Bragðvondur grautur
Samfélagið er í rúst. Fjöldi fjölskyldna dregur fram lífið viku frá viku, jafnvel frá degi til dags. Menn bíða eftir að af verði lögð sú innantóma orðræða sem virðist hafa þann tilgang einan að sundra. Á sama tima og ekkert er mikilvægara að standa saman. Greinarskrif Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu hafa nú orðið tilefni til enn eins upphlaupsins. Nánast öllu snúið á haus og ályktanir dregnar í þeim sama anda. Enn á ný er reynt að skrifa söguna á nýjan leik. Undir slíku verður ekki setið.
Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar kallar eftir afsögn ráðherra og áfram heldur svo bæjarstjórinn í Garði. Það gerir hann á svo ósanngjarnan og ósmekklegan hátt að flestir fá óbragð í munninn sé litið til þeirrar umdeildu stjórnsýslu sem hann sjálfur viðhefur í Garði þessa dagana. Nægir þar að nefna málefni Gerðaskóla og að því er virðist stöðugt minnkandi framtíðarsjóð bæjarins. Hér á vel við orðtækið „maður líttu þér nær.“
Rót þeirrar umræðu sem nú á sér stað er afleiðing einkavæðingar Hitaveitu Suðurnesja. Þeirrar gjörðar þegar kjörnir fulltrúar sem gæta áttu hagsmuna almennings gengu fram fyrir skjöldu og ákváðu að einkavæða HS. Meirihluta sem fagnaði í bókun að sú gjörð væri einungis fyrsti áfanginn í einkavæðingu orkugeirans á Íslandi. Þúsundir íbúa á Suðurnesjum vöruðu við gjörningum, en á það var ekki hlustað. Það var sú sala sem svipti sveitarfélögin yfirráðum yfir auðlindum sínum. Þess vegna er staða okkar slæm í dag.
En við höldum ekki áfram og við náum ekki árangri með innantómu rifrildi um það sem var. Við verðum að horfa til framtíðar og sameinast um hvernig við ætlum að vinna okkur út úr vandanum. Við þurfum að koma fólki til vinnu. Öðruvísi verður ekki áfram haldið.
Umræðan allt frá hruni hefur haft eitt meginstef. Hagsmunaaðilar hafa keppst um að bíða hver eftir öðrum. Kastað sökum hver á annann. Hinir hafi ekki sýnt það frumkvæði sem um hafi verið samið til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Á meðan bólgna bankarnir út af peningum sem verða engum til gagns. Safna jafnvel neikvæðum vöxtum. Er ekki komin tími til að koma þeim peningum í vinnu?
Á meðan menn leika þann leik að taka enga ábyrgð í pólitískum hráskinnaleik gerist ekkert. Menn leyfa sér að fara í pólitíska sérhagsmunabaráttu meðan heimilunum í landinu blæðir út. Það verða allir að gefa eftir af ýtrustu kröfum sínum og skoðunum eigi árangur að nást. Það gildir jafnt til hægri og vinstri.
Við eigum ekki að vera hrædd við að ræða þær breytingar sem til góðs gætu orðið. Þar eigum við ekki að láta fyrirfram gefnar kreddur og hræðsluáróður villa okkur veg. Við erum í stöðu sem ekkert okkar vildi vera í. Á meðan við greinum ekki kjarnan frá hisminu, er ekki von á árangri.
Fólkið í landinu kallar eftir umræðu og gjörðum þar sem ljóst er að hagsmunir þess séu hafðir í fyrirrúmi. Að fjölskyldunnar sem tekið hafa á sig ómælda erfiðleika eftir hrunið geti séð fram á bjartari daga. Það er verkefni dagsins í dag að byggja varnarmúra um velferð fjölskyldnanna til framtíðar. Það þjónar ekki tilgangi að hræra áfram í þeim bragðvonda graut sem bæjarstjórinn í Garði vill bera á borð og telur herramanns mat.
Með bestu kveðju Hannes Friðriksson