið sinn skerf af efnisskránni, prelúdíur, fúgur, svítur og annað?"
„Heimur versnandi fer get ég sagt þér Lalli minn, þegar smástirnin fara að verða boðleg út um borg og bý. Að vísu voru þetta ekki nema tvö lög."
„Það hefur reddast?"
„Þú getur rétt ímyndað þér."
Þó fátæktin hefði oft nætt um taugar á nöprum vetrarkvöldum í uppvextinum, var með ólíkindum hvað margt klæddi okkur vel, féll eins og klæðskerasaumað beint úr búðinni, og hvað var til betra en að spóka sig snyrtilegur til fara í afmæli, brakandi fínn, í betri fötunum, innan um þá sem manni þótti vænst um?
„Eitt hefur mig langað til að spyrja þig að hin síðari ár, hvernig ferðu að þessu?" Ég banka létt með handarbakinu á jakkaboðungana í magahæð.
„Hverju?"
„Nú að vera alltaf svona nettur en samt viðhaldið þessum þétta massa sama hvað árunum líður?"
„Því er erfitt að svara. Útiveran, fjallaloftið."
„Labbarðu mikið á fjöll?"
„Aðeins."
„Þarf ekki sérútbúnað, sérstaka skó..?"
„Það þýðir ekkert að ætla sér í fjallgöngu í strigaskóm. Þeir geta verið stórhættulegir á hálu grjótinu, ef þú ert á göngu þar sem laust er fyrir, í urðum og skriðum."
Hér hef ég kveikt áhuga hjá Birgi.
„Þarf ekki skó sem halda vel um ökklana. Hermannaskór væru þeir ekki upplagðir?"
„Ef maður kæmist í slíkan munað..." Bróðir lætur dæluna ganga.
„Ég held nú samt," gríp ég fram í „að það sé eitthvað annað en útiveran og fjallaloftið sem geri það svona gott að búa í sveitinni."
„Ég veit..." Hann ætlar að segja eitthvað, hrukkar ennið en hættir svo við.
„Ætli það ekki. Viltu?" spyr hann mig um leið hann lyftir kaffikönnunni undan trektinni og gerir sig líklegan eftir bolla upp í skáp.
„Jú endilega, tíu takk."
Ég ber bollann upp að vörunum og vellíðunar stuna brýst fram á milli varanna þegar sopinn rennur ljúflega niður.
„Það hressir Bragakaffið," verður Birgi að orði.
„Þetta er ekki Bragakaffi."
„Hefur ekki hugmynd um það, varst að koma inn."
„Ég segi þá eins og ráðherrann sem aldrei varð orða vant en var hankaður
á einni skröksögunni. Þetta hefði getað verið satt."
„Er ekki annars allt gott af þér að frétta?"
"Allt gott að frétta nema af þessum bíl," svara ég mæðulega.
„Hann er svo forkastanlegur."
„Er Kangoo-inn að angra þig?"
„Ég er farinn að trúa því að þessi skrölttík, nei ég meina eðalvagn, sé að breyta mér í frjálsíþróttamann."
Birgir ýtir gleraugunum betur upp á nefið, læst vera að laga til jakkann með því að hreyfa til axlirnar en er í raun að fela brosið sem óvart brýst fram á varirnar.
„Í krumpuðum rykfrakka gæti ég nú frekar trúað að hann breytti þér í Columbo. Er Kangoo-inn orðin svona tregur í taumi, segirðu?"
„Frekar mætti útleggjast að hann væri orðinn svona þungur á öxlinni. Sjáðu."
Ég svipti frá mér jakkanum og sýni línurnar.
„Hvað?"
„Er að verða eins og þú , sérðu það ekki maður, fjallafari, heilsufrík og aflraunatröll."
„Hvort ég sé, þakka hrósið, ef þú ert að verða eins og ég... og ég að verða svona íþróttamannslega eggjandi í vextinum..."
„Já haltu áfram. Þetta fer að verða spennandi."
„Hvað í ósköpunum er þá þetta?" spyr hann og bendir á umframþyngd sem slútir fram yfir beltið."
„Þetta? Þetta er ekki neitt. Vöðvageymsla áður en ég pumpa búntin og hnykla vöðvana eins og Schwarsenegger."
„Í hvíldarstöðu?" Hláturstaugin er farin að kitla svo magann hjá Birgi að hann er hættur að horfa á mig.
„Hvað?"
„Er líkaminn þá núna í hvíldarstöðu?"
„Einmitt. Þó brjóstkassinn hafi sigið þetta nokkurn veginn niður að belti get ég fullyrt að allt annað eru hreinir vöðvar."
Inni í stofunni má sjá föndur liðinna ára, málaða leirmuni, styttur, skálar og klukkuumgjörðir. Pastelmyndir af íbúunum hanga upp á vegg ásamt stórri mynd af hesti sem hleypur út úr kólgu litafans með einurð og allt að því trylling í augnaráðinu. Samræðurnar snúast um uppeldisstöðvar móðurættarinnar norður í landi. Þær systurnar, móðir mín og Unnur, feta sig frá úthaga að heimatúni með viðkomu á bæjunum í kring. Spákonufellshöfði kemst inn í umræðuna, klettaborg úr stuðlabergi sem afmarkar þessa breiðu vík sem byggðin stendur við. Heimilið við sjávarsíðuna, tveggja hæða steinhús með viðarþiljum og trégólfi.
Unnur hefur sett sig í frásagnarstellingar, hallar sér að borðinu og lætur augun líða yfir hópinn.
„Ég gleymi aldrei hvað ég var hrædd við lækninn, þegar ég var lítil stúlka. Ja, það var þannig að ég frétti af heimsóknum hans og í nokkur skipti vildi svo óheppilega til, eins og fylgir gamla fólkinu að það hreinlega dó og auðvitað setti ég það í samband við lækninn."
