Bróðurþel Lalla og Birgis II
Það er ekki lengra síðan en í vor, að ég stóð með stærðfræðibók fyrir grunnskóla í höndum, hafði sett upp spekingssvip og jós úr brunnum visku minnar yfir son minn, sem vart hafði undan að taka á móti ósköpunum. Í gegnum þessa stærðfræðikennslu alla, undraði mig mest hversu fljótur hann var að tileinka sér flókna hluti og hversu fljótt gleymdist það sem tekist hafði að kenna honum, þegar aftur var farið í upprifjunina.
,,Núll er sama og ekkert," sagði ég. ,,Það er óskiptanlegt og því sama hvort þú margfaldir eða deilir í það með t.d. 500 er útkoman ætíð núll. Sama hvaða tala er notuð, útkoman jafnt og núll. Hinu verður þú að halda sér og rugla ekki saman að tveir hestar plúss eða mínus enginn hestur halda áfram að vera tveir hestar. Nærðu þessu ekki vinurinn minn," bætti ég við í restina.
Ég ætlaði ekki að láta mig verða það á að hafa sjálfgefið hvað hann kynni og hvað ekki, því kennsla ofan á grunn sem ekki er til staðar, þjónar engum tilgangi.
,,En það er samt eitt sem ég skil ekki," sagði sonur minn og rétti sig upp frá námsbókunum.
,,Nú! hvað er það?"
,,Núll er óskiptanlegt, segirðu, fastur punkur, sama og ekkert og fyrst svo er hvernig getur maður þá átt ekkert?"
Hér varð smá þögn en svo bætti hann við ,,og hvernig í veröldinni getur maður þá átt minna en ekkert, minna en ekki neitt?"
Þessu átti ég ekki von á.
Ég leit til hans og eftir að hafa íhugað spurninguna nokkur andartök, byrjuðum við báðir að hlæja.
,,Þar mátaðir þú mig alveg. Þessi spurning er hreint frábær en veistu að þetta dæmi er meira í áttina að heimspeki en stærðfræði."
Fátæklegar útskýringar fylgdu í kjölfarið, hvað væri heimspeki og hvað ekki.
,,Komdu með dæmi um heimspeki svo ég átti mig betur á þessu. Hafðu það eitthvað um tölvur."
Hér hafði ég vakið áhuga hans en um leið sleppt honum frá námsbókunum í fáeinar mínútur.
,,Reyndu að finna dæmi, já höfum það af skotleik í fyrstu persónu, þú veist, þá er vopnið og hendurnar fremstar á skjánum og umhverfið fjær."
Það var ljóst að dæmið skyldi vera þungt og í líkingu við stærðfræðidæmin sem ég hafði nýlagt fyrir hann.
,,Jamm," sagði ég eftir nokkra umhugsun. ,,Ég held að ég sé kominn með dæmi.
Segjum að þú sért staddur í 30 metra fjarlægð frá húsi og ætlir að labba að því. Um leið og þú hreyfir þig, heyrirðu fótatak þitt og marrið í snjónum og því sannfærður um að þú sért að labba að húsinu."
,,Ekki spurning! Og hvernig getur þetta verið heimspeki?"
,,Rólegur. Þetta er ekkert merkilegt ennþá en hér myndi heimspekingur strax gera tilraun, hvort þetta væri svona eða einhvern veginn öðru vísi? Til að byrja með myndi hann ná sér í jeppa, í leiknum og stilla honum upp á sama punkti, annars vegar ganga vegalengdina að húsinu og hins vegar aka hana."
,,En til hvers?"
,,Þetta er heimspekingur, manstu og sér allt í öðru ljósi en ég og þú. Ef útkoman væri sú að engu skipti hvort hann gerði, væri málið leyst: Persónan, þú, í tölvuleiknum labbaðir ekki eitt fet heldur færðust allir hlutir í áttina til þín, þegar ýtt væri á takka á lyklaborðinu. Þú gengir ekki en þú virtist ganga. Hvað segirðu um þessa hugmynd?"
,,Nei, þetta getur ekki verið. Þetta er einum of fjarlægt."
,,Má vera en ég sé þetta fyrir mér eins og setið væri í strætó, hann færi af stað, þú hreyfðist þó þú hreyfðir þig ekki neitt."
,,Þá er þetta svipað og ég kom með um núllið áðan."
,,Já," svaraði ég ,,og til þess að kóróna spekina, hugsaðu þér að ef þú gætir gengið í norður í tölvunni á meðan skjárinn sýndi í suður og hreinlega horfið ekki bara út af sjónarsviðinu, af skjánum, heldur svo gjörsamlega að þú týndist í leiknum. Hvað þá?"
Ekki vildi ungi maðurinn trúa þessu að óreyndu en varð sammála um að svona nokkuð hlyti að teljast í það minnsta ágætis heimspeki.
En nú langar mig að snúa mér að öðru sem hefur tengingu við ofanritað.
Nokkru fyrir árslok 2002 langaði mig að skapa og nota tímann fyrir eitthvað uppbyggjandi, samdi, las og gaf út á geisladiski barna- og fjölskyldusöguna ,,Bróðurþel Lalla og Birgis."
Sagan hlaut menningarstyrk frá Reykjanesbæ.
Slíkur stuðningur skiptir sköpum og viðurkenningin, mér sem ferskur blær og vil ég færa Reykjanesbæ enn og aftur þakkir fyrir.
Sagan kom út í tæpum 600 eintökum, fór víða um land, nokkur eintök erlendis og í dag er hún uppseld.
Mér er minnistætt þegar ég spurði ungan dreng sem ég þekkti ekkert, á áttunda ári, hvernig honum hefði líkað sagan.
,,Þegar ég var að skrifa í skriftarbókina mína kom mamma inn og setti Lalla og Birgi í græjurnar. Ég skrifaði ekki nema hálfa blaðsíðu á meðan ég hlustaði
á söguna en var enga stund með tvær þegar hún var búin."
Þetta hól er einlægt og mig undraði mest að hann hafði hlustað
stanslaust á söguna í 80 mínútur.
Á öðrum stað var ung stúlka á sjöunda ári sem gerðist aðdáandi Lalla og Birgis. Hún var dálítið ærslafull og var sagan notuð til að róa hana niður fyrir svefninn. Einn daginn kom hún að máli við mig:
,,Þekkir þú Lalla og Birgi?"
,, Ég veit hverjir þeir eru," svaraði ég.
,,Heldurðu að þeir vilji nokkuð koma út að leika, ....helst Birgir?"
Eftirfarandi kafli er í beinu framhaldi af ,,Bróðurþeli Lalla og Birgis" og hefur aldrei birst opinberlega fyrr. Sá hluti kaflans sem fjallar um snjókastið, virðist hafa yfir sér einhvern ævintýraljóma og ég margoft þurft að lesa hann aftur fyrir unga grallara. Það má vera að sá hluti þyki of rosalegur fyrir yngsta aldurshópinn.
Allur réttur er áskilinn höfundi K.K.B.
Helstu atriði: Heimalærdómur og Skólaljóðin, gáfnatröllið Niels, heimspekilegar vangaveltur og hressandi snjókast.
Góða skemmtun.
>>> Er af ættbálki Indíána og besti vinur Davy Crockett <<<
Það hafði byrjað ósköp rólega um morguninn. Í gegnum franska gluggann heima horfði ég á snjókornin svífa hægt og virðulega til jarðar. Laugardagur, uppáhaldsdagurinn minn, enginn skóli, en samt ekki sloppinn. Opin stílabók og Skólaljóðin lágu á borðinu mínu.
,,Goss." Öll þrjú erindin fyrir mánudaginn.
Hvers kyns heimur var þetta orðinn. Máttu litlir strákar aldrei vera úti að leika sér? Álútur yfir Þorraþræl reyndi ég að einbeita mér, lokaði bókinni, síðan augunum og þuldi upp:
,,Mararbáran blá, brotnar þung og há.."
,,uuu, nei, ein, nei únn, nei."
Hvað kom eiginlega næst?
,,unnarsteinum á..."
Eftirvæntingin að komast út í snjóinn gagntók mig. Að læra og læra, alltaf að læra. Eins og maður kannaðist ekki við að hafa lesið bók spjaldanna á milli. Kergjan byrjaði að krauma inn í mér. Og þegar til átti að taka, þekkja varla myndirnar hvað þá innihaldið aftur. Ég togaði til blágrænu peysuna með Vaff hálsmálinu og lét rúllukragann á peysunni þar fyrir innan fara í pirrurnar á mér.
Nokkrir krakkar gerðu atlögu að ljósgrænu húsi í nágrenninu. Þeir byrjuðu að splundra heimilsfriðnum á efri hæðinni. Glerin svignuðu undan þungum snjóboltunum. Fólkið á neðri hæðinni sýndi sig í fyrstu út í gluggum og hóaði á börnin til málamynda en ákvað nokkru síðar að láta málið eiga sig.
Hik. Stopp. Galtómur.
Svona gekk þetta ekki.
Byrjaði upp á nýtt.
Í þetta sinn söng ég hástöfum með bókina opna, teygði á upphafstónunum til að hleypa lífi og krafti í lærdóminn.
,,Núúúú eeeer frost á Fróni frýs í æðum blóð
kveður kuldaljóð.."
Nú gekk þetta vonum framar.
Þegar kom að þeim hluta ljóðsins í laglínunni sem ég kunni utanbókar, skotraði ég til augunum eftir síðunni. Myndirnar voru tvær, með bláum bakgrunni, önnur af sjómönnum að fjargviðrast út af gæftaleysi en hin af bónda með heynál í höndum.
Ég fletti. Ja-há! Sjálfur Ísmaðurinn með íbjúgt nef, í klakabrynju og horfði reiður út í sortann. Hvað hafði hann gert við vopnin? Sko þessa mynd ætlaði ég að klippa út og hengja upp við hliðina á rúminu mínu.
Ég hélt áfram að fletta. Mikið voru þetta lifandi og skemmtilegar teikningar sem prýddu bókina.
Hva.., hvað? Fallega ljóðið um hann Bjössa litla sem bjó á Berginu. Nú hafði athyglin heldur betur leikið á mig. Ég var farinn að lesa allt annað ljóð.
Hávaði og gauragangur fyrir utan. Ég leit út um gluggann. Börnunum hafði leiðst atlagan á efri hæðina, enda ekkert uppskorið, fundið sér nýtt verkefni nefnilega neðri hæðina í sama húsi. Uppi varð fótur og fit, köll út um hurðir og lausafög.
,,Í burtu óþokkalýður."
,,Hvaðan kemur þessi skríll eiginlega? spurði húsmóðirin vel í holdum, klædd grænni treyju, hnepptri til hálfs.
,,Þetta gengur hér sjálfala um," svaraði eiginmaðurinn með hneykslan í málrómnum.
,,Það væri gaman að vita hvar foreldrar þessara barna eru þessa stundina."
Snjóbolti kom aðvífandi og skall á koparlitaða húsnúmerinu skáhallt upp af dyragættinni.
,,Ég skal jafna um ykkur," öskraði húsbóndinn þegar snjónum rigndi yfir hann. Æðisgenginn eltingarleikur niður í nærliggjandi götur, allt eins og strákarnir höfðu vonað.
Enn þrjóskaðist ég við. Hvað stóð þarna efst?
Þorraþrællinn 1866.
1866? Það skyldi engum undra þó erfiðlega gengi, síðan úr fornöld.
Um hádegisbilið jókst snjókoman, allt var orðið hvítt og hvergi sá á stein. Skólaljóðin viku fyrir annars konar áhuga. Ég notaði heila opnu í stílabókinni undir viðfangsefnið.
