Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 13. desember 2002 kl. 11:23

Bréf frá fyrrverandi heilsugæslulæknum á Suðurnesjum

Fyrrverandi heilsugæslulæknar á Suðurnesjum harma þá þróun sem orðið hefur í málefnum heilsugæslunnar á Suðurnesjum, eftir að uppsagnir okkar tóku gildi þann 1. nóvember síðastliðinn.Samskipti okkar við stjórnendur stofnunarinnar eftir 1. nóvember hafa að okkar mati einkennst af trúnaðarbresti. Ljóst var frá upphafi að uppsagnir okkar voru tilkomnar vegna óánægju með almenn starfsréttindi heimilislækna en ekki með starfskjör á Suðurnesjum. Tilboði okkar um að vinna við neyðarþjónustu á þessu erfiða tímabili var ekki svarað. Langtíma hagsmunum sjúklinga teljum við að hafi verið unninn mikill skaði með skammsýnum ákvörðunum stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS).

Eftir viljayfirlýsingu Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, þann 27. nóvember var samt fullur vilji af okkar hálfu að snúa aftur til starfa og buðum við endurráðningu á sömu starfskjörum og áður. Hins vegar kom í ljós í viðræðum okkar við ráðamenn HSS að um verulega breyttar forsendur var að ræða. Ætlunin er að fækka heilsugæslulæknum. Fjöldi fastráðinna heimilislækna á svæðinu var ófullnægjandi fyrir og eykst sá vandi við þessa ákvörðun. Því fylgir einnig sú augljósa staðreynd að ekki stendur til að endurráða alla þá sem sögðu upp störfum sínum. Að okkar áliti er fækkun lækna óviðunandi þar sem hún leiðir til skertrar þjónustu við skjólstæðinga heilsugæslunnar og verri starfsskilyrða heilbrigðisstétta á stofnuninni.

Þetta hefur leitt til þess að við sjáum okkur ekki fært að sækja um störf við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á nýjan leik. Okkur tekur það sárt hversu skjólstæðingar okkar og samstarfsfólk hafa þurft að líða fyrir réttinda baráttu þessa.

Myndin: Heilsugæslulæknir pakkar saman persónulegum munum við uppsögn fyrr í vetur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024