Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Aðsent

Breytingar í samfélaginu
Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS.
Föstudagur 26. apríl 2019 kl. 13:00

Breytingar í samfélaginu

Við Suðurnesjamenn þekkjum vel breytingar í atvinnulífinu. Hér sveiflast atvinnuástandið að okkur finnst meira en á flestum öðrum stöðum. Við höfum fundið fyrir miklum sveiflum undanfarin 13 ár og kannski erum við orðin sérfræðingar í að bregðast við aðstæðum. Samfélagið okkar hefur ávallt snúið bökum saman þegar á þarf að halda og er engin breyting á því núna árið 2019 þegar enn eitt áfallið dynur yfir. Hér hafa aðilar ávallt unnið saman þegar þörf krefur og höfum við í MSS verið svo lánsöm að vera einn hlekkur í þeirri kveðju.
Þegar einstaklingur missir vinnu sína þarf að mörgu að hyggja. Fyrsta spurningin er að sjálfsögðu hvernig sé ég mér og mínum farborða á næstu misserum, síðan er að takast á við þær félagslegu breytingar sem verða en atvinnumissir hefur mikil áhrif á daglegt líf og félagsleg tengsl einstaklingsins. Þá er að koma sér í aðra vinnu eða nýta tækifærið og efla færni og hæfni sína með það að takmarki að skipta um starfsvettvang eða verða eftirsóttari starfskraftur.

Samfélagsleg skylda að bregðast við
MSS hefur í tæp tuttugu ár sinnt atvinnulífinu og einstaklingum sem hafa verið án vinnu og liggur mikil þekking hjá okkar starfsfólki. Með þessum skrifum vil ég minna þá sem standa nú í þessum sporum að hægt er að leita til okkar í MSS. Við höfum hér náms- og starfsráðgjafa sem aðstoða einstaklinga til að takast á við þessa stöðu hvort sem það er með sjálfseflingu, markmiðasetningu, ferilskrárgerð, gerð kynningarbréfs o.s.frv. Þjónusta þessi er öllum að kostnaðarlausu og eru allir velkomnir. Við bjóðum einnig upp á ýmsar starfstengdar námsleiðir til eflingar á vinnumarkaðnum.  Við lítum á það sem okkar samfélagsskyldu að bregðast við aðstæðum og vera virkur þátttakandi í viðbrögðum og uppbyggingu í samfélaginu.

Public deli
Public deli

Fyrirlestrar í boði MSS
Hluti af okkar leið til þess að bregðast við þörfum samfélagsins snýr að opinni fræðslu og stuðningi við þá sem takast nú á við breytingar og atvinnumissi. Við munum því bjóða upp á fyrirlestur með Jóhanni Inga Gunnarssyni sálfræðingi þann 7. maí kl. 12 þar sem lögð er áhersla á gagnlegar aðferðir til að takast á við breytingar við krefjandi aðstæður. Einnig munum við bjóða upp á fjármálanámskeið með Hauki Hilmarssyni þann 2. maí þar sem fjallað verður um hvernig hægt sé að takast á við fjármál okkar við tekjumissi. Á fyrirlestrinum er farið yfir öll þau verkfæri og ráð sem við getum gripið til strax við tekjumissi. Fjallað um andlegu hlið fjármálanna og hvernig við getum minnkað streitu og kvíða í fjármálum á óvissutímum.
Við bjóðum einnig upp á tvo fyrirlestra á ensku og pólsku. Þann 9. maí mun Monika Krus mannauðssérfræðingur halda fyrirlestur á pólsku um hvernig er hægt að takast á við erfiðar aðstæður og þann 16. maí verður fyrirlesturinn á ensku.

Allir eru velkomnir á þessa fyrirlestra þeim að kostnaðarlausu en nauðsynlegt er að skrá sig á www.mss.is.

Guðjónína Sæmundsdóttir
Forstöðumaður MSS