Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bókun bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins: Ótrúverðug fjárhagsáætlun á kosningaári
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 18:39

Bókun bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins: Ótrúverðug fjárhagsáætlun á kosningaári

Fyrirliggjandi fjárhagsáætlun meirihluta Sjálfstæðismanna fyrir árið 2006 ber þess merki að sveitarstjórnakosningar fara fram næsta vor. Skattalækkanir, auknar niðurgreiðslur og aðrar aðgerðir, sem líklegar eru til þess að falla í góðan jarðveg hjá kjósendum, eru settar fram þrátt fyrir að sveitarfélagið sé nú þegar á meðal skuldugustu sveitarfélaga landsins og í mjög slæmri stöðu fjárhagslega samanborið við önnur sveitarfélög af svipaðri stærð.

Reynsla undanfarinna 3 ára hefur sýnt að lítið er að marka fjárhagsáætlanir meirihlutans. Niðurstaðan hefur iðulega orðið mun verri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir eins og dæmin hér fyrir neðan sýna:

Árið 2003
Niðurstaða bæjarsjóðs fyrir fjármagnsliði í upphaflegri áætlun: -3 milljónir
Raunveruleg niðurstaða skv. ársreikningi: -950 milljónir
Mismunur: -947 milljónir

Árið 2004
Niðurstaða bæjarsjóðs fyrir fjármagnsliði í upphaflegri áætlun: -75 milljónir
Raunveruleg niðurstaða skv. ársreikningi: -510 milljónir
Mismunur: -435 milljónir

Árið 2005
Niðurstaða bæjarsjóðs fyrir fjármagnsliði í upphaflegri áætlun: -143 milljónir
Raunveruleg niðurstaða (liggur fyrir í maí 2006): ??
Mismunur (liggur fyrir í maí 2006): ??

Árið 2006
Niðurstaða bæjarsjóðs fyrir fjármagnsliði í upphaflegri áætlun: -126 milljónir
Raunveruleg niðurstaða (liggur fyrir í maí 2007): - ??
Mismunur (liggur fyrir í maí 2007): - ??

Blekkingar og bókhaldsleikfimi
Nokkur umræða hefur verið um hvernig fara skuli með skuldbindingar vegna húsaleigusamninga í ársreikningum bæjarins. Meirihlutinn hefur ekki viljað líta svo á að þær beri að færa sem skuldir en undirritaður hefur sýnt fram á að þessar skuldbindingar eru í raun fjármögnunarsamningar sem fara skal með sem skuldir og eignir í efnahagsreikningi skv. reiknisskilareglum. Á fundi bæjarstjórnar þ. 16. nóv. sl. var þetta mál rætt. Í þeirrar umræðu sagði bæjarstjóri þó að kannski væri rétt að skoða málið einu sinni enn svo það virtist eitthvað aðeins vera rofa til. Sú skoðun á þó enn eftir að fara fram.

Þingmenn Sjálfstæðisflokkins skilja málið
Það er athyglisvert að skoða hvað þingmenn Sjálfstæðisflokkinn sögðu í umræðum um rekstrarleigusamninga á Alþingi fyrir nokkrum misserum. Þá sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Pétur Blöndal, m.a. þetta:
,,... ég sé engan mun á því hvort sveitarfélagið tekur lán og lofar að borga ákveðið af láninu og kaupa fyrir það ákveðna fasteign eða hvort það gerir kaupsamning eða samning um að greiða ákveðna upphæð á hverju einasta ári í kannski 20–30 ár af þessari sömu fasteign. Það er enginn munur þarna á og enginn eðlismunur. Þetta eru hvort tveggja skuldbinding á sveitarfélagið og þetta er dæmi um agaleysi ef þetta er ekki fært í reikningana sem slíkt, ekki bara sem skýring. Við megum ekki skattleggja börnin okkar með því að búa til einhverjar skuldbindingar sem ekki koma fram í ársreikningum sveitarfélaganna. Þau séu metin nákvæmlega eins og aðrar skuldbindingar, eins og önnur lán sem sveitarfélagið tekur.”

Gunnar Birgisson, þáverandi þingmaður en núverandi bæjarstjóri í Kópavogi, sagði í sömu umræðum:
,,Þetta eru greiðslur sem hlaupa ekki frá sveitarfélögunum þannig að ef tekjur sveitarfélagsins minnka, skatttekjur minnka eða eitthvað annað slíkt þá minnka þessar greiðslur ekki. Þetta er því mjög alvarlegt mál. Menn verða að hafa þetta alveg á kláru. Vonandi verður alltaf gósentíð í landinu eins og hefur verið núna undanfarin tíu ár. En það gæti einhvern tíma harðnað á dalnum og þá er þetta alvarlegt mál fyrir sveitarfélögin að vera bundin í klafa og báða skó í þessum málum en þau verða að geta staðið þetta af sér.”

Það er því greinilegt að túlkun undirritaðs á reglum reiknisskilanefndar sveitarfélaga er sú sama og hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Flokksbræður þeirra í meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar kjósa hins vegar að stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við staðreyndir.

Skuldir en ekki eignir
Það vakti líka athygli undirritaðs á íbúafundum sl. vor, þegar bornar voru saman skuldir 5 stærstu sveitarfélaga á Íslandi, til þess að sýna fram á að Reykjanesbær væri nú ekki svo illa staddur, var ekki minnst á hina hlið málsins; eignir þessara sömu sveitarfélaga. Hefði það verið gert hefði Reykjanesbær komið mun verr út úr samanburðinum og þar sem það hentaði ekki var því bara sleppt.

Vinnubrögð við fjárhagsáætlunargerð
Vinnubrögð við fjárhagsáætlunargerðina í ár lýsa valdhroka og yfirlætishætti meirihlutans. Minnihlutinn hefur aldrei fengið að sjá gögn frá forstöðumönnum stofnana og framkvæmdastjórum sviða. Samt er ætlast til að menn geti tekið afstöðu til þeirra. Þau hafa ekki einu sinni verið lögð fram í bæjarráði. Þar var fyrir 3 vikum birt tekjuáætlun sem samanstóð af 4 línum á blaði. Síðan voru helstu lykiltölur lagðar fram í bæjarráði sl.fimmtudag ásamt hluta af gjaldskrá sveitarfélagins en þó ekki allri. Í dag erum við að sjá alla gjaldskrána í fyrsta sinn en hún er þó mikilvæg forsenda tekjuáætlunar og eflaust tilbúin fyrir löngu síðan. Það virðist bara ekki vera áhugi fyrir því að draga minnihlutann að fjárhagsáætlunargerðinni. Þrátt fyrir að vinna við gerð fjárhagsáætlunar hafi staðið sem hæst í síðustu viku var fundi í bæjarráði aflýst vegna þess að það voru svo fá mál á dagskrá. Hefði ekki verið tilvalið að nota fundinn í að ræða þetta mikilvæga mál og fara ofan í saumana á fjárhagsáætlunum t.d. með því að gefa framkvæmdastjórum sviða tækifæri á að kynna áætlanir sinna sviða og stofnana, eins og gert var í fyrra?

Lokaorð
Það er óskandi að sá leikur sem leikinn hefur verið í fjármálum Reykjanesbæjar undanfarin ár, undir forystu bæjarstjórans, taki brátt enda og vonandi ber sveitarfélagið ekki varanlegan skaða af þeim glæfralegu vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið. Börnin okkar eiga betra skilið.

Kjartan Már Kjartansson
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024