Nokkur kliður heyrist frá ungmennunum sem hlaupa upp og niður stigann.
Ungur drengur með grallarasvip um andlitið vill endilega fá að sýna hæfni sína í fimleikum, tekur upp á því að velta fram yfir sig, hverfur sjónum með skarkala inn í næsta herbergi.
Dóttir Svandísar ásamt Ægi, syni Birgis, koma hlaupandi inn í stofu, fela sig við endann á skenkinum.
„Er þetta löggubófaleikur?" heyri ég hana spyrja.
„Nú, nú," segir Unnur, hagræðir kaffibollanum á hvítri undirskálinni og lætur ekki slá sig út af laginu.
„Nokkru síðar, skal ég segja ykkur, átti ég að fara til hans. Ég man ekki af hvaða tilefni, trúlega hefur átt að bólusetja mig, og þó, ég man þetta ekki. Jæja."
Unnur hækkar róminn og setur grátklökkvan hljóm í röddina.
„Mamma mín! Ekki senda mig til læknisins, ekki senda mig til læknisins þá dey ég ábyggilega. Hvaða vitleysa er þetta í þér barn."
Hún rétt nær að bleyta varirnar áður en hlátursrokan brýst fram.
Ein sjö eða átta börn standa í hnapp í stiganum, fremstur Andrés sem bendir inn í stofuna.
„A - ha, búinn að finna ykkur. Eruð inn í stofu. Gefið ykkur fram og upp með hendur ef þið viljið ekki að við gerum áhlaup."
Eftir lágvært samtal og „nei, nei," við allri uppgjöf skríða frændsystkinin út úr fylgsni sínu.
„Þið svindlið. Við fengum ekki nægan tíma til að fela okkur," svarar Björg, dóttir Svandísar, með festu í röddinni. Hún vill meina að handtaka á svo veikum forsendum sé hreint lögreglumál.
Orðakliðurinn eykst, allir virðast hafa rétt fyrir sér.
„Ég hef aldrei séð konu með jafn falleg augu og ömmu," nær Sesselja að koma inn í umræðuna.
„Og fallega liðað, glóbjart hár," áréttar móðir okkar.
„Og saltkjötstunnan," bætir hún við með áhersluþunga. „Aldrei reiddist pabbi þó hann kæmi að henni galtómri hvað eftir annað."
„Já blessunin útdeildi þessu til þeirra vandalausu, afskiptu og umkomulausu hvenær sem færi gafst."
Ljúfsár tilfinning svífur yfir vötnunum og mér finnst tími til kominn að leggja mitt af mörkum í umræðuna.
„Hver átti allan þennan helling af Basil fursta?" (Bækurnar um Basil fursta eru litlar kiljur sem fjalla um mann sem ásamt þjóni sínum eltast við bófa og ræningja í kringum aldamótin 1900. Mjög spennandi og vel skrifaðar þýddar skáldsögur.)
Systurnar þagna og líta brosandi hvor til annarrar eins og þær séu að gera upp við sig hvor eigi að svara. Á meðan hafa börnin dreift sér út um hvern krók og kima í húsinu. Í herberginu við hliðina á stofunni hafa tveir guttar fundið kassa fullan af smádóti og gramsa allt hvað af tekur.
„Það er miklu auðveldara að finna stýrið í öllu Legóinu ef við hvolfum úr kassanum á gólfið," segir sá stærri og býr sig undir að hefjast handa.
Löggubófaleikurinn hefur fært út kvíarnar. Það er rótað í öllu, grafið inn undir, falið sig á bak við, eða skriðið undir rúm. Hver einn og einasti hefur náð að hverfa sporlaust af sjónarsviðinu þegar sonur minn og Andrés labba niður stigann. Byssubeltin á sínum stað, slútandi hattabörð niður fyrir augu að ógleymdum köflóttum afaklút um hálsinn. Strokið eftir jaðri kaldra byssuskeftanna með ögrandi sveiflu áður en hendur eru settar í viðbragðsstöðu í hálfboga út frá síðum.
Þögnin varir í nokkrar sekúndur en þá brestur það á.
„Ég hitti."
„Nei ég, áður en þú hreyfðir þig."
Það er rifist skotið og skammast í allar áttir. Villta Vestrið í algleymingi, íbúðin er rústir einar. Sesselja stenst ekki mátið lengur.
„Viljið þið hafa hljóð, þarna."
Andrés setur sig í stellingar andspænis móður sinni í stiganum.
„Hvernig hljóð, svona hljóð?"
Leikur eftir geltandi vélbyssu með viðeigandi handsveiflu.
„Eða svona hljóð?" Furðuhljóð sem aðeins fyrirfinnast í leikjatölvu eru næst á dagskrá og mér verður á að líta upp og horfi á son minn með opinn munn og augu á hverri hreyfingu frænda síns. Einhvern tímann mun hann þjálfa nákvæmlega þetta atriði á okkur foreldrunum.
„Ef þú lætur svona illa, verða krakkarnir að fara. Heyrirðu það Andrés?" Sesselja er staðin á fætur.
„Allir upp."
Börnin hverfa eins og dögg fyrir sólu.
„Má ég bjóða ykkur meira kaffi?" spyr hún lafmóð eftir ræðuhöldin og snýr sér í áttina að dúklagða borðinu sem hlaðið er litríkum gómsætum kökum, gosflöskum og bollastellum. Samræðurnar missa niður takt við þessa truflun en sveigja síðan aftur í gamla farið. Orðið gengur mann af manni með kynstur öll af fróðleik frá liðnum tíma.
Uppi á lofti í rólegheitum sitja ungar stúlkur við borð og eru að leika sér með púsl af Íslandi.
„Þórshöfn er á Langanesi fyrir austan," fullyrðir Ólína Margrét dóttir afmælisbarnsins.
„En Aðalvík, er hún til á Íslandi?" spyr frænka hennar sem á heima innar í sömu götu.
