Breytt yfir vandann
Í ágústbyrjun komu leikmenn mínir að máli við mig og tjáðu mér að hliðarkörfurnar í íþróttahúsinu okkar væru orðnar allt of lágar. Hliðarkörfurnar eru 4 talsins og það vildi svo vel til að ég var með málmband meðferðis. Friðrik Ragnarsson, körfboltaþjálfari í Njarðvík fjallar meira um körfu-vandamál í Íþróttahúsi Njarðvíkur, Ljónagryfjunni. Málið var m.a. til umfjöllunar á bæjarstjórnarfundi í vikunni.Við máltöku reyndust 2 hliðarkörfurnar vera 3.0 m á hæð en hinar tvær 2.97 m á hæð. Aðalkörfur hússins eru tværog reyndust þær vera hárréttar 3.05 á hæð, en á þær fengjum við ekki að spila ef þær væru ekki réttar. Ég tjáði forstöðumanni hússins þetta , ásamt starfsmönnum hans og ég sagði honum að þetta þyrfti ég að fá lagað. Ég er að þjálfa 15 manna hóp vaskra drengja og það er vitað mál að það þarf 6 réttar körfur til að geta æft við þolanlegar aðstæður. Í desember var mig farið að lengja eftir að eitthvað yrði gert í málunum enda tæpir 5 mánuðir liðnir af tímabilinu. Eftir fyrirspurn til starfsmanna hússins, tjáðu þeir mér að forstöðumaðurinn hefði sagt að þetta yrði lagað strax eftir áramót, svo ég beið enn þolinmóður. Fyrir um einni viku síðan mældi ég svo körfurnar aftur, orðinn dálítið pirraður enda farið að styttast í úrslitakeppni hjá okkur. Aðalkörfur hússins reyndust hafa sigið um 1.5sm. Hliðarkörfurnar reyndust hinsvegar 2.97m og niður í 2.94m sem er orðið grátlega lágt fyrir fullorðna menn. Ég lét starfsmann hússins vita af þessu og fór að velta vöngum yfir ástæðum fyrir siginu. Getur verið að þær hafi sigið vegna þunga þaksins? Nei segja starfsmenn bæjarins og ég fagna því ef rétt er. En það leysir ekki vanda okkar með hæð hliðarkarfanna.
Ég vissi ekki hvort ég átti að gráta eða hlægja þegar ég las viðtal við Stefán Bjarkason og forstöðumann hússins, Hafstein Ingibergsson, þar sem þeir reyna að halda því fram að ég hafi verið að kvarta undan aðalkörfum hússins, þetta eru barnaleg látalæti því þeir vita báðir allt um málið, en gera bara ekkert í því. Það veit hver maður að U.M.F.N fengi aldrei að spila leiki á of lágar körfur frekar en fótboltamenn á of lítil mörk. Stefán segir að hliðarkörfurnar í salnum skipti minna máli en hinar, en hann ætti að vita betur, gamli reynsluboltinn sjálfur. Að skjóta daginn inn og daginn út á körfur sem eru allt að 11sm of lágar gengur ekki upp. Allir mínir leikmenn eru gengnir upp úr minnibolta. Ef þær skipta minna máli, af hverju var verið að kaupa 2 glæsilegar hliðarkörfur í íþróttahúsið við Sunnubraut? Er það þá ekki óþarfa bruðl? Það held ég ekki. Bæjarfélag okkar hefur hingað til getað státað af tveimur frábærum körfuboltaliðum, leikmenn leggja gríðalega vinnu á sig við æfingar og keppni og eru bænum ávallt til sóma. Við biðjum ekki um 400millj. króna höll okkur til handa, en það væri vel þegið ef hægt yrði að laga hliðarkörfurnar fyrir úrslitakeppnina og gengið yrði úr skugga um að þakið sigi ekki, það eru jú börn sem æfa þar leikfimi frá degi til dags. Best væri ef hægt væri að leysa vandamálin, í staðinn fyrir að búa þau til.
Með vinsemd og virðingu
Friðrik Ragnarsson þjálfari mfl. U.M.F.N