Breytum rétt!
– Jasmina Crnac skrifar
Undanfarna daga hafa margir framboðslistar tjáð sig um bæjarmálin og komið því á framfæri sem þeim liggur á hjarta. Það er greinilegt að margir vilja breytingar. Hér í Reykjanesbæ bjóða 6 listar sig fram og hafa aldrei verið eins margir. Það sýnir að það er löngu orðið tímabært að fá breyttar áheyrslur í bæjarmálin. Gríðarlega mikið af duglegu fólki er tilbúið að leggja á sig þessa miklu vinnu fyrir bæjarbúa, að mínu mati eru þetta rosalega flott framboð.
Það er svo margt sem mig langar að koma á framfæri. Ástæðan fyrir því af hverju ég fór út í þetta framboð var einfaldlega sú að ég vil hafa áhrif til að gera bæjafélagið okkar enn betra. Jákvæðni, heiðarleiki og gegnsæi eru gildi sem ég sé fyrir mér að getað boðið þessu bæjarfélagi upp á. Við þurfum hér ferskleika og breytingar þar að auki vil ég að bærinn okkar fái jákvæða umfjöllun. Ég vil styðja við fjölskyldur, skapa öruggt umhverfi fyrir börnin okkar til að geta dafnað vel bæði í leikskóla, grunnskóla, íþróttum og tómstundum.
Það er bagalegt að vita að það séu svöng börn í bæjarfélaginu okkar. Ég vil bæta úr því.. Ég vil styðja við forvarnarstarfið fyrir unglingana okkar. Börnin okkar eru framtíðin, þau taka við af okkur ekki satt? Þá er mikilvægt að þau fái allt það það besta sem við höfum upp á að bjóða. Að þau finni fyrir öryggi og fá öll jöfn tækifæri til að stækka og þroskast. Að sama skapi vil ég að við hugsum vel um eldri borgarana okkar. Þeir hafa skilað gríðarlega miklu til samfélagsins með sinu ævistarfi.
En við þurfum auðvitað líka að hugsa um fjármálin á þessari leið. Við þurfum greinilega mikið aðhald í okkar fjármálum til þess að við getum gert allt þetta, þurfum að nýta hverja krónu skynsamlega. Við þurfum að geta forgangsraðað hlutunum í rétta röð. Ég styð því að við ráðum faglegan bæjarstjóra til að endurskipuleggja okkar fjármál. Við þurfum að skapa vinnu fyrir fjölskyldur, fjölbreytt störf með góðum launum. Þetta eru lykilatriði að mínu mati í okkar bæjafélagi í dag. Það eru okkar peningar sem fara í að reka þetta bæjafélag og ég vil sjá til þess að þeir verði notaðir rétt. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Mikið er um gagnrýni á hvað núverandi bæjarstjórn hefði getað gert betur. En málið er að valdatíð hennar er nú lokið og við getum ekkert gert til þess að breyta því sem liðið er. Við verðum að beina augum okkar að framtíðinni í næstkomandi kosningum. Reykjanesbær lítur vel út eftir lagfæringarnar sem hafa verið gerðar á ásýnd hans undafarin ár. Það er gott og blessað en núna verðum við að hlúa að þeim hlutum sem skipta meira máli. Hlúa að fólkinu sjálfu. Við þurfum að fókusa á að gera rétt í þetta skipti. Reynum að breyta því í þessum kosningum sem við erum ekki sátt við. Hvet alla að nýta sér kosningarréttinn því hann er ekki sjálfgefinn. Það eru forréttindi að fá að kjósa. Ef þið viljið breytingar kæru bæjarbúar þá er það í ykkar höndum að kjósa breytingar. Íbúar Reykjanesbæjar hafa tækifæri til þess í kosningum 31. maí.
Jasmina Crnac
Í framboði fyrir Frjálst afl