„Ég hef aldrei heyrt á hana minnst."
„Þú getur séð það á löguninni. Eru margir firðir í kring?"
„Já."
„Þá myndi ég veðja á Vestfirði."
Nokkrum tímum síðar er orðið tímabært að drífa sig af stað heim á leið. Við klæðum okkur og kveðjum fólkið í dyragættinni. Það má sjá langar leiðir að unga manninum, syni mínum, hefur þótt gaman í afmælinu.
Það sem mig undrar mest er hvað allt fer í hring. Fegurðin, hugsjónirnar, kærleikurinn og ómurinn frá þessu indæla vori lífsins. Stundum er sagt að „tvisvar verði gamall maður barn” og við oft minnt á hve mikilvægt sé að viðhalda barninu í okkur sjálfum, einlægninni, einfaldleikanum og lífsfjörinu þegar við fullorðnumst. Ég er þess fullviss að árin munu færa okkur dýpri skilning á því hvað skiptir og hvað ekki „máli” þegar halla fer að degi.
Með kvöldinu ætla ég að setja mig niður og rifja upp eitthvað af ævintýrum Lalla og Birgis og segja ykkur frá þessum góðu en dálítið myrkfælnu drengjum, því þeir eru mér hugleiknir. En áður en ósköpin byrja úr heimi æskunnar, fyrir alvöru, áður en ég fer að ydda blýantana, er best að nota morgundaginn til að heimsækja gömlu konuna, móður mína, sem mun bíða með rjúkandi kaffi, smurbrauð og alls kyns kökur innan um blómin sín, ef af líkum lætur. Og minningarnar munu þá tala til mín í gegnum myndaalbúm, viðmót og hluti. Með andagiftina, löngunina og hugarflugið í lagi veit ég að rithöfundurinn innra með mér mun vakna til lífsins og láta mig berast með straumi minninganna aftur í tímann, fá löngu liðin atvik til að birtast, stíga fram og raða sér saman. Sjoppur með stóreflis gosdrykkjatappa á hliðunum, mjólkurbúðir, apótekaralakkrís, opinn hugur og iðandi lappir, svo óteljandi atriði sem mynda til samans, bernskuna.
Hæ!!
Þetta er ég, Lalli.
Alltaf að reyna að skrifa eitthvað spennandi.
Verð 10 ára eftir einn mánuð. Sit við franska gluggann heima og er með opna stílabók fyrir framan mig. Veit sama og ekkert um hvað ég ætla að skrifa. Áður en ég segi nokkuð ættirðu bara að vita hvað ég á flottan bróður sem heitir Birgir. Hann er svo sérstakur og flottur að ég get eiginlega ekki lýst því. Tæpra 8 ára, frekur en samt ekki svo…jú hann er mjög góður strákur sko… ummmm…. Æjjii… Ég finn að það er allt orðið tómt og frosið þarna uppi. Hugarflugið, löngunin til að skrifa er mér horfin á braut. Þetta er vita vonlaust, segi ég mæðulega við sjálfan mig, eftir nokkrar tilraunir, leggst fyrir og byrja að lesa uppáhalds barnasöguna mína.
Höfundurinn er danskur og bókin fjallar um strák, Knút, sem er alltaf að hjálpa öllum. Þessi drengur er mitt uppáhald, enda er hann Skáti, hetja og ... Ég lifi mig inn í hverja atburðarásina á fætur annarri, blaðsíðu eftir blaðsíðu og áður en ég veit af orðinn einn af söguhetjunum… Vá, hvað þetta er gaman!!
Ég var eins og hann, hann var eins og ég!
Svo liðu dagar og nýi drengurinn var farinn að festa rætur í hjartanu, breyta mér og ýmsum kenndum sem höfðu blundað, ef til vill sofnað og því ekki náð að þroskast sem skyldi. Þessi dökkhærði hnokki, Knútur, var orðinn mér meira en andlegur leiðtogi og fyrirmynd. Hann var eitthvað óútskýranlega heilbrigt og lifandi sem festi sig inn í sálinni, varð göfugur innblástur á æðra plani, örvaði mig til athafna þó hann ætti einungis heima í ævintýrabók.
Ýmist eyddi hann dögunum í höndum mér eða undir koddanum, eftir því hvað mikið var að gerast. Hann var eins og ég, ég var eins og hann, en þegar hugsjónirnar náðu til handanna, til veruleikans byrjuðu vandræðin. Í nálægum götum var ég líkastur sporhundi, rakti slóðir í leit að ranglæti.
Eitt sinn, það var nú ekki oftar, féllst Íris á að lána mér hjólið sitt. AAAlveg rétt. Ég var næstum því búinn að gleyma þessari sögu. Ég hreinlega varð að sannreyna nýtt hraðamet, fyrir strákana, niður botnlangann en mér hefði verið nær að fara hægar, því þá datt keðjan af, þar með bremsurnar og ferðalagið endaði á stórum steini niður í holti.
Ég átti í erfiðleikum með að skila hjólinu, framgjörðin skökk og samviskan úr lagi.
Sem og vonlegt var ærðist fjölskylda hennar gjörsamlega þegar hún sá hjólið. En það virtist enginn verða þess var hvað ég var illa útleikinn og uppundinn eftir áreksturinn, hefði hæglega getað stórslasað mig. Eftir þetta atvik var ég altalaður sem vafasamur piltur og gat alveg gleymt að biðja um slíkan greiða aftur. En krakkarnir héldu áfram að hjóla og gleðin skein af hverju andliti. Meira að segja Íris var komin á nýtt hjól. Upp á lofti gerði ég árangurslausa tilraun við að koma rauða hjólinu í lag. Rauða hjólið var hálfgert drasl og fátt annað heillegt á því en stellið.
„Heldurðu að þetta sé mögulegt Lalli minn. Vantar ekki annað dekkið?"
