Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Börnin eru mikilvægust
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 09:45

Börnin eru mikilvægust

Í hverju sveitarfélagi eru fræðslumál stór málaflokkur og í sífelldri þróun en stór hluti útgjalda sveitarfélagsins fer í að sinna rekstri leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og annarrar fræðslustarfssemi.  Um leið hefur það mikil áhrif á einstaklinginn og samfélagið hvernig til tekst.  Undanfarin ár eru merkileg að mörgu leyti hvað varðar skólamál og má segja að við stöndum á merkilegum tímamótum þar sem samfélagið, sveitarfélagið og stjórnvöld hafa ákveðið að beina athyglinni að velferð og farsæld barna meðal annars með innleiðingu svonefndra farsældarlaga og þeirri stefnu að kerfin stilli sig saman í þágu barna.  Þá er einnig komin fram fyrsta aðgerðaráætlun nýrrar menntastefnu stjórnvalda og samþætting þjónustu í þágu barna og ungmenna.  Eitt af áherslusviðunum var að leita leiða til þess að auka vellíðan og árangur nemenda og bæta og aðlaga hæfni þeirra til að mæta áskorunum nútímans og framtíðarinnar. Á sama tíma er markmið snemmtækrar íhlutunar þau að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og að liðsinni sé veitt áður en vandinn ágerist með skaðlegum og óafturkræfum afleiðingum.

Þannig er fyrirsjáanlegt, að á komandi árum, þurfi stöðugt að skoða allar breytingar og nýjar útfærslur með opnum huga og hagsmuni barnanna að leiðarljósi.  Slíkt skiptir miklu máli fyrir vellíðan og hamingju einstaklingsins þannig að hann geti verið félagslega virkur og læri og þroskist í samfélagi við aðra. Mikilvægur þáttur í þessu öllu er ýmis konar skóla- og íþróttastarf sem og frístunda og tómstundastarf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér í Reykjanesbæ höfum við einnig tekið þátt í þessari þróun með menntastefnu Reykjanesbæjar 2021-2030 sem nefnist Með opnum hug og gleði í hjarta, sem er ætlað að veita öllum sem koma að starfi barna og ungmenna í sveitarfélaginu leiðsögn og innblástur.  Stefnan gagnast okkur við að stuðla að því að börn og ungmenni fái alhliða menntun, líði vel og séu virkir þátttakendur í samfélaginu en að baki stefnunnar var umfangsmikið samstarf og samráð. Markmiðið var að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta

Sem dæmi úr stefnunni má nefna að eitt af leiðarljósum hennar og það sem á að einkenna allt starf með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu er að börnin eru mikilvægust en í því felst að allt starf með börnum og ungmennum á að snúast um að auka farsæld þeirra og skapa aðstæður þar sem þau fá tækifæri til að vaxa og þroskast í öruggu og hvetjandi umhverfi þannig að hvert barn geti uppgötvað styrkleika sína, eflt færni sína, öðlast jákvæða sýn á lífið og viðhafi heilbrigðan lífstíl og geti tekið á við áskoranir sem þau mæta hverju sinni.  Þannig eigi menntun að hjálpa börnum og ungmennum að rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni.

Bein leið hefur í stefnu sinni tekið mið af þessum umbreytingum og leggur til að stuðningur felist m.a. í því að halda áfram góðum stuðningi við faglegt menntasamfélag auk þess sem til dæmis að ráðnir verði skólafélagsráðgjafar til starfa í grunnskólunum til að auka vellíðan barna.  Þá er ekki hægt annað en að bregðast við þörfum barna og í anda snemmtækrar íhlutunar að skima eins og unnt er fyrir kvíða og þunglyndi hjá grunnskólabörnum. Það er hlutverk okkar að styðja við börn og til þess að geta gert það þarf meðal annars að styðja stöðugt betur við þá sem starfa í skólunum. Jákvæð áhrif þess koma kannski ekki fram í lífi barnanna fyrr en eftir mörg ár en það dregur ekki úr metnaði okkar að gera allt sem hægt er til þess að vel takist til.

Halldór Rósmundur Guðjónsson, Beinni Leið.