Börnin í bænum
– Lovísa Hafsteinsdóttir skrifar
Það er að koma að kosningunum, aðeins nokkrir dagar eftir og spennan orðin gífurleg. Þar sem síðustu skoðanakannanir sýna fram á að líklega muni meirihlutinn í bæjarstjórn falla í þessum kosningum erum við í framboðsbaráttunni að leita allra leiða til að sannfæra kjósendur um hvernig atkvæði þeirra verði best varið. Það hafa verið skrifaðar greinar m.a. um hvernig menn hafa hugsað sér að bæta atvinnumálin, skólamálin, íþróttir, tómstundir, samgöngur og ég tala nú ekki um Helguvíkina, sem að sögn sumra á að redda öllu því sem redda þarf í fjárhagsörðugleikum bæjarins.
Ég hafði hugsað mér að skrifa um íþróttir og tómstundir þar sem ég er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og starfa í þeim geira. Eitthvað mega flott sem fengi marga kjósendur til að vilja kjósa okkur í Beinni leið. Eitthvað á þá leið að við í Beinni leið munum leggja okkur fram við að bjóða börnum í Reykjanesbæ upp á allt milli himins og jarðar. En þá fór ég að hugsa að þessar upptalningar geta bæjarbúar nálgast á heimasíðu okkar, ásamt öðrum stefnumálum framboðsins. Þar geta bæjarbúar einnig kynnt sér almennilega hver við erum og hvaða stefnumálum við viljum beita okkur fyrir. Því ákvað ég að nota þessa grein til að minna á börnin okkar í Reykjanesbæ og mikilvægi þess að við setjum þau ávallt á oddinn í þeim ákvörðunum sem teknar verða fyrir eða eftir kosningar.
Í starfi mínu sem náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla hér í bæ hef ég bæði verið þátttakandi í gleði og erfiðleikum nemenda minna. Það getur stundum verið mjög erfitt þar sem vandinn sem börnin eru að glíma við er ekki alltaf á mínu færi að leysa. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég ákvað að gefa kost á mér til sveitarstjórnarkosninga í ár. Mig langar að láta gott af mér leiða fyrir börnin í bænum. Það get ég gert með því að hafa áhrif inni í nefndum og ráðum er snúa að málefnum barnanna. Ég sé fyrir mér tækifæri til að vinna markvisst að því að bæta innra starf frístundaskólans og efla tómstunda og félagsstarf innan skólanna með líðan nemenda að leiðarljósi.
Við þurfum að móta okkur stefnu um hvernig við ætlum að huga að þeim börnum sem eiga í félagslegum erfiðleikum og hvernig við ætlum að takast á við þann vanda þegar börn verða vinalaus og einmana. Hvernig við ætlum að mæta þeim börnum sem eyða stórum hluta frítímans alein inn í herbergi í tölvunni sinni, hvort sem þau eru í tölvuleik eða bara að vafra um á netinu langt fram á nætur í leit að félagslegum samskiptum.
Við höfum stórar og glæsilegar skólabyggingar í flestum hverfum bæjarins sem standa svo til auðar eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Við þurfum að nýta okkur þessa aðstöðu, fá börnin til að koma saman og gera eitthvað skemmtilegt, tengjast öðrum börnum og efla sig félagslega. Í mínum huga eru þetta stóru málin í kosningabaráttunni og ég mun svo sannarlega að beita mér fyrir þeim.
Lovísa Hafsteinsdóttir
Í framboði fyrir Beina leið