Móðir mín var komin upp á skörina til mín.
„Það vantar allavega marga varahluti," varð mér að orði ekki of hress með tilveruna.
„Við gætum keypt hjól bráðlega ef ég legði fáeinar krónur til hliðar á mánuði. Það er ekki allt fengið með þessum stóru fúlgum, það safnast líka þetta litla þegar saman kemur."
Þetta var umhugsunarvert. En þegar aðstæðurnar voru hafðar í huga og hve oft þurfti að spara hverja krónu til heimilisnota, var stærðfræðin fljót að sjá vonleysið í dæminu.
„Bráðum verð ég svo stór að ég þarf ekki reiðhjól," svaraði ég dapur í bragði.
„Ég fékk dálítið á tilfinninguna eftir drauminn."
„Eftir drauminn?"
„Já ég held að það hafi verið í fyrradag."
Ég setti frá mér skiptilykilinn og skrúfjárnið.
„Þú varst hérna fyrir utan á bláu DBS, ja... eða eitthvað nálægt þessu, ég man nú þetta ekki alveg með tegundina."
„Bláu DBS, það getur ekki verið!"
„Ég sagði þér að ég myndi þetta ekki alveg með tegundina."
„Bláu DBS, kom nokkuð fram hvernig ég hefði eignast það?"
„Nei en þú varst í þykkri vinnuúlpu."
Eftir þetta samtal skipti tíminn mig engu máli því ég var þess fullviss að um leið og mér byðist vinna, þá kæmi hjólið.
Og hver hefði getað trúað því að nokkrum mánuðum síðar myndi bíða mín þetta líka flotta hjól, með speglum, bjöllum, gírum, fánum, lukt… og og og… rafmagnsflautu, hliðartöskum, bögglaberum að framan og aftan og aftan, niður í þvottahúsi?
Svona getur lífið verið skrýtið og skemmtilegt.
Tarzan í fötunum
Næsta dag var móðir mín á þönum við að koma okkur af stað í marg ætlað ferðalag. Sjöan skilaði okkur hjá Hagkaupi við Miklubraut og þaðan þrammaði blái Hafnarfjarðarvagninn lafmóður upp Öskjuhlíðina. Mann margt var í strætó. Ég labbaði á milli farþeganna og tókst að selja tvö hasarblöð, eitt með Hulk og annað með Thor.
Tveir strákar á fjórtánda ári sátu framarlega í vagninum. Gömul kona stóð við hlið þeirra og horfði vongóð á þá. Hún var orðin hnýpin og lúin en þeir létu sem þeir sæju hana ekki uns fleiri voru farnir að ræskja sig og gefa þeim auga.
„Ætli við verðum ekki að standa upp fyrir kerlingunni."
En sú gamla heyrði hvað þeim fór á milli, móðgaðist, þverskallaðist við góðseminni og stóð við súluna þangað til þeir yfirgáfu vagninn í Garðahreppi.
Þegar við heimsóttum Hafnarfjörð, byrjaði dagurinn ávalt með útiveru í Hellisgerði. Við eyddum megninu af deginum innan um trén og grasbalana. Þar var líka fallegur gosbrunnur, búið að lagskipta með hraunköntum fyrir blómabeðin og bekkir á víð og dreif fyrir þá sem vildu hvíla sig eða virða fyrir sér útsýnið. Svo mátti hver sem vildi setja pening í járnhausinn með löngu tunguna sem var stytta við innganginn.
Nú átti að loka garðinum vegna haustveðra, því héldum við í sjoppuna, ísbúðina upp af höfninni, til að byrgja okkur upp af kók og gúmelaði því Johnny Westmuller, öðru nafni Tarsan í fötunum, var í bíó.
Stelpurnar veinuðu í hvert sinn sem hann sást á tjaldinu.
„Brúnu augun er svo ótrúlega falleg, " sagði ljóshærða stelpan við vinkonu sína, fyrir framan mig.
„Geturðu ímyndað þér... að skauta niður á tjörn og..."
„Í ferskum andvara og glampandi götuljósum," bætti hin inn í.
„Já og hafa þennan draumaprins hjá sér."
„O, María, þú ert nú alltaf svo óraunsæ og draumlynd, en það væri..."
„Uss, uss þarna kemur hann."
Þær snarþögnuðu, horfðu með lotningu á aðalleikarann ganga þvert yfir götu inn á ræðimannsskrifstofu til að fá upplýsingar um týndan ferðamann inn í svörtustu Afríku.
Í áhrifaríkasta atriðinu át ég poppkornið linnulaust.
Hetjan sást á harðahlaupum undan þeldökkum múg með spjót í hendi og bein í nösum, sem þráði hann allan jafn heitt og stelpurnar en á annan hátt.
Með kvöldinu bauð Kanasjónvarpið upp á Lucy Ball og Northern Lighthouse upp á rómantískan vestra með Cary Grant og Katherine Hepburn í aðalhlutverkum. Perry Mason og Bonanza að ógleymdu Combat urðu að bíða betri tíma.
Þetta var tveggja hæða bárujárnsklætt timburhús sem Unnur og Bjarni bjuggu í við fallega götu í Hafnarfirði. Inngangurinn var í viðbyggingunni, fyrst til hægri var eldhúsið og nær baðinu, herbergið hans Guðmundar. Teikniblokkin stóð opin á rúminu, andlit og skútur prýddu hverja síðuna á fætur annarri. Inn af eldhúsinu var hjónaherbergið, Tíminn og krossgáturnar, en þar fyrir innan stofan sem gaf svo ógleymanlegar minningar í svart-hvítu fyrir framan sjónvarpskassann.
Í garðinum var digurt tré margra metra upp í loftið.