Þær komu úr austri þegar rauður bjarmi dögunar lék um hafið og alla sjónarönd. Við logafjöld, í hálfboga út við sjóndeildarhring, sendi sólin geisla sína í gegnum mystrið og flugvélarnar sveimuðu í áttina heim innan um hætturnar og glitrandi skýin. Nokkrar höfðu farið á undan í varúðarskyni til að tryggja að loftbrúin héldi. Í kringum sprengju- og flutningavélarnar með Fljúgandi Virki í broddi fylkingar, flugu Ferry Battle orustuvélarnar enda of hægfara til að standa í eldlínunni. Spitfire kom æðandi út úr skýjaþykkni og steypti sér yfir freigátu sem snéri fallbyssunum án afláts gegn þessari óvæntu árás.
Fellibylur kom sunnar og gat rennt sér hindrunarlaust yfir skipið frá hvalbak og aftur að skut. Kúlurnar spændu upp dekkið, skullu á styttum og stunnum og boruðu sig inn í stýrishúsið. Flugmenn tveggja-búka vélanna horfðu áhyggjufullir á í nokkurri fjarlægð og skimuðu eftir stóru herskipunum sem hlytu að vera í nánd.
Hvernig væri að láta tvo kafbáta bíða færis efst í horninu á blaðinu ef flugvélunum mistækist?
Eldglæringar, skothríð, ýlfur og glamur. Ég sökkti mér ofan í teikninguna.
,,Lárus minn. Heldurðu að þetta fari ekki að verða ágætt hjá þér? Og svo er kominn matur."
Móðir mín hafði lagt hendurnar ofan á borðið og ég rétt náði að loka stílabókinni.
Hvað ég var feginn.
Nú skyldi maður út í snjóinn. Hvað var til skemmtilegra en að fá kaldan gustinn til að leika um sig, finna roðann hlaupa í kinnarnar og glaðværðina umlykja hverja taug.
Húfa, vettlingar, trefill og útivera kallaði á mig.
Eftir að hafa leikið með krökkunum, fengið að renna mér á magasleða Jóhanns, fjölmenntum við á gúmmíslöngu, létum hana snúast hring eftir hring með viðeigandi öskrum niður botnlangann. Þá lá leið mín um nærliggjandi götur og endaði út í skóla.
Við Níels dröttuðumst áfram yfir fótboltavöllinn í áttina að hitaveitustokknum. Hann var gáfnaljósið í skólanum, grannur, fremur hlédrægur með gleraugu sem voru þykkari en botninn á sultukrukku.
,,Er það í ljóðinu, segirðu?"
Hann tók af sér vettlinginn af annarri hendi og stauk sér undir nefið.
,,Hvítleit hringaskorðan? Nú veit ég ekki en ég skal giska.
Klemma eða skrúfstykki," datt honum fyrst í hug.
,,Einhvers konar tæki í gullsmíði kæmi til greina, hvítleit hringaskorða," bætti hann við vongóður.
Þetta fannst mér ólíklegt. Það marraði undan skónum í léttri nýfallinni mjöllinni. Lítil þúfa við girðingu í aðliggjandi húsi, reisti sig upp, gerði trekt með höndunum og vældi eins og kjói út í buskann. Í nokkurri fjarlægð byrjaði krummi að krunka ámótlega, um hæl, að því er virtist í andarslitrunum. Njósnarar. Þetta voru njósnarar. Það var hvergi hægt að þverfóta fyrir þeim.
Á móts við leikskólann sáum við Grím sem byrjaði að labba skáhallt yfir völlinn í áttina til okkar.
,,Óheppnir," hvíslaði Níels.
,,Mig langar ekkert til að leika við hann."
,,Er hann svona leiðinlegur?"
,,Nei, kannski ekki en hann er alltaf með stæla og svo leiðis."
,,Halló strákar. Hvað er verið að gera?"
,,Lítið."
,,Er eitthvað spennandi á döfinni?"
,,Nei, ekkert ákveðið."
Við gengum saman og þögðum nokkra stund. Grímur leit á okkur til skiptis.
,,Ég þekki stelpu sem kann að spila á munnhörpu og greiðu. Vitið þið hvernig á að leika á hárbursta?"
Við litum til hans og héldum för okkar áfram.
,,Hvað er að ykkur? Þetta var bara grín. Á ég kannski að segja ykkur brandara?"
,,Þú ræður því.""
,,Ekkert frekar," bætti ég við.
,,Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína. Pálína na.. na, nei nei.
Það var einu sinni herbergi fyrir ofan krá í Villta Vestrinu. Þar gat enginn hafist við út af reimleikum. Allir sem reyndu stukku út um gluggann á herberginu á miðnætti."
,,Hvort er þetta draugasaga eða brandari?"
,,Dag nokkurn kom maður sem var búinn að labba þvert yfir Bandaríkin, í einni lotu og var alveg að deyja úr þreytu eins og þið getið rétt ímyndað ykkur. Mér er alveg sama um allan draugagang sagði hann við eigandann. Það eina sem mig vantar er rúm til að sofa í. Rétt þegar hann var að sofna á slaginu tólf fór einn veggurinn að bólgna út, sérkennilegt slím birtist, byrjaði að renna saman og myndaði ótrúlega óhugnarlegt skrímsli sem byrjaði að tala.
,,Veistu hvað ég get? Veistu hvað ég get?. Á þessu augna......"
,,Sagði ég ekki," Níels hnippti í mig. ,,Draugasaga, hrein draugasaga."
,,Á þessu augnabliki hefðu allir vanalegir menn stokkið út um gluggann en maðurinn rétt náði að lyfta upp augnlokunum fyrir þreytu. Neit það veit ég ekki.
Veistu hvað ég get, veistu hvað ég get..., endurtók skrímslið.
Blessaður hættu þessu rugli og segðu mér þá hvað þú getur. Veistu hvað ég get, veistu hvað ég get. Ég get gert svona með munninum: Babela babela bei, babela babela bei."
,,Er sagan búin?"
,,Á að hlæja núna?" bætti ég við.
,,Hvað er að ykkur. Má maður ekki segja brandara?"
,,Lárus, þarna áðan í sambandi við skólann. Hvað kemur svo?"
Níels hafði sett upp spekingssvip og leit til mín.
,,Í hverju, jaaá í því."
Ég stoppaði og leit upp í loftið.
,,Nú er frost á Fróni tra la la la ló,
tra la la la ló..."
Hvað ertu að gera?"
,,Ég þarf að syngja mig áfram í ljóðinu annars man ég það ekki.."
,,Huggar manninn trautt."
,,Um hvað eru þið að tala? Grímur kom alveg af fjölum.
,,Þorraþræl."
,,Ljóðið, díííí. Ég þurfti líka að læra það. Kennarinn tók mig upp að töflu og lét mig ryðja öllu heila klabbinu út úr mér."
,,Hvernig gekk?" spurði ég fullur áhuga því ef hann gæti lært þá gæti ég það.
,,Hún sagði að ég væri stórefnilegur, hefði búið til nýtt ljóð með því að rugla saman erindunum."
,,Hvernig fór?"
,,Hefurðu eitthvað frétt af þessu?"
,,Nei."
,,Varð trítilóð þegar ég fullyrti að það gæti ekki verið á íslensku með þessum fuurrrðulegu orðum."
,,Athyglisvert," sagði Níels. ,,Ég þarf bersýnilega að fara að opna hug minn fyrir þessu kvæði."
Við Grímur litum til hans með lotningu og reiðiblandinni tilfinningu. Það tæki ekki langan tíma fyrir þennan snilling að sporðrenna eins og einum Þorraþræl.
,,Eftir hvern er þessi fegurð?"
,,Lagið, ljóðið?"
,,Já."
,,Kristján Jónsson, ljóðið. Ég veit ekkert um lagið."
,,Allt í góðu. Hvítleit hringaskorðan huggar manninn trautt?"
,,Já."
Eftir hrukkunum á enninu að dæma var vandamálið samboðið virðingu hans.
,,Látum okkur sjá... uhm. Eitthvað... uhm." Níels var að hugsa upphátt.
,,Hvað kemur svo Lalli?"
,,Brátt er búrið autt."
,,Bíðum nú við.. getur litla huggun veitt þó illa gangi.. hva.. ha? Virkilega. Já auðvitað," sagði Níels og bankaði þrisvar í ennið á sér.
,,Að ég skyldi ekki sjá þetta strax. Kona meira að segja gift kona."
,,Hvernig færðu það út?"
,,Sú sem skorðar hvítleitan hring á hendi hlýtur að vera gift."
Þetta yrði gaumgæfilega rannsakað í skólaljóðaútskýringunum heima hjá Binna með kvöldinu. Binni var með mér í bekk, dálítið klár strákur og svo átti hann líka þykka íslenska orðabók. Það væri eftir öðru að Níelsi hefði tekist að ramba á lausnina.
,,Hvernig ferðu að þessu?"
,,Hverju?"
,,Nú að vera svona gáfaður?"
Neðri vörin fór að titra eins og alltaf þegar heimur æðri menntunar bar á góma hjá Níelsi.
,,Skammtímaminni, langtímaminni er allur galdurinn."
,,Það hlýtur að vera flóknara."
,,Bíddu, ég var ekki búinn."
,,Allt í lagi. Haltu áfram."
,,Að halda utan um allt sem maður veit, tekur ekki mikið á en að muna allt sem maður veit ekki, það er sko öllu erfiðara."
Grímur hlustaði þögull á umræðuna og ferskleikinn sem fylgdi honum framan af, fokinn út í buskann.
,,Skiljiði hvað ég á við?" spurði Níels með yfirlætistón.
,,Nei." Fattarinn hlyti að hafa bilað í mér.
,,Sjáðu orðið þarna áðan, úr ljóðinu..."
,,Hvítleit hringaskorðan?"
,,Nákvæmlega. Þarna manstu orð sem þú veist ekki hvað þýðir."
,,Já þannig. Sniðugt."
,,Annars er þetta ekki mikið. Þú hefðir orðið hissa Lalli ef þú hefðir vitað hvað ég var að hugsa um í gær."
Því gat ég ekki neitað því þá hlyti ég að vera göldróttur.
EF bíll færi á meiri hraða... ég segi á meiri hraða en ljóshraða út í himingeimnum og hefði ljósin á..."
,,Bílar komast ekki á ljóshraða." Grímur var kominn inn í umræðuna.
,,Ég sagði EF, hvað haldið þið að myndi gerast?"
,,Perurnar myndu springa," stakk ég upp á.
,,Nei nú kemur dálítið merkilegt. Ljósin sæust ekki fyrr en bíllinn væri löngu farinn hjá."
,,Hvað þá með ljósaperurnar, ekki hyrfu þær, sjálfir ljósgjafarnir? Þá hlytu ljósin að hverfa líka," fullyrti Grímur sem kominn var á fleygiferð inn í rökræðuna.
,,Jú, perurnar hyrfu líka. Þetta er spurning um tíðni."
,,Ljós er ekki bara tíðni heldur líka orka, ljósorka."
Grímur spyrnti við fótum en Níelsi jókst áræðin. Þetta gat ekki farið nema á einn veg.
,,Við verðum að ná réttri sjónarhæð og beita síðan stærðfræðilegu raunsæi til að fá hin réttu hlutföll á hvern þátt fyrir sig."
,,Þú meinar að það væri á ferðinni enginn bíll og engar ljósaperur en samt sæust bílljós á fleygiferð út í himingeimnum?"
,,Einmitt. Þetta er alþekkt með stjörnurnar."
