Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Börn hjálpa börnum 2004
Fimmtudagur 27. maí 2004 kl. 15:19

Börn hjálpa börnum 2004

Kæru Suðurnesjamenn!

Þessa dagana stendur yfir kynningar- og söfnunarátak ABC barnahjálpar sem ber yfirskriftina „Börn hjálpa börnum.“  Flestallir grunnskólar landsins taka þátt í átakinu. 

Í stað þess að grunnskólabörn gangi um með bauka eins og áður, var útbúið sérstakt upplýsingaspjald um ABC barnahjálp sem börnin fengu með sér heim.  Á spjaldinu eru upplýsingar um starfið, þar gefst fólki kostur á að taka að sér barn og einnig að styrkja  skólabyggingar á vegum starfsins. UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna stendur nú fyrir átaki gegn ólæsi og stendur það átak í áratug.  Um 862 milljónir manna15 ára og eldri í heiminum í dag eru ólæs og um 113 milljónir barna hafa ekki tækifæri til að ganga í skóla. Við hjá ABC barnahjálp viljum leggja okkar af mörkum til að breyta þessu ástandi og leggjum nú áherslu á að safna stuðningsforeldrum sem vilja hjálpa fátækum börnum til mennta. Fyrir tilstuðlan ABC og slíkra stuðningsforeldra fá nú um 4000 börn hjálp, í formi fæðis, klæða, læknishjálpar, menntunar og í mörgum tilfellum heimilis, aðallega á Indlandi, Filippseyjum og Úganda.  Íslensk skólabörn hafa verið ötul að safna fé til styrktar fátækum jafnöldrum sínum erlendis.  Fyrir þetta fjármagn hafa verið reist tvö heimili fyrir samtals 2000 börn á Indlandi , byggður forskóli í Kitetika í Suður-Úganda og lagður grunnur að barnaskóla þar.  Söfnunarfénu í ár verður varið í barnaskólann í Kitetika, í framhaldi af því  verður hafist handa við skólabyggingu við El Shaddai barnaheimilið á Indlandi.

Fyrir stuttu síðan opnaði ABC barnahjálp nýja heimasíðu, abc.is.  Á síðunni er hægt að taka að sér barn og styrkja hin ýmsu verkefni starfsins.  Þar er einnig að finna upplýsingar og myndir frá starfinu erlendis. Síðan verður þýdd á mörg tungumál, þar sem ætlunin er að bjóða erlendum stuðningsaðilum þáttöku.
Nafni starfsins hefur nú verið breytt úr ABC hjálparstarfi í ABC barnahjálp og skýrir það nafn betur starfsvettvang okkar þ.e. að um er að ræða hjálp til barna.  Einnig hefur merki starfsins verið breytt.
Þeir sem vilja styrkja skólabyggingar fyrir fátæk börn geta lagt inn á eftirfarandi söfnunarreikning: 515 14 110000
Þeir sem vilja taka að sér barn geta haft samband við skrifstofu ABC barnahjálpar  s: 561 6117 eða farið inn á heimasíðu okkar abc.is

Með fyrirfram þökk

María Magnúsdóttir
frkvstj.  ABC barnahjálpar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024