Vegna funda hjá kvæðamannfélaginu og ljóðalesturs hjá átthagafélagi Húnvetninga hafði Unnur boðað mig, sérstaklega, til skrifstofustarfa ásamt gömlu Olivetty ritvélinni minni. Við fjölmenntum í Fjörðinn og fannst mér að Birgi finndist þessi upphefð mín, óverðskulduð.
Alltaf kom það mér jafnmikið á óvart hvað hún átti mikið af þessu súra slátri og skyrhræring. Ég át og át í öllum mínum heimsóknum og stundum svo mikið að það marraði í gólffjölunum ef ég hreyfði mig. Það var engu líkara en að slátrið yxi ofan í kjallara.
„Fáðu þér meira Lárus minn. Við förum rétt að byrja," sagði hún brosandi og stjakaði við stóra kettinum sem nuddaði sér við hana í von um mjólkurdreytil.
„Fannarbreiður, fjúk á hæðum..."
Upplesturinn var hafinn. Fingurgómarnir slógu stafina með hóflegri þögn
inn á milli.
„Fegurð skartar Spákonufell...
Uhm uhm, Dúdda dúdda, dadda dadey...
dú da dí daddey...
Nei þetta er eitthvað vitlaust hjá mér."
Hún hvarf á braut til að sækja lesgleraugun sín og nýjan stafla af ljóðum
inn í stofuna.
Stundum kom það fyrir að ég þurfti að leiðrétta eitt og annað og dró þá
út úr litlu hylki sem ég hafði límt við ritvélina, hvítan snepil með
efni á sem líktist kalki og setti undir stafhamarinn og sló á í nokkur
skipti. Ég var farinn að taka eftir sérkenni sem oft kom fram í þriðju
hendingu á fyrsta versi í ljóðagerð frænku minnar...
„Ó, þér..." svo kom eitthvað...
„Ó, þér Íslands-tár á kvarma fellir..."
„Hérna er það," sagði Unnur eftir að hafa blaðað í bunkanum smá stund.
„Fannarbreiður, fjúk á hæðum,
fegurð skartar Spákonufell.
Dunar heimþrá djúpt í æðum
í dýrðarljóma vort æskurell."
„Ha?" sagði hún hlæjandi eftir nokkrar vangaveltur og sló sér á lær.
„Ég á ekki orð. Það hlaut að vera eitthvað bogið við þetta.
Hérna er það.
Fannarbreiður, fjúk á hæðum..."
Fimmtán gullfalleg og tregafull ljóð fylgdu í kjölfarið um heimabyggðina norður í landi, þar sem heilsað var jafnt himni sem hauði, hverri holu sem og steini um gjörvalla Skagaströnd. Seinna um kvöldið héldum við heim á leið eftir viðburðarríka sjónvarpsdagskrá Varnarliðsins sem hafði líka fært mér atriði til umhugsunar og til útfærslu í njósnafræðum.
Félagarnir í X-9 leynireglunni
Klukkan var ekki orðin eitt þegar stytti upp, sólin gægðist fram á milli skýjanna og ég stóð við franska gluggann í stóra herberginu og fylgdist með Birgi og Edda leika sér saman á steyptu plötunni fyrir utan. Færði mig um set, beið við gluggann á Bjössaherbergi, falinn í gluggatjöldum, horfði á þá sitjandi á stéttinni og ræða saman mikilvægt mál í hálfum hljóðum.
Forvitni mín var vakin.
Ég vildi endilega fá að vita hvaða leynimakk væri á ferðinni en þeir voru varir um sig og ekki nokkur leið að heyra hvað stæði til. Ég klæddi mig í úlpu og setti upp húfu og vettlinga.
Þeir voru út við gaflinn á húsinu nýbyrjaðir í búðarleik, þegar ég kom út. Eddi var feginn að fá fleiri í leikinn en Birgir sýndi engin fagnaðarlæti, þvert á móti, varð þögull eins og gröfin og gaf mér auga.
„Ég ætla að stökkva inn og sækja svolítið vatn í kökurnar."
Við Eddi byrjuðum að malla og laga til í formin en stuttu síðar kom Birgir út. Gleðin skein af andliti hans. Þetta lofaði ekki góðu.
„Lárus minn. Komdu inn sem snöggvast ég þarf að ræða við þig."
Þetta var hún móðir mín sem hafði kallað.
Það rann upp fyrir mér að för Birgis inn eftir vatninu hafði ekki verið aðal ástæðan, heldur að fá mig úr leiknum áður en Eddi glopraði út úr sér upplýsingum um áform þeirra.
Mamma útskýrði fyrir mér að svona stór strákur ætti ekki að vera að leika sér við smástráka.
Það kæmi á mig bleyjulykt sem finndist langar leiðir.
Ég var samþykkur áliti hennar á smábarnalyktinni en ég var ekki á því að hætta við að finna út hvað þeir væru að bralla.
Upplýsingarnar bárust beint í hendurnar á mér tveim dögum seinna.
Fötin af Birgi voru þvæld og óhrein og meira að segja var moldarköggull í úlpunni hans.
Þetta sagði allt. Þeir höfðu verið að grafa pjakkarnir.
Ég njósnaði um þá næstu daga og var fljótur að finna út að skúrinn heima hjá Edda var oft heimsóttur og þar hlyti leyndarmálið að vera.
Næsta sunnudag kom Birgir út til mín, íklæddur dökkubláu jakkafötunum sínum, í viðhafnardressinu, þar sem ég lék mér við að varpa steinum með snúning og öskri eins og kúluvarparar gera. Svitinn draup af mér, ekki af erfiðinu beinlínis, heldur hafði ég reynt að gera mig þrekinn og stæltan, klæðst tveimur lopapeysum inn undir úlpuna.
Vöðvarnir hnykluðust og peysurnar krumpuðust þegar ég lagði steininn undir hökuna.
Mér varð litið á bróður.
„Hvaða múndering er þetta á þér. Stendur eitthvað til?"