Við fundum hvernig Níels muldi okkur undir sig. Það var annað hvort að hrökkva eða stökkva. Grímur tók af skarið.
,,Ég þekki mörg svona skrýtin dæmi. Í Mogganum í gær sagði að elsti maður á Íslandi væri látinn. Þá sagði pabbi að þetta væri vitleysa. Elsti maður á Íslandi hefði dáið í hitteðfyrra."
,,Góður punktur hjá þér. Vissulega rétt þó það sé rangt. Heimspeki í hæsta gæðaflokki. Elsti maður á Íslandi getur ekki dáið þó hann sé alltaf að deyja."
,,Ég veit. Hann er eilífur."
,,Það væri gaman að sjá bíl á ljóshraða í kappakstri á Grand Prix í Frakklandi."
Ég beindi máli mínu til Gríms.
,,Fyrst kæmi bíllinn ljóslaus, vaaaaáá."
Ég gerði höfuðhreyfingu frá vinstri yfir til hægri.
,,Þá ljósin bíllaus og að lokum hljóðið allslaust mörgum dögum seinna." Ég barðist við hláturinn.
,,Eins er með hljóðið." Níels var ekki hættur.
,,EF þú hlypir í burtu...."
,,Kemur þetta EF einu sinni enn," náði Grímur að koma að í umræðunni.
,,Já á sama hraða og hljóðið bærist til þín. Hvenær heldurðu að þú myndir heyra kallið?"
,,Ég? Ertu að tala við mig? Ég væri ekki kominn nema þrjár götur þegar ég springi af mæði og hljóðið næði mér."
,,Það þýðir ekkert Níels að vera að setja upp heilu dæmin á EF..."
,,Jú öðruvísi er ekki....."
,,Nei þú verður að byggja mál þitt á einhverju áþreifanlegu."
Þeir voru farnir að rífast. Ég gat samt ekki annað en dáðst af tilburðum Gríms til að halda jöfnu en vildi fá þá til að hætta umræðunni og tala um eitthvað skemmtilegra.
,,Ég held að þetta sé rétt hjá Níelsi, ég meina þegar á allt er litið."
Mér til undrunar brást hann hinn versti við.
,,Ég þarf ekki á liðsinni annarra að halda í rökhugsun og síst af öllu frá þér. Kærar þakkir samt. Færir til staðreyndir, hrærir í umræðunni, forsendur og afleiður veltar hver um aðra þangað til allt stendur á haus og enginn veit hvar við erum staddir hvað þá meir. Um stjörnurnar langar mig til að segja....."
Hann var svo niðursokkinn í rökstuðninginn að hann var farinn að staldra við, stoppa okkur á göngunni með alls kyns handapati og puttabendingum til áhersluauka.
Við vorum rétt komnir að hitaveitustokknum þegar snjóboltarnir buldu á okkur. Með snarræði tókst mér að verjast hættulegustu boltunum en Níels uggði ekki að sér, enda í allt öðrum heimi, skotinn gjörsamlega í kaf áður en honum hugkvæmdist að leita skjóls á bak við stokkinn.
,,Það mætti halda að við værum að komast í snjókast."
,,Þá ætlar að lifna heldur betur yfir þessum degi."
Við renndum úlpunum upp í háls og drógum húfurnar langt niður fyrir eyru og litum yfir stokkinn. Við endann á raðhúsalengjunni var skafl, varnargarður úr snjó á miðri lóðinni. Þrír drengir komu í ljós á bak við garðinn. Tveir af þeim fjarskalega svipaðir, klæddir sams konar fötum og gott ef ekki var, voru þeir tvíburar. Sá þriðji var á svipuðu reki og við.
,,Þetta verður leikur einn," sagði Grímur og vildi þegar í stað gera áhlaup.
,,Við skulum hnoða nokkra bolta og ryðjast á þá."
Við litum aftur yfir stokkinn. Þeim var að berast liðsauki.
Dyrnar á íbúðinni næst garðinum voru opnaðar, stór og sterklegur strákur kom í ljós. Hann var í svartri fóðraðri flugmannsúlpu með þykka rúskinnshúfu með stuttu deri, eyrnaskjólið óhnýtt undir hökunni.
,,Við ráðum alveg við þessa þrjá en sjáðu þann stóra..."
,,Mér líst ekkert á þetta Grímur," sagði ég og reyndi að draga úr óþarfa bjartsýni.
,,Hann er miklu eldri en við. Gæti einn ráðið við okkur þrjá með glans. Ættum við ekki bara að forða okkur. Það er enginn vandi að skríða hér upp með stokknum." Hræðsluhljómur hafði gert vart við sig í rödd minni.
,,Heldur þú að við séum einhverjar gungur?" Grímur horfði til mín með ákveðni í augnaráðinu, ,,nei við berjumst."
Ég sá áhyggjusvip á Níelsi og sjálfur fann ég fyrir kvíðaverkjum í maganum. Var Grímur alveg að tapa sér? Fara á móti þeim stóra og svo hinum í viðbót?
Nei, þetta leist mér ekki á.
Snjóboltarnir skullu á stokknum og sáldruðu snjónum yfir okkur. Blautir vettlingar, snjór inn á milli laga og niður í hálsmálinu sem byrjaði að bráðna og ískalt vatnið að renna niður eftir hryggnum. Okkur sveið í eyru, nef og fingurgóma.
,,Við látum ekki merðina komast upp með þetta," sagði Níels allt í einu og virtist hafa gert upp við sig að láta vaða hvernig sem færi. Þetta var ólíkt honum. Þó Níels væri gáfnatröll var hann eftir því huglaus og því hlyti rifrildið við Grím um ljóslausa bílinn að hafa átt sinn þátt í þessari ákvörðun.
Eftir að hafa raðað nokkrum snjóboltum á stokkinn, beið hann þangað til atgangurinn rénaði, spratt á fætur og dældi boltunum í áttina að strákunum. Þeir voru viðbúnir atlögunni og skutu allt hvað af tók á móti.
Grímur skreið alveg til mín.
,,Er hann eitthvað öðruvísi?"
,,Nei, bara greindari en aðrir strákar."
,,Er hann vanur að lenda í svona löguðu?"
,,Blessaður vertu, kann ekkert fyrir sér í snjókasti."
,,En kann þó dálítið... í návígi, að slást, kann brögð og svo leiðis?"
,,Nei, nei, nei, þess síður. Tek hann eins og ekkert. Ég held að hann hafi aldrei slegist í alvöru og jafnvel ekki einu sinni í plati."
,,Nú líst mér á. Við erum þá ekki nema tveir og hálfur á móti fjórum."
,,Grímur minn." Ég varð eins mjúkur í málrómnum og ég gat og líkti eftir mömmu þegar hún var að biðja mig um að læra eitthvað sem ég nennti ekki fyrir skólann.
,,Heyrðu, ættum við ekki að hypja okkur á meðan tími er til?"
,,Kemur ekki til mála. Við berjumst."
Níels var ekki hættur í snjókastinu.
,,Þið þarna tveir. Já tvíhöfða álappalegu..."
,,Veimiltíta og væluskjóða," örguðu tvíburarnir á móti.
,,Hvaða rengla er þetta?"
Hver?"
,,Prímatinn, þessi handleggjasíði hjá ykkur, nýkominn úr trjánum. Bananamaðurinn?"
,,Hvað með hann?"
,,Heitir hann Karl. Viltu snjó - Karl?"
Níels þeytti bolta sem lenti ofan á snjóbingnum á milli tvíburanna.
,,Segiði honum að hann sé algjör hálmsveppur."
,,Segðu honum það sjálfur. Hann er hérna við hliðina á okkur."
,,Hvað voru þið að segja. Heitir hann Björn?"
,,Ertu að reyna að vera sniðugur?"
,,Nei. Má ég þá bjóða þér ís - Björn?"
Glósurnar gengu á milli og ef eitthvað var hafði Níels betur.
,,Spyrjið þið hann hvort hann borði oft ætiþistil. Mér finnst hann svo grænn í framan."
Ísbirni líkaði ekki samtalið, gat engan veginn unað því að vera uppnefndur því sem hann skildi ekki.
,,Sá er ekki huglaus. Lætur þá heyra það og gerir ekki tilraun til að skýla sér, " hvíslaði Grímur að mér.
Níels hafði ekki kastað lengi þegar hann fékk bolta beint í andlitið svo honum sundlaði nokkra stund, hrækti og skyrpti snjónum út úr sér, sparkaði og sló í kringum sig.
,,Þið skuluð fá á baukinn, hökulausu hundspottin ykkar," kallaði hann og steytti hnefann á móti snjóboltadrífunni.
,,Þarf ég að sigra þá einn, er það meiningin?" Níels horfði heiftarlega til okkar.
,,Rugguhestur og leiðindaskjóða," skríktu tvíburarnir í kór af kátínu og bentu á hann með alls kyns skrípalátum.
,,Ertu kannski líka pelabarn. Maammaa, ma ma ma mamma."
Þeir settu totu á munninn, upp í sig þumalinn og líktu eftir smábarni að sjúga snuð.
,,Nei ég er ekkert pelabarn, en ég á frænda sem er pelabarn og þið skuluð ekki voga ykkur að tala illa um hann."
Það var ekki besta veganestið að hafa bókaorm sér við hlið í stórræðum en ótrúlegt hvað úr rættist.
,,Hægðu á þér. Við þurftum að gera áætlun."
Grímur reyndi að fá Níels niður til sín í skjól.
,,Hægja á mér. Kemur ekki til mála."
Í óðagotinu við að ná sér í bolta duttu gleraugun af honum.
,,Ærulausu pörupiltar og skröltandi lúðulakar. Gætuð ekki hitt belju þó þið hélduð í halann á henni." Hann kastaði af öllu afli þó hann sæi ekki glóru.
Boltinn fór í fallegan sveig í loftinu, en... Jeremías .... Jeremías.... Ég lokaði augunum eitt augnablik og stundi þungt.
Núna voru vandræði í uppsiglingu.
Núna voru engin smá vandræði í uppsiglingu.
Snjóboltinn lækkaði flugið og small á þeim stóra sem féll við og húfan skaust af honum. Þar fékk hann það heldur betur óþvegið.
Hvílík hittni og það án gleraugna!
Ég sá Ísbjörn standa upp, öskuillan, þenja brjóstkassann og maka snjó framan í sig á meðan sársaukahrinan gekk yfir.
Bíddu nú við. Hvað var að gerast?
Já, já átti að fara að nota svona lúalega óknytti og bolabrögð?
Við sáum Ísbjörn hnoða bolta allt hvað af tók og bleyta síðan í honum með munnvatni. Þetta var bannað, algjörlega bannað og þar að auki stórhættulegt.
Það small í gljáfægðum, grjóthörðum, boltanum þegar strákurinn hélt áfram að velta honum á milli handanna.
Hér yrði að gæta ýtrustu varúðar því ef maður fengi slíkan bolta á viðkvæman stað væri úti um frekari snjókast á þessari vertíð.
,,Hérna eru gleraugun. Komdu í skjól. Við þurfum að gera áætlun."
Um leið og ég stóð upp til að toga Níels niður til mín sá ég útundan mér hættuna koma.
Sá stóri tók tilhlaup og kastaði eins fast og hann gat.
Ég heyrði hvininn í boltanum og rétt náði að víkja mér undan á síðustu stundu með því að snúa til höfðinu þegar boltinn smaug fram hjá eyranu.
,,Ætlarðu að koma." Ég þreif í axlirnar á Níelsi og keyrði hann niður úr skotmáli.
,,Hvaða læti eru þetta í þér Lalli?"
,,Við þurfum að gera áætlun. Ertu heyrnarlaus eða hvað?"
