Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 9. febrúar 2000 kl. 16:09

Borgarafundur í Grindavík um löggæslumál

Borgarafundur um löggæslumál var haldinn í Festi fimmtudaginn 3. febrúar á vegum bæjarstjórnar Grindavíkur, að viðstöddum Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra, Jóni Eysteinssyni sýslumanni, Guðmundi Guðjónssyni frá Ríkislögreglustjóra og yfirlögregluþjóni í dómsmálaráðuneytinu.. Einnig voru þarna starfsmenn sýslumanns. Mjög fjölmennt var á þessum fundi og augljóst að Grindvíkijngum er ekki sama um hvernig þessi mál þróast. Dómsmálaráðherra hélt fyrstu ræðu og fór hún yfir víðan völl og sagði að búið væri að taka ákvörðun í þessu máli og að því yrði ekki breytt. Þessi fullyrðing olli Grindavíkingum sem á fundinum voru mjög miklum vonbrigðum. Menn gátu svo sem sagt sér það að sýslumaður væri búinn að tryggja þessu máli framgang þvert á vilja bæjarbúa. Ekki endilega til að öryggi Grindavíkinga væri tryggt heldur virðist eitthvað annað ráða ferðinni. Enn er komið að því að reyndir lögreglumenn ekki bara úr Grindavík eða Keflavík skilja ekki þau rök sem stuðst er við varðandi þessa breytingu. Margir eru búnir að hafa samband við mig og spyrja hver á eiginlega hugmyndina að þessu. Ég svara því til að nefnd undir forystu Ásgeirs Eiríkssonar fulltrúa og staðgengils sýslumanns hafi komist að þessari niðurstöðu og þá fylgir spurningin hverjir voru eiginlega í þessari nefnd. Því verður látið ósvarað. Á fundinum kom fram hjá dómsmálaráðherra að menn efuðust um ágæti þess að tveir lögreglumenn væru í eftirliti. Ég held að það sé misskilningur. Hefðbundið eftirlit er þannig. Tveir lögreglumenn afgreiða saman flest mál og eða fá aðstoð annara ef málið er yfirgripsmikið. Grindavíkingar treysta ekki að þessir lögreglumenn verði mikið í Grindavík og af því stafar óöryggið. Það er sama hvað sýslumaður segir um aukna löggæslu þá gerast hlutirnir ekki alltaf eins og við viljum. Mikið álag á einum stað kallar á fleirri lögreglumenn og hvar eru mestar líkur á að álagið verði. Að sjálfsögðu þar sem fjöldinn er mestur þ.e.a.s. í Reykjanesbæ. Hallgrímur Bogason, forseti bæjarstjórnar, lýsti áhyggjum bæjarstjórnar og bæjarbúa á þessari aðgerð og sagði að til hennar mætti ekki koma. Hann bað um aðgerðinni yrði frestað um einn mánuð svo menn gætu talað saman en ákveðið var að menn töluðu saman en frestur varð ekki veittur. Séra Jóna Kristín ræddi málin og snerti ýmsa viðkvæma fleti á samskiptum sínum við lögreglu og auðheyrt var á henni að henni var brugðið. Þegar hún lauk máli sínu ætlaði allt um koll að keyra í salnum. Það sýndi betur en allt annað að Grindavíkingar voru jafn áhyggjufullir og hún. Þáttur yfirlögregluþjóns Sýslumaður fól sínum yfirlögregluþjóni að svara nokkrum spurningum sem bárust til hans. Satt best að segja hefði verið betra að láta það ógert. Hann byrjaði á að lýsa því yfir að hann hefði átt heima í Sandgerði í að mig minnir 35 ár og sagði jafnframt að löggæsla í Sandgerði hefði ekki versnað þegar lögreglan var færð til Keflavíkur. Þarna hafið þið það Sandgerðingar. Hann svaraði engri spurningu en kom með brandara sem átti alls ekki við á fundinum. Brandari þessi var þess eðlis að að hann væri ekki viss um að hann réði Hjálmar Árnason, sem hafi verið í lögreglunni sem afleysingamaður og staðið sig frábærlega vel, aftur í vinnu bæði hann um það. Fundarmönnum fannst þessi svokallaði brandari ekki viðeigandi á svona fundi þar sem menn höfu öðru fremur áhyggjur af framtíð löggæslunnar. Margir fundarmenn hafa komið að máli við mig og spurt um þennan mann en þeir héldu að hann væri á vegum Ríkislögreglustjóra. Þeir hinir sömu voru leiðréttir. Tvær spurningar sem var sérstaklega óskað eftir að yrði svarað voru þessar. Hvað eru margir skólagengnir menn í lögreglunni í Keflavík? Ekki hvað eru margir óskólagengnir. Verður lögreglubifreið staðsett í Grindavík á föstudags-og laugardagskvöldum? Ekki svara aftur á þann veg að menn verði settir á aukavakt . Það er vitað að á 7 manna vakt bætast venjulega við 2 um helgar. Spurningin er verður lögreglubíll í Grindavík um helgar. Það er hægt að biðja um margar fleirri spurningar en það bíður betri tíma. Það var gott að fá þennan fund til að hægt væri að sýna samstöðu Grindavíkinga. Ég velti því fyrir mér að lokum hvort ekki sé hægt að fara að vinna að því í rólegheitum að fara endanlega í sama farið og áður og hefja viðræður við þingmenn um færslu undir sýslumanninn í Hafnarfirði. Trúnaðarbrestur er algjör á milli Grindvíkinga og sýslumanns og ég segi eins og Jón Gröndal. Hvað næst? Gunnar Vilbergsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024