„Mamma hans Edda ætlar að bjóða okkur í bíó."
„Í bíó?" át ég upp eftir honum grænn af öfund.
„Já."
„Á hvaða mynd ætlið þið?"
„Za Zí Zakk. Zorró auðvitað."
Ég horfði á eftir honum, með Tarsanblað upp úr rassvasanum, skokka léttstígan að vanda niður götuna. Eftir að hafa jafnað mig á þessu áfalli, þ.e.a.s. hann á bíó - ekki ég, fór ég
að leggja niður fyrir mig málin.
Þeir fara á myndina upp úr klukkan tvö og þá verður enginn til að gæta skúrsins...
Hollý jollý hó.
Ég byrjaði að raula lag sem ég hafði nýverið lært.
„Nú gaman, gaman er
í góðu veðri að leika sér
og fönnin hvít og hrein
og hvergi sér á stein.
Ó já húrra tra la…”
Þar bar vel í veiði. Þetta gat ekki betra verið.
Með skrúfjárn í annarri hendi skundaði ég af stað niður botnlangann, fram hjá óbyggða svæðinu og húsinu hans Ægis og niður að skúrnum. Með lagni tókst mér að fjarlægja skrúfurnar úr læsingarjárnunum. Ískrið og marrið þegar ég opnaði hurðina var nöturlegt.
Höfðu þeir sett upp gildru eða þjófavörn, naglamottu eða hlut upp á syllu sem felli niður um leið og hurðin opnaðist? Á kassafjalaborðinu sem var innar í skúrnum var lítil skrifblokk.
Á fyrstu blaðsíðu kom upptalning:
Eignir allra:
Birgir: Vasaljós, plastmappa og blár túss.
Holli: Stílabók, hasarblöð og 3 blýantar.
Eddi: Reglustika, dolla, spil og slímkúla.
Á blaðsíðu fjögur hafði einhver, trúlegast Holli verið að æfa sig í að skrifa og tekist nokkuð vel, nema R-in og B-in snéru öfugt.
Fyrir miðju í skrifblokkinni innan um bílnúmer allra í hverfinu hafði verið skrifað á leyniletri sem reyndist orðarugl eftirfarandi orðsending. Hún var dagsett fyrir 5 dögum:
Topptrúnaður.
Fundur leynifélagsins "Fljúgandi kráka" verður
haldinn af X 9 - reglunni í aðalbækistöð,
byrgi 1, klukkan l8.00, næsta sunnudag.
Munið aðgangsbankið - 3.2.3.
Stjórnin.
Næsta sunnudag?
Það þýddi að fundurinn yrði haldinn í dag. Þetta kallaðist heppni. Við rannsókn á trégólfi skúrsins fann ég hlera, lyfti upp og þá blöstu göngin við. Þau voru stór, frekar stutt og enduðu út í skurði rétt fyrir neðan. Hvort ég skyldi ekki nýta mér þessar upplýsingar. Ég fór rakleiðis heim og náði í segulbanið. Leynifundurinn skyldi hljóðritaður og spilaður fyrir hvern sem vildi. Segulbandið var hvítt úr plasti, Philips, með spólurnar ofan á tækinu.
„Hvaða asi er þetta á þér?"
Eygló systir stóð í gættinni og varnaði mér útgöngu.
„Asi? Alveg sallarólegur."
„Jæja, já. Á að fara að framkvæma eitt prakkarastrikið enn?"
"Nei ég ætla að fara að taka upp."
„Taka upp hvað?" spurði hún með tortryggni í málrómnum.
„Hélstu kannski að ég ætlaði að taka upp kartöflur eða hvað?"
Ég ruddist fram hjá henni.
Það fór ekki á milli mála að göngin voru hugsuð sem flóttaleið út úr
skúrnum og ofan í þeim ætlaði ég að fela mig.
Klukkan var rúmlega fimm þegar ég kom til baka, fór ég inn í skúrinn með því að skríða eftir skurðinum og síðan göngunum.
Nægur tími var til stefnu og ég athugaði hvort rafhlöðurnar væru ábyggilega í tækinu, tók hljóðnemann og hengdi á snúrunni upp undir gólffjalirnar og beið átekta.
Mörgum mínútum seinna heyrði ég mannamál. Einhverjir voru að opna sig inn.
Ég fór yfir í huganum hvort ég hefði ekki gengið óaðfinnanlega frá læsingarjárnunum. Upp í gegnum gólffjalirnar sá ég að gestirnir voru Birgir, Eddi og bróðir hans Holli.
Þeir settust við borðið.
Ég teygði mig eftir rauða takkanum á tækinu og fékk dynjandi hjartslátt þegar ég ýtti honum niður. Skyldu þeir heyra suðið? En þeir virtust einskis verða varir og héldu áfram að skipuleggja njósnastarfsemi sína.
Skyndilega var barið á dyrnar.
Þeir hrukku í kút.
„Hver veit að við erum hérna?" hvíslar Birgir í eyrað á Edda.
„Enginn held ég."
„Það getur ekki staðist."
Holla sem langar til að koma mikilvægum upplýsingum til skila, byrjar að banka í öxlina á bróður sínum, sem er of önnum kafinn í samræðum við Birgi, til að taka eftir því. Eftir árangurslausar tilraunir ýtir hann putta í bakið á Edda sem dauð bregður, sleppir skrifblokkinni og réttir upp hendurnar.
„Hver er þar? Hver hefur tekið mig fastan?” spyr Eddi með hræðslutón í röddinni.
“Segðu til nafns,” bætir hann við. „Hver ert þú sem hefur handtekið mig?”
„Fyyyrrrirgefðu bróðir ég ætlaði ekki að gera þetta," segir Holli hálf aumingjalega.
Eddi snýr sér við og sendir bróður sínum augnatillit sem ekki er hægt að misskilja.
„Það sem mér finnst skipta mestu máli..."