,,Jæja strákar, svona förum við að þessu."
Grímur hafði teiknað með tréspýtu í snjóinn.
,,Þetta er raðhúsalengjan og þetta er hitaveitustokkurinn. Við byrjum á þessu svona."
Hann útskýrði áætlunina í smáatriðum og við gátum ekki annað en dáðst að herkænskunni.
,,Þið haldið þeim við efnið á meðan strákar," sagði Grímur um leið og hann strokaði út öll verksummerki hernaðaraðgerðanna.
Við sáum hann skríða hljóðlega í burtu upp með stokknum. Þá þurfti að gera sig tilbúinn og við fylltum alla vasa af snjóboltum. Ef við þekktum Grím rétt, þyrfti ekki lengi að bíða eftir merkinu.
,,Þeir eru boltalausir núna. Hvar er Grímur?"
Lágvært korrhljóð frá dúfu sem fór síðan að ræskja sig, barst til okkar. Var þetta merkið, stríðsópið? Það gat ekki verið, ábyggilega einhver njósnarinn að þvælast fyrir.
,,Við verðum að gera áhlaup á meðan þeir eru boltalausir," hvíslaði Níels. ,,Það er ekki eftir neinu að bíða."
,,Hvað með Grím?"
,,Grím? Þú mátt trúa hverju sem þú vilt en ég held að hann hafi hlaupið heim til sín, skræfan."
Við drógum djúpt andann, reyndum að styrkja hvorn annan með uppörvandi hreystitilburðum, bjuggum til spyrnu fyrir lappirnar með því að stappa niður snjóinn, færðum þungann frá hælnum fram á tábergið og tærnar líkt og spretthlauparar gera.
,,Einn, tveir, og..... Árás," kölluðum við og ruddumst yfir stokkinn.
,,Látum þá finna fyrir því."
,,Látum þá finna fyrir því hvar Davíð keypti ölið," bætti Níels við og orgaði út í loftið með bolta í báðum höndum.
,,Hrínandi Lufsa og Laki." Hann átti við tvíburana.
,,Hér kemur snjóboltaklaki."
Við skutum á allt kvikt í kringum okkur. Hávaðinn gerði þá smeyka, þeir hopuðu, bökkuðu nokkur skref. Um svipað leyti heyrðist skaðræðis ,,Árásarhróp" að húsabaki. Grímur var kominn á vettvang.
Ég stökk yfir girðinguna og á annan tvíburann, sveiflaði honum niður með mjaðmahnykk og hélt í heljargreipum, gikkföstum ofan í snjónum.
,,Þú ættir skilið að vera kaffærður." Ég gerði mig líklegan til athafna.
,,Ég gefst upp."
,,Það er ekki furða þó maður heyri ekki baun með allan þennan snjó eftir ykkur í eyrunum."
,,Ég gefst upp, ég gefst upp."
,,Ég setti fótinn ofan á aðra höndina á honum og fór að moka úr eyrunum með löngutöng.
,,Hvað segirðu?"
,,Ég gefst upp, ég gefst upp, ég gefst upp."
,,Það var mikið að maður heyrði í þér."
Ég sleppti honum lausum. Bróðir hans var fljótur að átta sig á stöðunni, stökk í burtu, stóð við opna hurðina á neðstu íbúðinni þaðan sem Ísbjörn kom.
,,Reyndu að ná mér væskill," kallaði hann hálfur á milli stafs og hurðar og reyndi að sýnast hugrakkur á undanhaldinu. Það var auðheyrt að hann bjó ekki yfir jafn kjarnyrtum orðaforða og Níels.
,,Vertu ekki að hanga þarna í gættinni eins og sauður. Hlauptu alla leið til mömmu, ma ma ma mamma."
Ég lét eins og þeir höfðu látið rétt áður.
,,Þú ert ekkert nema útþaninn monthani og .. hérna ... belgmikið prumphænsn."
,,Er það?" Ég tók snöggt viðbragð fáein skref. Hann endasentist inn og skellti hurðinni.
Sá stóri tvísteig við girðinguna og var innikróaður.
,,Þú kemst aldrei fram hjá okkur," sögðum við ógnandi sitt hvoru megin við hann og nálguðumst með snjóbolta á lofti, skref fyrir skref.
,,Á hvað ertu að glápa? Ertu eldgömul sápa, þverhaus?"
Grímur gekk alveg til hans, reygði sig upp, stóð á tánum fyrir framan hann til að sýnast stærri.
,,Hélstu að ég væri búinn að gleyma þér, uglufés?" Ísbjörn steinþagði.
,,Ég er ekkert hræddur við þig, gefstu upp?"
,,Þið eruð fleiri."
,,Já og þú ert einn," skaut ég inn í.
Ljósblá augu stráksins flögruðu á milli okkar. Hann var að meta stöðuna. Allt í einu rauk Grímur á hann, greip í úlpuna, læddi táberginu á vinstra fæti aftur fyrir hælinn, ýtti snöggt og ætlaði að hrinda honum en hann haggaðist ekki. Ég leit til Gríms. Hann hristi hausinn í uppgjöf og bakkaði nokkur skref. Ætluðum við að glopra þessu niður, tapa leiknum á síðasta víginu?
Níels hafði líka fylgst með atburðarásinni. Hans tími var kominn.
,,Ég skal lúskra á þér einn ef það er það sem þú vilt," hvæsti Níels, lét snjóboltana detta niður á jörðina, byrjaði að klæða sig úr úlpunni.
,,Og þú skalt sko fá að falla eins og spilaborg. Strákar, Lalli, Grímur! Færið ykkur eina spönn. Ég ætla að taka hann í gegn og kaffæra síðan svo um munar."
Eftir nokkra umhugsun lyfti óvinurinn upp hægri hendi, gerði torkennilega höfuðhreyfingu og breytti málrómnum eins og hann væri að tala í gegnum rör.
,,Sem ég er Wata af Siroki-ættbálki...."
,,Hvaða þvaður er þetta...? Sem þú ert fata úr hverju?" Níels stóð ógnandi fyrir framan hann og bankaði í brjóstið á honum með vísifingri.
,,Ég sagði það ekki. Ég sagði..."
,,Þú segir það sem við segjum þér að segja ella þegir, horbeygla. Hvað varstu annars að segja?"
Horbeygla? Kallaði hann þetta vöðvabúnt horbeyglu?
Við sem gátum séð vöðvana hnykklast.
,,Sem ég er Wata af Siroki-ættbálki Indíána og besti vinur Davy Crockett kem ég með friði."
,,Gefstu þá upp?"
Eftir nokkurt hik. ,,Jú ætli það ekki."
,,Jú ætli það ekki neitt. Gefstu upp?" kölluðum við í kór til hans.
,,Ég gefst upp," sagði Ísbjörn hálf sneypulegur.
,,Snautaðu þá inn og komdu ekki nálægt okkur aftur."
Strákurinn náði í húfuna, hristi af henni snjóinn, labbaði yfir túnið í áttina að raðhúsalengjunni. Í dyragættinni snéri hann sér við, beit saman tönnum og horfði hatursfullu augnaráði til okkar en þegar við gengum ógnandi og ákveðnir í fasi í áttina til hans hvarf hann inn og skellti á eftir sér hurðinni.
Þegar við vorum komnir vel úr sjónmáli fórum við yfir nýliðna atburði.
,,Ekkert smá hugrakkur," sagði Grímur við Níels og gætti aðdáunar í málrómnum.
,,Ég held að Ísbjörn hljóti að hafa lesið yfir sig af Davy Crockett."
Við skellihlógum að þessari athugasemd.
,,Það er ekki nóg að hafa aflið," útskýrði Níels drýgindalega, ,,maður verður líka að hafa hugrekkið í lagi."
Það var ekki laust við að hann væri upp með sér eftir snjókastið þó hann reyndi að leyna því.
Á þessum degi hafði gáfnaljósinu tekist að labba upp margar tröppur í metorðastiganum hjá mér og Grími.
Nokkru síðar tvístraðist hópurinn, Grímur ætlaði að hjálpa pabba sínum í bílskúrnum við smíðar á einhverju sem ég náði ekki hvað var, Níels vildi heim til að klára skrif, ritgerð sem hann ætlaði að lesa upp hjá KFUM og K og ég byrjaði að arka heim á leið eftir hitaveitustokknum í sigurvímu.
Þetta hafði verið frábær dagur!
Með kvöldinu ætlaði ég til Binna og reyna að fá botn í þessi fuuurrððulegu orð í ljóðinu.
Þegar ég var rétt að verða kominn heim sá ég gamla manninn, pabba hans Bjarka, burðast með fulla poka af matvöru. Annan pokann lét hann hvíla ofan á stafnum og átti í nokkru basli með að koma sér áleiðis.
Ég staðnæmdist á stokknum á móts við hann.
,,Blessaður."
,,Blessaður, sjálfur."
,,Má ég ekki hjálpa þér með þessa poka?"
,,Fallega boðið, þess gerist varla þörf."
,,Þú þarft ekkert að borga mér fyrir það."
,,Ég þóttist vita það þó ég hefði ekki orð á því. Sama og þegið, takk."
,,Er Bjarki ekki heima?"
,,Jú jú, hann þurfti að læra skinnið. Hvernig er með þig? Þú þarft auðvitað ekkert á slíku að halda?" Hann horfði rannsakandi á mig.
,,Ég? Lærði stanslaust í allan morgun."
,,Nú jæja og hvað..?"
Hann var kominn að stokknum, sestur og byrjaði að toga í skálmarnar til að koma löppunum upp á.
,,Skólaljóðin."
,,Skólaljóðin?" Hann ræskti sig.
,,Já og stiklað á þeim nokkrum, gæti ég trúað, Jónasi, Þorsteini, Matthíasi.."
Hann dengdi nöfnunum yfir mig, beið eftir viðbrögðum, horfði á mig með sérkennilegu bliki í augum.
,,Nei. Ég var að læra Þorraþræl."
,,Ó - já, var komið að honum. Hefurðu nokkuð lært eftir Örn Arnarson? Fyrirgefðu mér," bætti hann svo við sposkur, ,,þú þekkir hann sjálfsagt betur undir nafninu Magnús Stefánsson?"
,,Ég veit ekkert hver það er."
,,Það er vonlegt. Ekki komið að honum enn. Hann var sá maður, skal ég segja þér, sem kunni ljóðagerð betur en flestir menn. Annars segðu mér...." Gamli maðurinn stundi þegar hann mjakaði sér yfir stokkinn og gerði sig tilbúinn til að halda för sinni áfram, ,,er ekki allt gott af þér að frétta?"
,,Allt stórfínt."
,,Jæja, ef svo er ætla ég ekki að tefja þig lengur."
Hann horfði á eftir mér, þegar ég hentist af stað þennan spöl sem ég átti heim, tók nokkur skref með annarri, valhoppaði, hljóp útundan mér en herti síðan ferðina.
,,Skólaljóðin," hugsaði gamli maðurinn og byrjaði að feta í fótspor mín sem voru sem stimpluð í mjúka fönnina. Þegar hann sá hvað slóðin var hlykkjótt og út til hliðanna, byrjaði hann að brosa.
,,Örn Arnarson. Látum okkur sjá. Ljóðið ,,Þá var ég ungur."
Hendingin kom áreynslulaust upp í hugann.
,,Mér varð margt að tárum,
margt þó vekti kæti
og hopp á hæli og tám."
Á móts við litla hvíta húsið, miðsvegar upp botlangann, staldraði hann við, lagði frá sér pokana og þreifaði eftir útidyralyklinum í buxnavasanum.
