Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 10. nóvember 2006 kl. 10:42

Börn og ungmenni með geðraskanir

Atli Gíslason skrifar um börn og ungmenni.

Ég hef bæði sem lögmaður og í einkalífi umgengist börn og ungmenni sem hafa strítt við lesblindu, ofvirkni, athyglisbrest og aðrar geðraskanir.  Skýrslur segja að 2% til 5% barna eigi við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir að stríða og séu í þörf fyrir sérhæfða og öfluga þjónustu í skóla- og heilbrigðiskerfinu. Með öðrum orðum, reikna má með að í hverjum árgangi séu 80 til 215 börn sem þannig háttar til um.   Þetta þýðir að yfir 2.000 börn á aldrinum eins til sextán ára glíma í dag við geðraskanir.  Hér áður fyrr voru þetta talin “heimsku” börnin í skólakerfinu sem hrökkluðust vanrækt úr því  þrátt fyrir markverða hæfileika á mörgum sviðum.  Þessi börn eru í áhættuhópi.  Það er líklegra að þau lendi í alvarlegum erfiðleikum, fíkniefnum, afbrotum og öðrum sálarháska, þegar þau ná kynþroska.  Nú er fyrir hendi þekking til að greina og leysa þessi vandamál.  Og vandamálin eru vissulega greind og stundum margsinnis gagnvart einu og sama barninu en án viðeigandi ráðstafana og  meðferðarúrræðin eru vægast sagt af skornum skammti. Hér nægir að nefna að einvörðungu er pláss fyrir innan við 40 börn á sérhæfðum meðferðarheimilum. 

Allt eru þetta þekktar staðreyndir og sérfræðingar, foreldrar og margir fleiri hafa árum saman barist fyrir raunhæfum aðgerðum og fjárveitingum ríkisins til málaflokksins en komið að tómum kofum.  Væri ekki nær að þeim milljörðum, sem dómsmálaráðherra hyggst verja til leyniþjónustu, greiningardeilda og sérsveita lögreglu og ríkisstjórnin vegna fulltrúa í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, verði varið til aðstoðar börnum og ungmennum með geðraskanir?

Fyrir liggur afar ítarleg og greinargóð skýrsla frá árinu 2004 unnin af Kristjáni Má Magnússyni, sálfræðingi,  um málefni barna og ungmenna með geðraskanir.   Skýrslan er raunsæ  úttekt á þessum stórfellda vanda og bendir á virk úrræði til úrbóta.  Þar kemur meðal annars fram að við breytingu á grunnskólalögum og reglugerð um sérfræðiþjónustu grunnskóla, í tengslum við yfirfærslu grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996, hafi dregið úr hlutverki sérfræðiþjónustu gagnvart börnum og unglingum með geðraskanir.  Má lesa úr skýrslunni að þessi börn og unglingar séu í “limbói” þjónustuleysis vegna kerfisbreytinga.  Það er auðvitað með öllu óverjandi ástand.  Skýrslan hefur nánast legið í þagnargildi og fátæklegar tillögur heilbrigðisráðherra ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins til úrbóta  gára vart yfirborð vandans. 

Það er okkur til skammar að ekki skuli tekið myndarlega til hendinni í þessum málaflokki og þyngra en tárum taki að börn og unglingar með geðraskanir séu allt að fjórtán mánuði á biðlista hjá BUGL eftir þjónustu.  Hver dagur í lífi þessara ungmenna getur verið upp á líf og dauða að tefla.  Aðeins tímaspurning hvenær mörg þeirra þau ánetjast fíkniefnum, afbrotum eða lenda í annarri ógæfu.  Gerist það er allt eins líklegt að þau verði háð samfélagsaðstoð til æviloka og þeir unglingar sem verst verða úti gætu kostað samfélagið um eða yfir 300 milljónir frá unglingsárum og næstu 50 til 60 ár í lífi þeirra.  Það er því til mikils að vinna með því að fjárfesta í börnum og ungmennum.  Við í Vinstri grænum þorum, viljum og ætlum að rétta hlut þessara barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra.

Atli Gíslason

hefur gefið kost á sér í 1. sæti  á framboðslista VG í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024