Á meðan Holli talar, strýkur hann yfir blettinn á bakinu á bróður sínum eins og hann sé að fægja spegil með þurrum klút.
„.. að við séum umfram allt yfirvegaðir, því annars fer allt í steik."
„Nú veit ég," segir Birgir og gefur orðum Holla engan gaum.
„Það hefur einhver komist að því að við erum að halda hér leynifund og kjaftað frá."
Þeir horfa hver á annan.
„Það gæti verið en þyrfti ekki að vera.” segir Holli með spekingssvip.
„Við verðum að flýja. Leynigöngin, leynigöngin."
Það er hamagangur á gólffjölunum fyrir ofan mig og ég sé hendi koma niður á milli gólffjalanna þar sem hlerinn er og svipta honum upp. Um leið og þeir stökkva allir sem einn ofan í göngin dreg ég peysuna upp á hnakkann til að vera torkennilegur, hnipra mig saman, læt hendur nema við gólf og hoppa fram og til baka.
„Muuu muuuu..." segi ég eins djúpt og ég mögulega get.
„Hvað er þetta?” Þeir snarstoppa.
„Muuuu muuuu.."
Þegar ég sé viðbrögð þeirra verður þetta að hreinu uppáhaldi hjá mér „Muuuu muuuuu” endurtek ég. „Muuuu muuuu.”
Hræðslan gagntekur þá.
Fix Trix, nýjasta brellan mín ætlar að lukkast. Ég fálma með höndunum í áttina til þeirra.
„Komið þið litlu skinnin mín til hans Leppalúða, ha ha ha," segi ég með
rykkjum og skrækjum og berst við hláturinn.
Þeir snúa við, veltast hver um annan á leiðinni upp. Um leið og þeir ryðjast að dyrunum er bankað og heldur betur fastara. Skúrinn leikur á reiðiskjálfi.
„Við erum umkringdir," hrópar Birgir.
„Fáum makleg málagjöld," andvarpar Eddi þunglyndislega.
„Fjórir fyrir utan, að minnsta kosti."
„Eða hann Börkur."
„Og þarna ofan í.. göngunum er Moldbúinn... sjálfur."
Holli bendir í áttina að gólffjölunum og hryllir sig.
„Muuuu muuu, " segi ég og læt öllum illum látum. „Muuu muuu."
„Gefumst upp," segja þeir hver upp í annan.
„Þetta er vita vonlaust."
Þeir opna hurðina setja hendur á hnakka og bíða örlaga sinna.
Á meðan læðist ég út um göngin í burtu með segulbandið.
Fyrir utan dyrnar á kofanum stendur vera nokkur allgrimmdarleg á svip með hendur á mjöðmum.
„Hvernig er þetta með ykkur drengir, áttuð þið ekki að vera komnir heim að borða klukkan hálf sjö?
Þetta er þá mamma Edda og Holla, orðin lang þreytt að bíða eftir þeim. Þeir félagar úr X 9 - reglunni ganga hálf sneypulegir í burtu.
Segulbandsspólan góða reyndist gulls í gildi. Ég samdi við Birgi um að fá ís, Kók, sleikjó og Prince Póló og til viðbótar að þegar aðrir væru nærstaddir kallaði hann mig:
Herra foringi, yfirmaður njósnadeilda... Lárus Bond.
„Hver var með þér ofan í göngunum," spurði Birgir fullur af áhuga eftir samningslotuna.
„Þú meinar Leppalúði og Leiðindaskjóða?"
„Var hún líka?"
„Og fáeinar skessur og nátttröll," svaraði ég drýgindalega.
„Varstu ekki hræddur?"
„Við hvað, við þau?"
„Já?"
Ég sá enga ástæðu til að leiðrétta þennan misskilning.
„Alvöru njósnarar eru aldrei hræddir."
Áður en ég afhenti honum spólurnar til förgunar vildi ég sannreyna hug hans.
„Sesselja," kallaði ég fram á ganginn og snéri máli mínu að bróður.
„Nú er komið að því. Þú biður hana um blýant og réttir mér hann síðan. Þú manst um hvað við töluðum?"
„Lalli Bond er flott. Er hann eins flottur og þú hann þessi þarna
Djammes Bond?"
Svona skjall er fáfengilegt. Ég var ekki ginnkeyptur fyrir slíku, en að vísu var dálítið ljúft að láta kitla í sér hégómagirndina.
„James Bond," leiðrétti ég og setti upp spekingssvip.
Orðið James bar ég fram með bíómyndaensku og sveiflaði til vísifingri.
„Eiginlega...nei... Veit það ekki. Hann á heima í útlöndum, svo heiti
ég ekki Lalli Bond heldur Lárus Bond."
„Lárus Bond er miklu flottara."
„Sesselja," sagði Birgir um leið og hún kom inn.
„Áttu blýant með strokleðri?"
„Bíddu aðeins."
Hún hvarf en kom að vörmu spori og rétti Birgi blýantinn.
„Gjörðu svo vel herra foringi Lalli Bond,.. Æ ég..."
„Hvað sagðirðu, Bond, Lalli Bond. Ertu orðinn snar," sagði Sesselja hlæjandi.
„Já ég sagði herra foringi Lalli Bond," áréttaði bróðir, dreyrrauður í
framan en vottaði fyrir brosi.
„Þú meinar Lárus Bond er það ekki," bætti ég inn í.
Sesselja horfði á okkur með forundran til skiptis.
Ég hafði uppskorið ríkuleg laun fyrir þetta lítilræði.
Algjört kjútí pæ
Um kvöldið þegar við vorum nýskriðnir upp í rúm leið átta-gata eðalvagn með mjúkum dýfum upp götuna að húsinu. Bláa lakkið, nýbónaða krómið ásamt vínilrauða áklæðinu gaf herramanns yfirbragð sem fylgt var eftir með olnboga út í glugga. Ein smárúða í franska glugganum í húsinu heima tók að glamra undan djúpum vélaniðnum.