Á meðan hélt ljóðið áfram og hann þuldi upp hvert erindið á fætur öðru...
,,Ekki jók það álit mitt né hróður.
Engum þótti kveðskapurinn góður.
Þú varst skjólið, móðir mín,
því mildin þín
vermdi þann veika gróður."
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ
,,Núll er sama og ekkert," sagði ég. ,,Það er óskiptanlegt og því sama hvort þú margfaldir eða deilir í það með t.d. 500 er útkoman ætíð núll. Sama hvaða tala er notuð, útkoman jafnt og núll. Hinu verður þú að halda sér og rugla ekki saman að tveir hestar plúss eða mínus enginn hestur halda áfram að vera tveir hestar. Nærðu þessu ekki vinurinn minn," bætti ég við í restina.
Ég ætlaði ekki að láta mig verða það á að hafa sjálfgefið hvað hann kynni og hvað ekki, því kennsla ofan á grunn sem ekki er til staðar, þjónar engum tilgangi.
,,En það er samt eitt sem ég skil ekki," sagði sonur minn og rétti sig upp frá námsbókunum.
,,Nú! hvað er það?"
,,Núll er óskiptanlegt, segirðu, fastur punkur, sama og ekkert og fyrst svo er hvernig getur maður þá átt ekkert?"
Hér varð smá þögn en svo bætti hann við ,,og hvernig í veröldinni getur maður þá átt minna en ekkert, minna en ekki neitt?"
Þessu átti ég ekki von á.
Ég leit til hans og eftir að hafa íhugað spurninguna nokkur andartök, byrjuðum við báðir að hlæja.
,,Þar mátaðir þú mig alveg. Þessi spurning er hreint frábær en veistu að þetta dæmi er meira í áttina að heimspeki en stærðfræði."
Fátæklegar útskýringar fylgdu í kjölfarið, hvað væri heimspeki og hvað ekki.
,,Komdu með dæmi um heimspeki svo ég átti mig betur á þessu. Hafðu það eitthvað um tölvur."
Hér hafði ég vakið áhuga hans en um leið sleppt honum frá námsbókunum í fáeinar mínútur.
,,Reyndu að finna dæmi, já höfum það af skotleik í fyrstu persónu, þú veist, þá er vopnið og hendurnar fremstar á skjánum og umhverfið fjær."
Það var ljóst að dæmið skyldi vera þungt og í líkingu við stærðfræðidæmin sem ég hafði nýlagt fyrir hann.
,,Jamm," sagði ég eftir nokkra umhugsun. ,,Ég held að ég sé kominn með dæmi.
Segjum að þú sért staddur í 30 metra fjarlægð frá húsi og ætlir að labba að því. Um leið og þú hreyfir þig, heyrirðu fótatak þitt og marrið í snjónum og því sannfærður um að þú sért að labba að húsinu."
,,Ekki spurning! Og hvernig getur þetta verið heimspeki?"
,,Rólegur. Þetta er ekkert merkilegt ennþá en hér myndi heimspekingur strax gera tilraun, hvort þetta væri svona eða einhvern veginn öðru vísi? Til að byrja með myndi hann ná sér í jeppa, í leiknum og stilla honum upp á sama punkti, annars vegar ganga vegalengdina að húsinu og hins vegar aka hana."
,,En til hvers?"
,,Þetta er heimspekingur, manstu og sér allt í öðru ljósi en ég og þú. Ef útkoman væri sú að engu skipti hvort hann gerði, væri málið leyst: Persónan, þú, í tölvuleiknum labbaðir ekki eitt fet heldur færðust allir hlutir í áttina til þín, þegar ýtt væri á takka á lyklaborðinu. Þú gengir ekki en þú virtist ganga. Hvað segirðu um þessa hugmynd?"
,,Nei, þetta getur ekki verið. Þetta er einum of fjarlægt."
,,Má vera en ég sé þetta fyrir mér eins og setið væri í strætó, hann færi af stað, þú hreyfðist þó þú hreyfðir þig ekki neitt."
,,Þá er þetta svipað og ég kom með um núllið áðan."
,,Já," svaraði ég ,,og til þess að kóróna spekina, hugsaðu þér að ef þú gætir gengið í norður í tölvunni á meðan skjárinn sýndi í suður og hreinlega horfið ekki bara út af sjónarsviðinu, af skjánum, heldur svo gjörsamlega að þú týndist í leiknum. Hvað þá?"
Ekki vildi ungi maðurinn trúa þessu að óreyndu en varð sammála um að svona nokkuð hlyti að teljast í það minnsta ágætis heimspeki.
En nú langar mig að snúa mér að öðru sem hefur tengingu við ofanritað.
Nokkru fyrir árslok 2002 langaði mig að skapa og nota tímann fyrir eitthvað uppbyggjandi, samdi, las og gaf út á geisladiski barna- og fjölskyldusöguna ,,Bróðurþel Lalla og Birgis."
Sagan hlaut menningarstyrk frá Reykjanesbæ.
Slíkur stuðningur skiptir sköpum og viðurkenningin, mér sem ferskur blær og vil ég færa Reykjanesbæ enn og aftur þakkir fyrir.
Sagan kom út í tæpum 600 eintökum, fór víða um land, nokkur eintök erlendis og í dag er hún uppseld.
Mér er minnistætt þegar ég spurði ungan dreng sem ég þekkti ekkert, á áttunda ári, hvernig honum hefði líkað sagan.
,,Þegar ég var að skrifa í skriftarbókina mína kom mamma inn og setti Lalla og Birgi í græjurnar. Ég skrifaði ekki nema hálfa blaðsíðu á meðan ég hlustaði
á söguna en var enga stund með tvær þegar hún var búin."
Þetta hól er einlægt og mig undraði mest að hann hafði hlustað
stanslaust á söguna í 80 mínútur.
Á öðrum stað var ung stúlka á sjöunda ári sem gerðist aðdáandi Lalla og Birgis. Hún var dálítið ærslafull og var sagan notuð til að róa hana niður fyrir svefninn. Einn daginn kom hún að máli við mig:
,,Þekkir þú Lalla og Birgi?"
,, Ég veit hverjir þeir eru," svaraði ég.
,,Heldurðu að þeir vilji nokkuð koma út að leika, ....helst Birgir?"
Eftirfarandi kafli er í beinu framhaldi af ,,Bróðurþeli Lalla og Birgis" og hefur aldrei birst opinberlega fyrr. Sá hluti kaflans sem fjallar um snjókastið, virðist hafa yfir sér einhvern ævintýraljóma og ég margoft þurft að lesa hann aftur fyrir unga grallara. Það má vera að sá hluti þyki of rosalegur fyrir yngsta aldurshópinn.
Allur réttur er áskilinn höfundi K.K.B.
Helstu atriði: Heimalærdómur og Skólaljóðin, gáfnatröllið Niels, heimspekilegar vangaveltur og hressandi snjókast.
Góða skemmtun.
>>> Er af ættbálki Indíána og besti vinur Davy Crockett <<<
Það hafði byrjað ósköp rólega um morguninn. Í gegnum franska gluggann heima horfði ég á snjókornin svífa hægt og virðulega til jarðar. Laugardagur, uppáhaldsdagurinn minn, enginn skóli, en samt ekki sloppinn. Opin stílabók og Skólaljóðin lágu á borðinu mínu.
,,Goss." Öll þrjú erindin fyrir mánudaginn.
Hvers kyns heimur var þetta orðinn. Máttu litlir strákar aldrei vera úti að leika sér? Álútur yfir Þorraþræl reyndi ég að einbeita mér, lokaði bókinni, síðan augunum og þuldi upp:
,,Mararbáran blá, brotnar þung og há.."
,,uuu, nei, ein, nei únn, nei."
Hvað kom eiginlega næst?
,,unnarsteinum á..."
Eftirvæntingin að komast út í snjóinn gagntók mig. Að læra og læra, alltaf að læra. Eins og maður kannaðist ekki við að hafa lesið bók spjaldanna á milli. Kergjan byrjaði að krauma inn í mér. Og þegar til átti að taka, þekkja varla myndirnar hvað þá innihaldið aftur. Ég togaði til blágrænu peysuna með Vaff hálsmálinu og lét rúllukragann á peysunni þar fyrir innan fara í pirrurnar á mér.
Nokkrir krakkar gerðu atlögu að ljósgrænu húsi í nágrenninu. Þeir byrjuðu að splundra heimilsfriðnum á efri hæðinni. Glerin svignuðu undan þungum snjóboltunum. Fólkið á neðri hæðinni sýndi sig í fyrstu út í gluggum og hóaði á börnin til málamynda en ákvað nokkru síðar að láta málið eiga sig.
Hik. Stopp. Galtómur.
Svona gekk þetta ekki.
Byrjaði upp á nýtt.
Í þetta sinn söng ég hástöfum með bókina opna, teygði á upphafstónunum til að hleypa lífi og krafti í lærdóminn.
,,Núúúú eeeer frost á Fróni frýs í æðum blóð
kveður kuldaljóð.."
Nú gekk þetta vonum framar.
Þegar kom að þeim hluta ljóðsins í laglínunni sem ég kunni utanbókar, skotraði ég til augunum eftir síðunni. Myndirnar voru tvær, með bláum bakgrunni, önnur af sjómönnum að fjargviðrast út af gæftaleysi en hin af bónda með heynál í höndum.
Ég fletti. Ja-há! Sjálfur Ísmaðurinn með íbjúgt nef, í klakabrynju og horfði reiður út í sortann. Hvað hafði hann gert við vopnin? Sko þessa mynd ætlaði ég að klippa út og hengja upp við hliðina á rúminu mínu.
Ég hélt áfram að fletta. Mikið voru þetta lifandi og skemmtilegar teikningar sem prýddu bókina.
Hva.., hvað? Fallega ljóðið um hann Bjössa litla sem bjó á Berginu. Nú hafði athyglin heldur betur leikið á mig. Ég var farinn að lesa allt annað ljóð.
Hávaði og gauragangur fyrir utan. Ég leit út um gluggann. Börnunum hafði leiðst atlagan á efri hæðina, enda ekkert uppskorið, fundið sér nýtt verkefni nefnilega neðri hæðina í sama húsi. Uppi varð fótur og fit, köll út um hurðir og lausafög.
,,Í burtu óþokkalýður."
,,Hvaðan kemur þessi skríll eiginlega? spurði húsmóðirin vel í holdum, klædd grænni treyju, hnepptri til hálfs.
,,Þetta gengur hér sjálfala um," svaraði eiginmaðurinn með hneykslan í málrómnum.
,,Það væri gaman að vita hvar foreldrar þessara barna eru þessa stundina."
Snjóbolti kom aðvífandi og skall á koparlitaða húsnúmerinu skáhallt upp af dyragættinni.
,,Ég skal jafna um ykkur," öskraði húsbóndinn þegar snjónum rigndi yfir hann. Æðisgenginn eltingarleikur niður í nærliggjandi götur, allt eins og strákarnir höfðu vonað.
Enn þrjóskaðist ég við. Hvað stóð þarna efst?
Þorraþrællinn 1866.
1866? Það skyldi engum undra þó erfiðlega gengi, síðan úr fornöld.
Um hádegisbilið jókst snjókoman, allt var orðið hvítt og hvergi sá á stein. Skólaljóðin viku fyrir annars konar áhuga. Ég notaði heila opnu í stílabókinni undir viðfangsefnið.
