Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bréf til Magneu
Laugardagur 18. september 2010 kl. 13:32

Bréf til Magneu


Sæl Magnea og takk fyrir að bregðast við minni grein hér í VF - Skýjaborgin hrunin. Hugleiðingar mínar gengu fyrst og fremst út á það að endurspegla það alvarlega ástand sem hér ríkir og vekja athygli á því fyrirhyggjuleysi sem einkennt hefur störf bæjarstjóra. Það hefur ekkert með mína afstöðu til álvers í Helguvík að gera. Þú veist að ég styð hvern sem er til góðra verka í atvinnuuppbyggingu hér á Suðurnesjum og hef sjálfur verið talsmaður þess, bæði sem einstaklingur og á mínum starfsvettvangi. Þú getur reitt þig á að það verð ég áfram. Ég hef stutt álversuppbyggingu í Helguvík og ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir seinagang hennar í því sem að henni snýr í því máli, en það kemur minni grein ekkert við. Hún fjallar um það hvernig skýjaborg bæjarstjórans er hrunin vegna þess fyrirhyggjuleysis sem hann sýnir sem stjórnandi og framkvæmdastjóri bæjarfélagsins.


Ég tók það sérstaklega fram í minni grein að gott væri að hafa háleit markmið, en að það verði að vera innistæða fyrir þeim. Þar brást bæjarstjóranum bogalistin því hann óð út í framkvæmdir sem ekki var innistæða fyrir. Þannig er höfnin afar skuldsett, en tekjulaus að mestu og fleira er óþarfi að endurtaka. Auðvitað skil ég það að eldhuginn og framkvæmdamaðurinn Árni Sigfússon vilji rífa þetta erfiða samfélag upp, en að mínum dómi sést hann ekki fyrir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það er alveg rétt að útlit bæjarins hefur tekið stakkaskiptum á liðnum árum. Ég hef verið virkur talsmaður þess að fegra bæinn og skapa vistvænt aðlaðandi umhverfi eins og unnt er og auka þannig lífsgæði bæjarbúa í hvívetna. Það verður þá líka að vera innistæða fyrir því. Lífsgæði bæjarbúa felast ekki í því að stefna bæjarsjóði í þrot. Fólk gengur ekki glatt um fagrar grundir með galtóma buddu. Ég hafna því að selja eignir bæjarins fyrir rekstarfé til að slá um sig og sýnast. Slík pólitík hefur leitt til þess að skuldir bæjarins eru að kollvarpa bæjarsjóði og það er mjög alvarlegt mál, Magnea.


Þú veist líka, Magnea, að í Reykjanesvirkjun stendur milljarða túrbína í umbúðapappír, túrbína sem ætlað er að framleiða 100 MW án þess að virkjanaleyfi sé fyrir hendi, til viðbótar við þau 100MW sem nú eru framleidd þar. Við vitum nú líka bæði að alls óvíst er hvort næg orka fáist í álver í Helguvík frá HS-Orku. Til þess að svo verði þarf að virkja í landi Hafnarfjarðar og Grindavíkur. Bæði þessi sveitarfélög hafa síður en svo gefið leyfi til þess. Þetta segir mér ekkert annað en það að tafirnar á að álver rísi í Helguvík er engu öðru um að kenna en fyrirhyggjuleysi þíns flokks í Reykjanesbæ undir forystu hins sterka leiðtoga.


Þú telur Árna sterkan leiðtoga. Sannalega er hann gæddur þeim góðu eiginleikum að laða fólk að sér og fá það með sér í verkin Það sýna glæsileg kosningaúrslit ykkar í bænum. Slíkir kostir fara þó ekki endilega saman við það að vera góður fjármálastjórnandi eða framkvæmdastjóri sveitarfélags. Ég er þeirrar skoðunar að Árni sé afleiddur sem slíkur, en sterkur leiðtogi í sínum hópi kann hann vel að vera.


Þú minnist á brotthvarf varnaliðsins. Auðvitað datt mér ekki í hug að það væri á ábyrgð bæjarstjóra, annars hefði ég að sjálfsögðu tínt það til líka. Hið mikla atvinnuleysi frá brotthvarfi hersins gaf hins vegar ríka ástæðu til varkárni í fjármálum bæjarins, varkárni sem þið hundsuðuð algjörlega. Þótt þú, Magnea, hafir trú á þínum leiðtoga þá er hann ekki traustsins verður í mínum huga til þess að vinna okkur upp úr þeirri skuldasúpu sem hann hefur sökkt bænum í.


Sem betur fer eigum við Suðurnesjamenn og Íslendingar auðlindir í orku og hafsins gæðum. Það getur hjálpað okkur úr krísunni ef vel er á haldið. Afríka er auðugust heimsálfa. Þar eru margir sterkir leiðtogar en lískjör einna lökust í heiminum. Danir eiga engar auðlindir nema nokkrar ekrur, svín og mannvit. Þar eru engir sterkir leiðtogar en margir góðir stjórnendur. Þar eru lífsgæði með því besta sem gerist.


Að lokum þetta. Hafi ég haft rangt fyrir mér varðandi væntanlega kjaraskerðingu starfsmanna bæjarinns um 20% þá fagna ég því að ,,hagræðing” ykkar bæjarfulltúanna til að eiga upp í skuldahítina nái ekki þeirri tölu. Það kemur þá bara í ljós hver launalækkunin verður þegar þið verðið búin að minnka starfshlutfallið hjá starfsfólki bæjarins.


Svo vona ég bara að þú verðir farsæll bæjarfulltrúi og að úr rætist fyrir okkur hér í samfélaginu. Liður í því væri að losna við leiðtogann úr bjæarstjórastólnum.


Skúli Thoroddsen
íbúi í Keflavík