Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Börnin okkar
Fimmtudagur 27. október 2016 kl. 13:00

Börnin okkar

- Aðsend grein frá Páli Val Björnssyni

Ég hef setið á Alþingi þetta kjörtímabil sem fulltrúi ykkar, kjósenda í Suðurkjördæmi. Það hefur verið mikil reynsla, oft erfið, en alltaf áhugaverð og lang oftast ánægjuleg. Árið 2014 hlotnaðist mér sá heiður og ábyrgð að vera útnefndur sem einn af sérstökum talsmönnum barna á Alþingi af hagsmunafélögum sem starfa í þágu barna. Ég tók þetta hlutverk strax mjög alvarlega og hef styrkst í sannfæringu minni fyrir mikilvægi þessa verkefnis.

Ég hef kynnt mér vel stöðu barna á Íslandi og sett mig inn í mál sem varða þau sérstaklega og hef séð svo margt aðfinnsluvert sem verður að bæta. Því miður er það ömurleg staðreynd að stór hópur barna hér á landi býr ekki við sömu tækifæri og önnur börn. Sum þeirra verða undir strax í leikskóla og grunnskóla, vegna félagslegra aðstæðna, fátæktar, fötlunar og skerðinga og fá ekki þann stuðning sem við getum sem samfélag svo vel veitt þeim. Að verða undir hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði þessara barna og tækifæri í öllu lífinu og vegur að hamingju foreldra þeirra og annarra aðstandenda. Það er þyngra en tárum taki, er algjörlega óásættanlegt og óþarft í velmegunarsamfélagi okkar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skólakerfið gegnir lykilhlutverki við að tryggja börnum tækifæri til að þroska sig og gera þeim kleift að njóta lífsins á sínum forsendum. Skólinn á að vera án aðgreiningar og mismununar. Hann á að laga sig að einstaklingnum, þörfum hans og hæfileikum. Börn eiga ekki að þurfa að laga sig að skólanum. Ég veit, af eigin reynslu, að skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skólanna vilja sinna þeim vel. Þetta góða fólk þarf hins vegar að fá fleiri og margbreytilegri úrræði og stuðning til þess að geta sinnt öllum börnum, þörfum þeirra og forsendum.

Sem talsmaður barna á Alþingi hef ég skrifað margar greinar, flutt margar ræður og lagt fram fyrirspurnir sem lúta að málefnum barna. Í september síðastliðnum hlotnaðist mér sá heiður að vera verðlaunaður fyrir að standa mig best þingmanna í að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna, ekki síst þeirra sem eru í erfiðri stöðu.

Þessi viðurkenning er mér meira virði en nokkuð annað sem mér hefur hlotnast á lífsleiðinni. Hún er mér líka mikil hvatning til að halda áfram að vinna í þágu barna. Ég veit hins vegar að staða þingmanns færir mér bestu tækifærin til að berjast fyrir þessu mikilvæga málefni. Að bæta stöðu og réttindi barna og jafna tækifæri þeirra til að njóta lífsins og vera virkir og hamingjusamir þátttakendur í samfélaginu.
Þess vegna bið ég þig ágæti kjósandi að veita mér stuðning til að halda áfram á sömu braut.


Páll Valur Björnsson
Varaþingflokksformaður og þingmaður Bjartrar framtíðar