Þær komu úr austri þegar rauður bjarmi dögunar lék um hafið og alla sjónarönd. Við logafjöld, í hálfboga út við sjóndeildarhring, sendi sólin geisla sína í gegnum mystrið og flugvélarnar sveimuðu í áttina heim innan um hætturnar og glitrandi skýin. Nokkrar höfðu farið á undan í varúðarskyni til að tryggja að loftbrúin héldi. Í kringum sprengju- og flutningavélarnar með Fljúgandi Virki í broddi fylkingar, flugu Ferry Battle orustuvélarnar enda of hægfara til að standa í eldlínunni. Spitfire kom æðandi út úr skýjaþykkni og steypti sér yfir freigátu sem snéri fallbyssunum án afláts gegn þessari óvæntu árás.
Fellibylur kom sunnar og gat rennt sér hindrunarlaust yfir skipið frá hvalbak og aftur að skut. Kúlurnar spændu upp dekkið, skullu á styttum og stunnum og boruðu sig inn í stýrishúsið. Flugmenn tveggja-búka vélanna horfðu áhyggjufullir á í nokkurri fjarlægð og skimuðu eftir stóru herskipunum sem hlytu að vera í nánd.
Hvernig væri að láta tvo kafbáta bíða færis efst í horninu á blaðinu ef flugvélunum mistækist?
Eldglæringar, skothríð, ýlfur og glamur. Ég sökkti mér ofan í teikninguna.
,,Lárus minn. Heldurðu að þetta fari ekki að verða ágætt hjá þér? Og svo er kominn matur."
Móðir mín hafði lagt hendurnar ofan á borðið og ég rétt náði að loka stílabókinni.
Hvað ég var feginn.
Nú skyldi maður út í snjóinn. Hvað var til skemmtilegra en að fá kaldan gustinn til að leika um sig, finna roðann hlaupa í kinnarnar og glaðværðina umlykja hverja taug.
Húfa, vettlingar, trefill og útivera kallaði á mig.
Eftir að hafa leikið með krökkunum, fengið að renna mér á magasleða Jóhanns, fjölmenntum við á gúmmíslöngu, létum hana snúast hring eftir hring með viðeigandi öskrum niður botnlangann. Þá lá leið mín um nærliggjandi götur og endaði út í skóla.
Við Níels dröttuðumst áfram yfir fótboltavöllinn í áttina að hitaveitustokknum. Hann var gáfnaljósið í skólanum, grannur, fremur hlédrægur með gleraugu sem voru þykkari en botninn á sultukrukku.
,,Er það í ljóðinu, segirðu?"
Hann tók af sér vettlinginn af annarri hendi og stauk sér undir nefið.
,,Hvítleit hringaskorðan? Nú veit ég ekki en ég skal giska.
Klemma eða skrúfstykki," datt honum fyrst í hug.
,,Einhvers konar tæki í gullsmíði kæmi til greina, hvítleit hringaskorða," bætti hann við vongóður.
Þetta fannst mér ólíklegt. Það marraði undan skónum í léttri nýfallinni mjöllinni. Lítil þúfa við girðingu í aðliggjandi húsi, reisti sig upp, gerði trekt með höndunum og vældi eins og kjói út í buskann. Í nokkurri fjarlægð byrjaði krummi að krunka ámótlega, um hæl, að því er virtist í andarslitrunum. Njósnarar. Þetta voru njósnarar. Það var hvergi hægt að þverfóta fyrir þeim.
Á móts við leikskólann sáum við Grím sem byrjaði að labba skáhallt yfir völlinn í áttina til okkar.
,,Óheppnir," hvíslaði Níels.
,,Mig langar ekkert til að leika við hann."
,,Er hann svona leiðinlegur?"
,,Nei, kannski ekki en hann er alltaf með stæla og svo leiðis."
,,Halló strákar. Hvað er verið að gera?"
,,Lítið."
,,Er eitthvað spennandi á döfinni?"
,,Nei, ekkert ákveðið."
Við gengum saman og þögðum nokkra stund. Grímur leit á okkur til skiptis.
,,Ég þekki stelpu sem kann að spila á munnhörpu og greiðu. Vitið þið hvernig á að leika á hárbursta?"
Við litum til hans og héldum för okkar áfram.
,,Hvað er að ykkur? Þetta var bara grín. Á ég kannski að segja ykkur brandara?"
,,Þú ræður því.""
,,Ekkert frekar," bætti ég við.
,,Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína. Pálína na.. na, nei nei.
Það var einu sinni herbergi fyrir ofan krá í Villta Vestrinu. Þar gat enginn hafist við út af reimleikum. Allir sem reyndu stukku út um gluggann á herberginu á miðnætti."
,,Hvort er þetta draugasaga eða brandari?"
,,Dag nokkurn kom maður sem var búinn að labba þvert yfir Bandaríkin, í einni lotu og var alveg að deyja úr þreytu eins og þið getið rétt ímyndað ykkur. Mér er alveg sama um allan draugagang sagði hann við eigandann. Það eina sem mig vantar er rúm til að sofa í. Rétt þegar hann var að sofna á slaginu tólf fór einn veggurinn að bólgna út, sérkennilegt slím birtist, byrjaði að renna saman og myndaði ótrúlega óhugnarlegt skrímsli sem byrjaði að tala.
,,Veistu hvað ég get? Veistu hvað ég get?. Á þessu augna......"
,,Sagði ég ekki," Níels hnippti í mig. ,,Draugasaga, hrein draugasaga."
,,Á þessu augnabliki hefðu allir vanalegir menn stokkið út um gluggann en maðurinn rétt náði að lyfta upp augnlokunum fyrir þreytu. Neit það veit ég ekki.
Veistu hvað ég get, veistu hvað ég get..., endurtók skrímslið.
Blessaður hættu þessu rugli og segðu mér þá hvað þú getur. Veistu hvað ég get, veistu hvað ég get. Ég get gert svona með munninum: Babela babela bei, babela babela bei."
,,Er sagan búin?"
,,Á að hlæja núna?" bætti ég við.
,,Hvað er að ykkur. Má maður ekki segja brandara?"
,,Lárus, þarna áðan í sambandi við skólann. Hvað kemur svo?"
Níels hafði sett upp spekingssvip og leit til mín.
,,Í hverju, jaaá í því."
Ég stoppaði og leit upp í loftið.
,,Nú er frost á Fróni tra la la la ló,
tra la la la ló..."
Hvað ertu að gera?"
,,Ég þarf að syngja mig áfram í ljóðinu annars man ég það ekki.."
,,Huggar manninn trautt."
,,Um hvað eru þið að tala? Grímur kom alveg af fjölum.
,,Þorraþræl."
,,Ljóðið, díííí. Ég þurfti líka að læra það. Kennarinn tók mig upp að töflu og lét mig ryðja öllu heila klabbinu út úr mér."
,,Hvernig gekk?" spurði ég fullur áhuga því ef hann gæti lært þá gæti ég það.
,,Hún sagði að ég væri stórefnilegur, hefði búið til nýtt ljóð með því að rugla saman erindunum."
,,Hvernig fór?"
,,Hefurðu eitthvað frétt af þessu?"
,,Nei."
,,Varð trítilóð þegar ég fullyrti að það gæti ekki verið á íslensku með þessum fuurrrðulegu orðum."
,,Athyglisvert," sagði Níels. ,,Ég þarf bersýnilega að fara að opna hug minn fyrir þessu kvæði."
Við Grímur litum til hans með lotningu og reiðiblandinni tilfinningu. Það tæki ekki langan tíma fyrir þennan snilling að sporðrenna eins og einum Þorraþræl.
,,Eftir hvern er þessi fegurð?"
,,Lagið, ljóðið?"
,,Já."
,,Kristján Jónsson, ljóðið. Ég veit ekkert um lagið."
,,Allt í góðu. Hvítleit hringaskorðan huggar manninn trautt?"
,,Já."
Eftir hrukkunum á enninu að dæma var vandamálið samboðið virðingu hans.
,,Látum okkur sjá... uhm. Eitthvað... uhm." Níels var að hugsa upphátt.
,,Hvað kemur svo Lalli?"
,,Brátt er búrið autt."
,,Bíðum nú við.. getur litla huggun veitt þó illa gangi.. hva.. ha? Virkilega. Já auðvitað," sagði Níels og bankaði þrisvar í ennið á sér.
,,Að ég skyldi ekki sjá þetta strax. Kona meira að segja gift kona."
,,Hvernig færðu það út?"
,,Sú sem skorðar hvítleitan hring á hendi hlýtur að vera gift."
Þetta yrði gaumgæfilega rannsakað í skólaljóðaútskýringunum heima hjá Binna með kvöldinu. Binni var með mér í bekk, dálítið klár strákur og svo átti hann líka þykka íslenska orðabók. Það væri eftir öðru að Níelsi hefði tekist að ramba á lausnina.
,,Hvernig ferðu að þessu?"
,,Hverju?"
,,Nú að vera svona gáfaður?"
Neðri vörin fór að titra eins og alltaf þegar heimur æðri menntunar bar á góma hjá Níelsi.
,,Skammtímaminni, langtímaminni er allur galdurinn."
,,Það hlýtur að vera flóknara."
,,Bíddu, ég var ekki búinn."
,,Allt í lagi. Haltu áfram."
,,Að halda utan um allt sem maður veit, tekur ekki mikið á en að muna allt sem maður veit ekki, það er sko öllu erfiðara."
Grímur hlustaði þögull á umræðuna og ferskleikinn sem fylgdi honum framan af, fokinn út í buskann.
,,Skiljiði hvað ég á við?" spurði Níels með yfirlætistón.
,,Nei." Fattarinn hlyti að hafa bilað í mér.
,,Sjáðu orðið þarna áðan, úr ljóðinu..."
,,Hvítleit hringaskorðan?"
,,Nákvæmlega. Þarna manstu orð sem þú veist ekki hvað þýðir."
,,Já þannig. Sniðugt."
,,Annars er þetta ekki mikið. Þú hefðir orðið hissa Lalli ef þú hefðir vitað hvað ég var að hugsa um í gær."
Því gat ég ekki neitað því þá hlyti ég að vera göldróttur.
EF bíll færi á meiri hraða... ég segi á meiri hraða en ljóshraða út í himingeimnum og hefði ljósin á..."
,,Bílar komast ekki á ljóshraða." Grímur var kominn inn í umræðuna.
,,Ég sagði EF, hvað haldið þið að myndi gerast?"
,,Perurnar myndu springa," stakk ég upp á.
,,Nei nú kemur dálítið merkilegt. Ljósin sæust ekki fyrr en bíllinn væri löngu farinn hjá."
,,Hvað þá með ljósaperurnar, ekki hyrfu þær, sjálfir ljósgjafarnir? Þá hlytu ljósin að hverfa líka," fullyrti Grímur sem kominn var á fleygiferð inn í rökræðuna.
,,Jú, perurnar hyrfu líka. Þetta er spurning um tíðni."
,,Ljós er ekki bara tíðni heldur líka orka, ljósorka."
Grímur spyrnti við fótum en Níelsi jókst áræðin. Þetta gat ekki farið nema á einn veg.
,,Við verðum að ná réttri sjónarhæð og beita síðan stærðfræðilegu raunsæi til að fá hin réttu hlutföll á hvern þátt fyrir sig."
,,Þú meinar að það væri á ferðinni enginn bíll og engar ljósaperur en samt sæust bílljós á fleygiferð út í himingeimnum?"
,,Einmitt. Þetta er alþekkt með stjörnurnar."
Við fundum hvernig Níels muldi okkur undir sig. Það var annað hvort að hrökkva eða stökkva. Grímur tók af skarið.
,,Ég þekki mörg svona skrýtin dæmi. Í Mogganum í gær sagði að elsti maður á Íslandi væri látinn. Þá sagði pabbi að þetta væri vitleysa. Elsti maður á Íslandi hefði dáið í hitteðfyrra."
