Breytum blokkinni og leigjum skrifstofuaðstöðu af Nesvöllum
Nú er liðið eitt ár síðan ríkistjórnin tilkynnti um byggingu hjúkrunarheimila víða um landið. Það var gert til að sinna brýnni þörf og var jafnframt hugsað sem úrræði í atvinnumálum. Við heyrum þessa dagana í fréttum um metnaðarfulla uppbyggingu slíkra heimila þar sem horft er til framtíðar. Um slíka uppbyggingu heyrum við í Garðabæ, á Akureyri og víðar þar sem allt er komið í gang.
Við heyrum hins vegar ekkert um slíka uppbyggingu hér í Reykjanesbæ. Þeir sem vilja fylgjast með framvindu málsins neyðast til þess að kafa í fundargerðir bæjarráðs, og vonast til að þau gögn sem þar eru lögð fyrir detti óvænt í hendur þeirra. Málinu virðist vera haldið undir borðinu í von um að ekkert fréttist.
Eftir lestur greinargerðar bæjarstjórans og samningsdraga hans við Nesvelli sem dagsett er þann 8.febrúar síðastliðinn, setur mann hljóðan og skilur vel afstöðu þriggja af fimm bæjarráðsmanna sem vilja hvergi nærri málinu koma. Samningsdrög þessi minna óneitanlega á önnur samningsdrög sem meirihlutinn hafði gert áður. Við Geysir Green Energy. Þar réðu aðrir hagsmunir en bæjarins. Þetta er enn eitt klasaverkefni meirihlutans, þar sem hætt er við að tréð falli, við það að eitt ber detti af greininni.
Byggjum hjúkrunarheimili, en leigjum skrifstofuaðstöðuna
Meginniðurstaða samningsdraganna er að Reykjanesbær lýsis sig reiðubúinn að greiða Nesvöllum allt að 730 m.kr. auk 30 m.kr. fyrir lóð og 20 m.kr. fyrir forkaupsrétt að fleiri íbúðum í húsinu. Samkvæmt þessu er bærinn tilbúinn til að leggja út 780 milljónir króna til hjúkrunarheimilis,auk leigu til Nesvalla fyrir skrifstofuaðstöðu. Skv samningsdrögunum er kaupverð íbúðanna 450 m.kr sem greiðist við undirritun samnings og framvindugreiðslur vegna breytinga 280 m.kr.
Á sama tíma liggur fyrir tilboð frá verktökum hér í bænum um byggingu 2100 fm hjúkrunarheimils sem kosta mun 695 m.kr. með bílastæðum og frágenginni lóð. Lóðina á bærinn skv opinberum gögnum. Það hljómar því galið í mínum eyrum að ætla nú að semja við Nesvelli og ljóst er að hvorki er verið að gæta hagsmuna bæjarins eða nýta það fé sem til ráðstöfunar er til þeirrar atvinnuuppbyggingar sem unnt væri.
Það væri nánast að æra óstöðugan að ætla sér hér í stuttri grein að draga fram allan þann málatilbúnað sem viðhafður hefur verið til þess að komast hjá því að fleiri aðilar en Nesvellir kæmu til greina við byggingu hjúkrunarheimilisns. Þó er ástæða til þess að tæpa á nokkrum þeim rökum og skýringum sem sett eru fram í samningsdrögunum. Greinin verður því í lengra lagi.
Samningsdrögin:
Óhætt er að segja að eftir eins árs vinnu séu markmiðin og metnaðurinn rýr. Samningsdrögin byrja á hvað Reykjanesbær vill. Kíkjum á nokkra líð þess hluta:
1. Reykjanesbær vill „ná markmiði um lægri fjárfestingarkostnað við nýjar 30 hjúkrunaríbúðir og leggja út að hámarki 730m.kr. vegna umræddra íbúða“.
Fyrir liggur tilboð frá verktökum hér í bænum sem bjóðast til að byggja nýtt hjúkrunarheimili hannað að þeim kröfum sem gerðar eru. Það tilboð hljómar upp á 695 milljónir. Hvort er meira 695 m.kr. eða 730 m.kr? Hvort er meira atvinnuskapandi að nýta 695.m.kr til atvinnuppbyggingar eða 280m.kr til breytinga á eldra húsnæði. Hvort myndi skapa meiri útsvarstekjur í tóman kassann?
2. Reykjanesbær vill „að heilbrigðisstarfsmenn fái störf við hjúkrunarheimilið“.
Það liggur í augum uppi að hvort sem farið er í breytingar eða smíði nýs hjúkrunarheimilis munu það verða heilbrigðisstarfsmenn sem fái vinnu við það. En er atvinnuleysið mest meðal þeirrra? Ekki verður séð af auglýsingum að svo sé, og ég hef reyndar aflað mér upplýsinga að þau dvalarheimili og sjúkrastofnanir sem hér starfa eigi nú þegar fullt í fangi með að manna þær stöður sem fyrir hendi eru. Er ekki atvinnuleysið mest á meðal byggingarmanna?
3. Reykjanesbær vill „ með því tryggja að öll endurbótavinna sé unnin af heimafyrirtækjum“
Eru Nesvellir betri en heimafyrirtækin til að tryggja þá vinnu ? Er ekki atvinnuleysið einmitt mest hjá heimafyrirtækjunum? Hversvegna má ekki leita tilboða hjá fleirum en Nesvöllum þegar um svo stórt verk er að ræða? Er ekki þarna verið að afhenda Nesvöllum verksamninga til framtíðar án þess að aðrir fái þar að komast að?
4. Reykjanesbær telur „að enn sé í fullu gildi samningur um að Nesvellir leggi til aðstöðu fyrir hjúkrunarheimili ...“
Er ekki þvert á á móti hægt að segja sem svo að hér sé um samnningsbrot að ræða og Nesvellir ætli sér nú að gera eitthvað allt annað en um var samið árið 2005? Voru þeir ekki látnir fá ákveðna lóð til að byggja þar hjúkrunarheimili? Við það geta þeir ekki staðið og er þá ekki réttlátt og eðlilegt að bærinn taki hana til sín á ný án nokkura krafna af hendi Nesvalla?
Með þessum hætti má að gripa niður í ótal áhersluliði í samningsdrögunum og skýrslur þess ráðgjafa sem fenginn var til aðstoðar. Þar virðist fátt standast gagnrýna skoðun. Er ekki komin tími til að bæjaryfirvöld fari nú að kynna sína hlið fyrir bæjarbúum, svo öllum grun um óeðlilega stjórnsýslu verði eytt?
Viljum við áframhaldandi atvinnuleysi?
Við eigum nú þegar að herðir, að leitast við að ná samstöðu um þau mál sem unnt er að leysa samfélaginu okkar til farsældar. Af lestri samningsdragana og skýrslna ráðgjafans er ljóst að frekar hefur verið leitast við að tryggja ákveðna niðurstöðu í stað þess að skoða þá kosti sem í boði eru. Við verðum að horfa til framtíðar, um leið og við hugum að því á hvern hátt við getum nýtt það fé sem til ráðstöfunar til að leysa þau vandamál sem við blasa. Atvinnuleysið er mikið böl sem nú hvílir yfir bænum okkar. Það er á okkar valdi að svara því hvort við viljum viðhalda atvinnuleysinu eða nýta það fé sem til ráðstöfunar er til atvinnuppbyggingar. Það er ákvörðun bæjarráðs og bæjarstjórnar hvernig því fé verður varið.
Með bestu kveðju Hannes Friðriksson