„Einhver að koma, best að gá," sagði Birgir og var þegar horfinn mér sjónum fram á ganginn. Ég hljóp á eftir honum fram hjá stiganum og Doddaherbergi, niður trétröppurnar í þvottahúsinu og að glugganum sem snéri út á götuna.
Úti fyrir stóð dreki með krómi slegin stél og stirndi á bílinn undir ljósastaurnum.
Bílstjórinn ungur piltur, vatt sér út og opnaði hurðina farþegamegin. Ómur af rokktónlist barst til okkar.
„Vá maður, stærri en strætó, rafmagnsrúður, vængir og ég veit ekki hvað."
Hver gæti átt svona flottan bíl?
Við heyrðum umgang við útidyrnar og flýttum okkur til baka. Svandís var komin inn í eldhús, rjóð í vöngum, íklædd stuttu pilsi, rúllukragapeysu og þykkri köflóttri kápu sem hún bar á öxlunum eins og skykkju.
Eygló sat upp á eldhúsborði með augun á hverri hreyfingu systur sinnar. Nokkur dansspor voru tekin eftir bolla upp í skáp.
„Ohh hann er stór glæsilegur," sagði Svandís um leið og hún hellti handa sér kaffi og drakk svart og sykurlaust.
„Ömmm, ferlega hæverskur," bætti hún við á annarri kexköku.
„Er hann bjútí og röff ég meina gasalega huggó?"
Lappirnar á Eygló, hvítu sokkarnir og gallabuxurnar hættu að iða á meðan
hún beið svars.
„Huggó eða Lummó?"
Svandís lyfti upp annarri hendinni í hálfboga, vatt sér upp á hælinn og hringsneri sér af mikilli fimi fram eldhúsið. Kápan lyftist frá líkamanum. Fingursmellir, rykkir og handsveiflur ásamt „Tjú, tjú, tjú," fylgdu dansatriðinu.
„Hann er algjört Kjútí Pæ," sagði hún um leið og hún kleip systur mína í kinnarnar.
Birgir var kominn aftur upp í rúm og var að skrifa í stílabók þegar ég kom inn. Ég leit yfir öxlina á honum og las í hálfum hljóðum:
„Dökkblár kaggi R-3434333. Ökumaður til rannsóknar."
„Hvað er athugunarvert við þennan mann, Birgir minn?"
„Bara."
„Bara er ekkert svar, þú hefur varla séð hann."
„Mér líkar hann ekki. Ég held..."
Hann hikaði varð leyndardómsfullur í framan.
„Ég held að hann sé...."
„Sé hvað?"
„Glæpon," svaraði Birgir svo lágt að varla heyrðist.
„Nú slekk ég ljósið."
Andvarp, augnabliks þögn.
„Lalli viltu hjálpa mér að njósna á morgun?"
„Kannski, en farðu nú að sofa."
Eftir að við höfðum bilt okkur fyrir svefninn, Birgir skoðað tærnar, borað höfðinu í koddann, kvartað yfir að hans koddi væri lægri en minn, smíðað heila virkjun á bak við mig, kom draumagyðjan seint um síðir og tældi mig um undraheima.
Eitt gott spark og ég glaðvaknaði.
„Þú liggur með lappirnar ofan á mér."
„Læti í þér alltaf."
Ég bylti mér, snéri mér frá honum og reyndi að sofna aftur.
„Lalli hérna manstu maðurinn í gær, af hverju, af hverju var hann svona vondur?"
„Þú meinar pabbi tvíburanna?"
„Já."
„Æj-i, þeir voru að kasta í mig grjóti upp á hól. Annar þeirra fékk víst stein í sig."
„Og.." sagði Birgir og hafði reist sig upp á olnbogann.
„Og svo.." endurtók hann.
Mér varð hugsað til móður minnar, það gustaði af henni út við gætt.
„Hann Lárus minn í grjótkasti? Góði maður, hann hefur ekki farið út fyrir dyr i dag."
„Og svo og svo, hvað skeði svo?"
„Ég segi þér það seinna, farðu að sofa."
Birgir pírði augun og horfði annarlega á mig.
„Hvað skeði svo," spurði hann eins og rannsóknarlögreglumaður, sleit hvert orð í sundur með ábyrgðarþunga.
„Hvað skeði svo, dó hann nokkuð?"
„Farðu að sofa, segi ég, fyrir alla muni annars verður að minnka þetta sykurát á þér ef þú spennist svona upp af því.."
„Hvað skeði..."
„Viltu hætta. Þetta er ekki orðið hægt með þig. Ég verð að biðja mömmu um að taka af þér allt þetta nammi strax í fyrramálið og banna þér að kaupa þessar endalausu súkkulaðikúlur, Basokkatyggjó, krónukaramellur.."
„Allt nammið, hvað kemur gottið þessu við?"
„Sykurát er óholt fyrir svefninn."
„Ekki ef maður burstar tennurnar."
„Það skiptir engu máli."
„Víst."
„Nei."
„Vist , víst."
„Nei, maður verður andvaka."
„Mér er alveg sama."
„Mér er ekki sama, ég get ekki sofið fyrir þér."
„Mér er alveg sama."
„Í Guðs bænum farðu nú að sofa."
„Viltu þá lofa að njósna um Svandísi með mér á morgun?"
Sumir urðu þreyttir á stanslausu jagi en ég varð örmagna þegar Birgir átti í hlut.
„Já já, þá það og hættu að tuða svona."
Með ákveðni dróg ég til mín sængina.
Hann fór að bylta sér, eins og honum var tamt, fyrst upp á hlið, svo á magann, aftur upp á hlið og þaðan á bakið. Ég fann bröltið í bróður sem togaði ákaft í eitt sængurhornið án
teljandi árangurs.
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