,,Góður punktur hjá þér. Vissulega rétt þó það sé rangt. Heimspeki í hæsta gæðaflokki. Elsti maður á Íslandi getur ekki dáið þó hann sé alltaf að deyja."
,,Ég veit. Hann er eilífur."
,,Það væri gaman að sjá bíl á ljóshraða í kappakstri á Grand Prix í Frakklandi."
Ég beindi máli mínu til Gríms.
,,Fyrst kæmi bíllinn ljóslaus, vaaaaáá."
Ég gerði höfuðhreyfingu frá vinstri yfir til hægri.
,,Þá ljósin bíllaus og að lokum hljóðið allslaust mörgum dögum seinna." Ég barðist við hláturinn.
,,Eins er með hljóðið." Níels var ekki hættur.
,,EF þú hlypir í burtu...."
,,Kemur þetta EF einu sinni enn," náði Grímur að koma að í umræðunni.
,,Já á sama hraða og hljóðið bærist til þín. Hvenær heldurðu að þú myndir heyra kallið?"
,,Ég? Ertu að tala við mig? Ég væri ekki kominn nema þrjár götur þegar ég springi af mæði og hljóðið næði mér."
,,Það þýðir ekkert Níels að vera að setja upp heilu dæmin á EF..."
,,Jú öðruvísi er ekki....."
,,Nei þú verður að byggja mál þitt á einhverju áþreifanlegu."
Þeir voru farnir að rífast. Ég gat samt ekki annað en dáðst af tilburðum Gríms til að halda jöfnu en vildi fá þá til að hætta umræðunni og tala um eitthvað skemmtilegra.
,,Ég held að þetta sé rétt hjá Níelsi, ég meina þegar á allt er litið."
Mér til undrunar brást hann hinn versti við.
,,Ég þarf ekki á liðsinni annarra að halda í rökhugsun og síst af öllu frá þér. Kærar þakkir samt. Færir til staðreyndir, hrærir í umræðunni, forsendur og afleiður veltar hver um aðra þangað til allt stendur á haus og enginn veit hvar við erum staddir hvað þá meir. Um stjörnurnar langar mig til að segja....."
Hann var svo niðursokkinn í rökstuðninginn að hann var farinn að staldra við, stoppa okkur á göngunni með alls kyns handapati og puttabendingum til áhersluauka.
Við vorum rétt komnir að hitaveitustokknum þegar snjóboltarnir buldu á okkur. Með snarræði tókst mér að verjast hættulegustu boltunum en Níels uggði ekki að sér, enda í allt öðrum heimi, skotinn gjörsamlega í kaf áður en honum hugkvæmdist að leita skjóls á bak við stokkinn.
,,Það mætti halda að við værum að komast í snjókast."
,,Þá ætlar að lifna heldur betur yfir þessum degi."
Við renndum úlpunum upp í háls og drógum húfurnar langt niður fyrir eyru og litum yfir stokkinn. Við endann á raðhúsalengjunni var skafl, varnargarður úr snjó á miðri lóðinni. Þrír drengir komu í ljós á bak við garðinn. Tveir af þeim fjarskalega svipaðir, klæddir sams konar fötum og gott ef ekki var, voru þeir tvíburar. Sá þriðji var á svipuðu reki og við.
,,Þetta verður leikur einn," sagði Grímur og vildi þegar í stað gera áhlaup.
,,Við skulum hnoða nokkra bolta og ryðjast á þá."
Við litum aftur yfir stokkinn. Þeim var að berast liðsauki.
Dyrnar á íbúðinni næst garðinum voru opnaðar, stór og sterklegur strákur kom í ljós. Hann var í svartri fóðraðri flugmannsúlpu með þykka rúskinnshúfu með stuttu deri, eyrnaskjólið óhnýtt undir hökunni.
,,Við ráðum alveg við þessa þrjá en sjáðu þann stóra..."
,,Mér líst ekkert á þetta Grímur," sagði ég og reyndi að draga úr óþarfa bjartsýni.
,,Hann er miklu eldri en við. Gæti einn ráðið við okkur þrjá með glans. Ættum við ekki bara að forða okkur. Það er enginn vandi að skríða hér upp með stokknum." Hræðsluhljómur hafði gert vart við sig í rödd minni.
,,Heldur þú að við séum einhverjar gungur?" Grímur horfði til mín með ákveðni í augnaráðinu, ,,nei við berjumst."
Ég sá áhyggjusvip á Níelsi og sjálfur fann ég fyrir kvíðaverkjum í maganum. Var Grímur alveg að tapa sér? Fara á móti þeim stóra og svo hinum í viðbót?
Nei, þetta leist mér ekki á.
Snjóboltarnir skullu á stokknum og sáldruðu snjónum yfir okkur. Blautir vettlingar, snjór inn á milli laga og niður í hálsmálinu sem byrjaði að bráðna og ískalt vatnið að renna niður eftir hryggnum. Okkur sveið í eyru, nef og fingurgóma.
,,Við látum ekki merðina komast upp með þetta," sagði Níels allt í einu og virtist hafa gert upp við sig að láta vaða hvernig sem færi. Þetta var ólíkt honum. Þó Níels væri gáfnatröll var hann eftir því huglaus og því hlyti rifrildið við Grím um ljóslausa bílinn að hafa átt sinn þátt í þessari ákvörðun.
Eftir að hafa raðað nokkrum snjóboltum á stokkinn, beið hann þangað til atgangurinn rénaði, spratt á fætur og dældi boltunum í áttina að strákunum. Þeir voru viðbúnir atlögunni og skutu allt hvað af tók á móti.
Grímur skreið alveg til mín.
,,Er hann eitthvað öðruvísi?"
,,Nei, bara greindari en aðrir strákar."
,,Er hann vanur að lenda í svona löguðu?"
,,Blessaður vertu, kann ekkert fyrir sér í snjókasti."
,,En kann þó dálítið... í návígi, að slást, kann brögð og svo leiðis?"
,,Nei, nei, nei, þess síður. Tek hann eins og ekkert. Ég held að hann hafi aldrei slegist í alvöru og jafnvel ekki einu sinni í plati."
,,Nú líst mér á. Við erum þá ekki nema tveir og hálfur á móti fjórum."
,,Grímur minn." Ég varð eins mjúkur í málrómnum og ég gat og líkti eftir mömmu þegar hún var að biðja mig um að læra eitthvað sem ég nennti ekki fyrir skólann.
,,Heyrðu, ættum við ekki að hypja okkur á meðan tími er til?"
,,Kemur ekki til mála. Við berjumst."
Níels var ekki hættur í snjókastinu.
,,Þið þarna tveir. Já tvíhöfða álappalegu..."
,,Veimiltíta og væluskjóða," örguðu tvíburarnir á móti.
,,Hvaða rengla er þetta?"
Hver?"
,,Prímatinn, þessi handleggjasíði hjá ykkur, nýkominn úr trjánum. Bananamaðurinn?"
,,Hvað með hann?"
,,Heitir hann Karl. Viltu snjó - Karl?"
Níels þeytti bolta sem lenti ofan á snjóbingnum á milli tvíburanna.
,,Segiði honum að hann sé algjör hálmsveppur."
,,Segðu honum það sjálfur. Hann er hérna við hliðina á okkur."
,,Hvað voru þið að segja. Heitir hann Björn?"
,,Ertu að reyna að vera sniðugur?"
,,Nei. Má ég þá bjóða þér ís - Björn?"
Glósurnar gengu á milli og ef eitthvað var hafði Níels betur.
,,Spyrjið þið hann hvort hann borði oft ætiþistil. Mér finnst hann svo grænn í framan."
Ísbirni líkaði ekki samtalið, gat engan veginn unað því að vera uppnefndur því sem hann skildi ekki.
,,Sá er ekki huglaus. Lætur þá heyra það og gerir ekki tilraun til að skýla sér, " hvíslaði Grímur að mér.
Níels hafði ekki kastað lengi þegar hann fékk bolta beint í andlitið svo honum sundlaði nokkra stund, hrækti og skyrpti snjónum út úr sér, sparkaði og sló í kringum sig.
,,Þið skuluð fá á baukinn, hökulausu hundspottin ykkar," kallaði hann og steytti hnefann á móti snjóboltadrífunni.
,,Þarf ég að sigra þá einn, er það meiningin?" Níels horfði heiftarlega til okkar.
,,Rugguhestur og leiðindaskjóða," skríktu tvíburarnir í kór af kátínu og bentu á hann með alls kyns skrípalátum.
,,Ertu kannski líka pelabarn. Maammaa, ma ma ma mamma."
Þeir settu totu á munninn, upp í sig þumalinn og líktu eftir smábarni að sjúga snuð.
,,Nei ég er ekkert pelabarn, en ég á frænda sem er pelabarn og þið skuluð ekki voga ykkur að tala illa um hann."
Það var ekki besta veganestið að hafa bókaorm sér við hlið í stórræðum en ótrúlegt hvað úr rættist.
,,Hægðu á þér. Við þurftum að gera áætlun."
Grímur reyndi að fá Níels niður til sín í skjól.
,,Hægja á mér. Kemur ekki til mála."
Í óðagotinu við að ná sér í bolta duttu gleraugun af honum.
,,Ærulausu pörupiltar og skröltandi lúðulakar. Gætuð ekki hitt belju þó þið hélduð í halann á henni." Hann kastaði af öllu afli þó hann sæi ekki glóru.
Boltinn fór í fallegan sveig í loftinu, en... Jeremías .... Jeremías.... Ég lokaði augunum eitt augnablik og stundi þungt.
Núna voru vandræði í uppsiglingu.
Núna voru engin smá vandræði í uppsiglingu.
Snjóboltinn lækkaði flugið og small á þeim stóra sem féll við og húfan skaust af honum. Þar fékk hann það heldur betur óþvegið.
Hvílík hittni og það án gleraugna!
Ég sá Ísbjörn standa upp, öskuillan, þenja brjóstkassann og maka snjó framan í sig á meðan sársaukahrinan gekk yfir.
Bíddu nú við. Hvað var að gerast?
Já, já átti að fara að nota svona lúalega óknytti og bolabrögð?
Við sáum Ísbjörn hnoða bolta allt hvað af tók og bleyta síðan í honum með munnvatni. Þetta var bannað, algjörlega bannað og þar að auki stórhættulegt.
Það small í gljáfægðum, grjóthörðum, boltanum þegar strákurinn hélt áfram að velta honum á milli handanna.
Hér yrði að gæta ýtrustu varúðar því ef maður fengi slíkan bolta á viðkvæman stað væri úti um frekari snjókast á þessari vertíð.
,,Hérna eru gleraugun. Komdu í skjól. Við þurfum að gera áætlun."
Um leið og ég stóð upp til að toga Níels niður til mín sá ég útundan mér hættuna koma.
Sá stóri tók tilhlaup og kastaði eins fast og hann gat.
Ég heyrði hvininn í boltanum og rétt náði að víkja mér undan á síðustu stundu með því að snúa til höfðinu þegar boltinn smaug fram hjá eyranu.
,,Ætlarðu að koma." Ég þreif í axlirnar á Níelsi og keyrði hann niður úr skotmáli.
,,Hvaða læti eru þetta í þér Lalli?"
,,Við þurfum að gera áætlun. Ertu heyrnarlaus eða hvað?"
,,Jæja strákar, svona förum við að þessu."
Grímur hafði teiknað með tréspýtu í snjóinn.
,,Þetta er raðhúsalengjan og þetta er hitaveitustokkurinn. Við byrjum á þessu svona."
