Borðaðu morgunmat eins og konungur
Fæðan er jafn mikilvæg fyrir líkama þinn og sálina og það eru sterk tengsl milli þess hvað þú setur ofan í þig og hvernig þér líður. Ekki vanrækja það að borða og hugsaðu vel um mataræði þitt. Lærðu að þekkja takmarkanir á því sem þú setur ofan í þig og hafðu gott jafnvægi á mataræði þínu. Þess vegna mæli ég með því að þú hafir máltíðir dagsins svona:
Borðaðu morgunmat eins og konungur, hádegisverð eins og keisari en kvöldmat eins og betlari! Umfram allt lifðu lífinu núna!
Vítamín eru ekki alltaf vítamín
Framboð af vítamínum og fæðubótarefnum hefur aukist mikið á síðustu árum og ég leyfi mér að segja að vítamín-markaðurinn er ekki viðráðanlegur lengur. Það verður að stíga varlega til jarðar þegar fólk er að kaupa sér hin ýmsu vítamín. Hvernig virka öll þessi efni á líkamann og hverju er varasamt að blanda saman? Ég hvet fólk ávallt til að leita traustra upplýsinga um vítamín og fæðubótarefni t.d. á Netinu. Það verður líka að gæta að skammtastærðum, því of stórir skammtar af vítamínum geta skaðað líkamann. Við megum ekki gleyma því að líkaminn okkar er ótrúlega duglegur að lækna sig sjálfur og þess vegna verðum við að gæta að því sem við setjum ofan í okkur svo líkaminn tapi ekki sjálfstæði sínu til að leiðrétta það sem miður fer. Við getum nefnilega verið fljót að gleyma okkur og áður en við vitum hefur líkaminn gefist upp.
Birgitta Jónsdóttir Klasen
heilsuráðgjöf.