Hann útskýrði áætlunina í smáatriðum og við gátum ekki annað en dáðst að herkænskunni.
,,Þið haldið þeim við efnið á meðan strákar," sagði Grímur um leið og hann strokaði út öll verksummerki hernaðaraðgerðanna.
Við sáum hann skríða hljóðlega í burtu upp með stokknum. Þá þurfti að gera sig tilbúinn og við fylltum alla vasa af snjóboltum. Ef við þekktum Grím rétt, þyrfti ekki lengi að bíða eftir merkinu.
,,Þeir eru boltalausir núna. Hvar er Grímur?"
Lágvært korrhljóð frá dúfu sem fór síðan að ræskja sig, barst til okkar. Var þetta merkið, stríðsópið? Það gat ekki verið, ábyggilega einhver njósnarinn að þvælast fyrir.
,,Við verðum að gera áhlaup á meðan þeir eru boltalausir," hvíslaði Níels. ,,Það er ekki eftir neinu að bíða."
,,Hvað með Grím?"
,,Grím? Þú mátt trúa hverju sem þú vilt en ég held að hann hafi hlaupið heim til sín, skræfan."
Við drógum djúpt andann, reyndum að styrkja hvorn annan með uppörvandi hreystitilburðum, bjuggum til spyrnu fyrir lappirnar með því að stappa niður snjóinn, færðum þungann frá hælnum fram á tábergið og tærnar líkt og spretthlauparar gera.
,,Einn, tveir, og..... Árás," kölluðum við og ruddumst yfir stokkinn.
,,Látum þá finna fyrir því."
,,Látum þá finna fyrir því hvar Davíð keypti ölið," bætti Níels við og orgaði út í loftið með bolta í báðum höndum.
,,Hrínandi Lufsa og Laki." Hann átti við tvíburana.
,,Hér kemur snjóboltaklaki."
Við skutum á allt kvikt í kringum okkur. Hávaðinn gerði þá smeyka, þeir hopuðu, bökkuðu nokkur skref. Um svipað leyti heyrðist skaðræðis ,,Árásarhróp" að húsabaki. Grímur var kominn á vettvang.
Ég stökk yfir girðinguna og á annan tvíburann, sveiflaði honum niður með mjaðmahnykk og hélt í heljargreipum, gikkföstum ofan í snjónum.
,,Þú ættir skilið að vera kaffærður." Ég gerði mig líklegan til athafna.
,,Ég gefst upp."
,,Það er ekki furða þó maður heyri ekki baun með allan þennan snjó eftir ykkur í eyrunum."
,,Ég gefst upp, ég gefst upp."
,,Ég setti fótinn ofan á aðra höndina á honum og fór að moka úr eyrunum með löngutöng.
,,Hvað segirðu?"
,,Ég gefst upp, ég gefst upp, ég gefst upp."
,,Það var mikið að maður heyrði í þér."
Ég sleppti honum lausum. Bróðir hans var fljótur að átta sig á stöðunni, stökk í burtu, stóð við opna hurðina á neðstu íbúðinni þaðan sem Ísbjörn kom.
,,Reyndu að ná mér væskill," kallaði hann hálfur á milli stafs og hurðar og reyndi að sýnast hugrakkur á undanhaldinu. Það var auðheyrt að hann bjó ekki yfir jafn kjarnyrtum orðaforða og Níels.
,,Vertu ekki að hanga þarna í gættinni eins og sauður. Hlauptu alla leið til mömmu, ma ma ma mamma."
Ég lét eins og þeir höfðu látið rétt áður.
,,Þú ert ekkert nema útþaninn monthani og .. hérna ... belgmikið prumphænsn."
,,Er það?" Ég tók snöggt viðbragð fáein skref. Hann endasentist inn og skellti hurðinni.
Sá stóri tvísteig við girðinguna og var innikróaður.
,,Þú kemst aldrei fram hjá okkur," sögðum við ógnandi sitt hvoru megin við hann og nálguðumst með snjóbolta á lofti, skref fyrir skref.
,,Á hvað ertu að glápa? Ertu eldgömul sápa, þverhaus?"
Grímur gekk alveg til hans, reygði sig upp, stóð á tánum fyrir framan hann til að sýnast stærri.
,,Hélstu að ég væri búinn að gleyma þér, uglufés?" Ísbjörn steinþagði.
,,Ég er ekkert hræddur við þig, gefstu upp?"
,,Þið eruð fleiri."
,,Já og þú ert einn," skaut ég inn í.
Ljósblá augu stráksins flögruðu á milli okkar. Hann var að meta stöðuna. Allt í einu rauk Grímur á hann, greip í úlpuna, læddi táberginu á vinstra fæti aftur fyrir hælinn, ýtti snöggt og ætlaði að hrinda honum en hann haggaðist ekki. Ég leit til Gríms. Hann hristi hausinn í uppgjöf og bakkaði nokkur skref. Ætluðum við að glopra þessu niður, tapa leiknum á síðasta víginu?
Níels hafði líka fylgst með atburðarásinni. Hans tími var kominn.
,,Ég skal lúskra á þér einn ef það er það sem þú vilt," hvæsti Níels, lét snjóboltana detta niður á jörðina, byrjaði að klæða sig úr úlpunni.
,,Og þú skalt sko fá að falla eins og spilaborg. Strákar, Lalli, Grímur! Færið ykkur eina spönn. Ég ætla að taka hann í gegn og kaffæra síðan svo um munar."
Eftir nokkra umhugsun lyfti óvinurinn upp hægri hendi, gerði torkennilega höfuðhreyfingu og breytti málrómnum eins og hann væri að tala í gegnum rör.
,,Sem ég er Wata af Siroki-ættbálki...."
,,Hvaða þvaður er þetta...? Sem þú ert fata úr hverju?" Níels stóð ógnandi fyrir framan hann og bankaði í brjóstið á honum með vísifingri.
,,Ég sagði það ekki. Ég sagði..."
,,Þú segir það sem við segjum þér að segja ella þegir, horbeygla. Hvað varstu annars að segja?"
Horbeygla? Kallaði hann þetta vöðvabúnt horbeyglu?
Við sem gátum séð vöðvana hnykklast.
,,Sem ég er Wata af Siroki-ættbálki Indíána og besti vinur Davy Crockett kem ég með friði."
,,Gefstu þá upp?"
Eftir nokkurt hik. ,,Jú ætli það ekki."
,,Jú ætli það ekki neitt. Gefstu upp?" kölluðum við í kór til hans.
,,Ég gefst upp," sagði Ísbjörn hálf sneypulegur.
,,Snautaðu þá inn og komdu ekki nálægt okkur aftur."
Strákurinn náði í húfuna, hristi af henni snjóinn, labbaði yfir túnið í áttina að raðhúsalengjunni. Í dyragættinni snéri hann sér við, beit saman tönnum og horfði hatursfullu augnaráði til okkar en þegar við gengum ógnandi og ákveðnir í fasi í áttina til hans hvarf hann inn og skellti á eftir sér hurðinni.
Þegar við vorum komnir vel úr sjónmáli fórum við yfir nýliðna atburði.
,,Ekkert smá hugrakkur," sagði Grímur við Níels og gætti aðdáunar í málrómnum.
,,Ég held að Ísbjörn hljóti að hafa lesið yfir sig af Davy Crockett."
Við skellihlógum að þessari athugasemd.
,,Það er ekki nóg að hafa aflið," útskýrði Níels drýgindalega, ,,maður verður líka að hafa hugrekkið í lagi."
Það var ekki laust við að hann væri upp með sér eftir snjókastið þó hann reyndi að leyna því.
Á þessum degi hafði gáfnaljósinu tekist að labba upp margar tröppur í metorðastiganum hjá mér og Grími.
Nokkru síðar tvístraðist hópurinn, Grímur ætlaði að hjálpa pabba sínum í bílskúrnum við smíðar á einhverju sem ég náði ekki hvað var, Níels vildi heim til að klára skrif, ritgerð sem hann ætlaði að lesa upp hjá KFUM og K og ég byrjaði að arka heim á leið eftir hitaveitustokknum í sigurvímu.
Þetta hafði verið frábær dagur!
Með kvöldinu ætlaði ég til Binna og reyna að fá botn í þessi fuuurrððulegu orð í ljóðinu.
Þegar ég var rétt að verða kominn heim sá ég gamla manninn, pabba hans Bjarka, burðast með fulla poka af matvöru. Annan pokann lét hann hvíla ofan á stafnum og átti í nokkru basli með að koma sér áleiðis.
Ég staðnæmdist á stokknum á móts við hann.
,,Blessaður."
,,Blessaður, sjálfur."
,,Má ég ekki hjálpa þér með þessa poka?"
,,Fallega boðið, þess gerist varla þörf."
,,Þú þarft ekkert að borga mér fyrir það."
,,Ég þóttist vita það þó ég hefði ekki orð á því. Sama og þegið, takk."
,,Er Bjarki ekki heima?"
,,Jú jú, hann þurfti að læra skinnið. Hvernig er með þig? Þú þarft auðvitað ekkert á slíku að halda?" Hann horfði rannsakandi á mig.
,,Ég? Lærði stanslaust í allan morgun."
,,Nú jæja og hvað..?"
Hann var kominn að stokknum, sestur og byrjaði að toga í skálmarnar til að koma löppunum upp á.
,,Skólaljóðin."
,,Skólaljóðin?" Hann ræskti sig.
,,Já og stiklað á þeim nokkrum, gæti ég trúað, Jónasi, Þorsteini, Matthíasi.."
Hann dengdi nöfnunum yfir mig, beið eftir viðbrögðum, horfði á mig með sérkennilegu bliki í augum.
,,Nei. Ég var að læra Þorraþræl."
,,Ó - já, var komið að honum. Hefurðu nokkuð lært eftir Örn Arnarson? Fyrirgefðu mér," bætti hann svo við sposkur, ,,þú þekkir hann sjálfsagt betur undir nafninu Magnús Stefánsson?"
,,Ég veit ekkert hver það er."
,,Það er vonlegt. Ekki komið að honum enn. Hann var sá maður, skal ég segja þér, sem kunni ljóðagerð betur en flestir menn. Annars segðu mér...." Gamli maðurinn stundi þegar hann mjakaði sér yfir stokkinn og gerði sig tilbúinn til að halda för sinni áfram, ,,er ekki allt gott af þér að frétta?"
,,Allt stórfínt."
,,Jæja, ef svo er ætla ég ekki að tefja þig lengur."
Hann horfði á eftir mér, þegar ég hentist af stað þennan spöl sem ég átti heim, tók nokkur skref með annarri, valhoppaði, hljóp útundan mér en herti síðan ferðina.
,,Skólaljóðin," hugsaði gamli maðurinn og byrjaði að feta í fótspor mín sem voru sem stimpluð í mjúka fönnina. Þegar hann sá hvað slóðin var hlykkjótt og út til hliðanna, byrjaði hann að brosa.
,,Örn Arnarson. Látum okkur sjá. Ljóðið ,,Þá var ég ungur."
Hendingin kom áreynslulaust upp í hugann.
,,Mér varð margt að tárum,
margt þó vekti kæti
og hopp á hæli og tám."
Á móts við litla hvíta húsið, miðsvegar upp botlangann, staldraði hann við, lagði frá sér pokana og þreifaði eftir útidyralyklinum í buxnavasanum.
Á meðan hélt ljóðið áfram og hann þuldi upp hvert erindið á fætur öðru...
,,Ekki jók það álit mitt né hróður.
Engum þótti kveðskapurinn góður.
Þú varst skjólið, móðir mín,
því mildin þín
vermdi þann veika gróður."
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