Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Böðvari Jónssyni svarað
Föstudagur 27. mars 2009 kl. 14:18

Böðvari Jónssyni svarað

Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna, er  greinilega ekki par sáttur við sneið þá er ég sendi þeim sjálfstæðismönnum í grein minni hér í gær, og fer fram með miklum látum og segir mig láta að því liggja að sjálfstæðismenn standi ekki heilshugar á bak við framkvæmdina í Helguvík.

Nú ætti Böðvar Jónsson á öllum sínum langa stjórnmálaferli að hafa lært staldra við þegar slíkar sneiðar eru sendar og vega og meta um hvað þær fjalla og svara síðan málefnalega því sem að er beint telji hann ástæðu til þess.

Hin meinta sneið sem fer svo fyrir brjóstið á helsta talsmanni frjálshyggjunar í bæjarstjórn   snýr fyrst og fremst að því hvernig sjálfstæðismenn, nú komnir í minnihluta á Alþingi hafa hagað sínum málflutningi þar og misst sjónar af þeim málum sem nauðsynlegt er að leysa áður en þing fer heim. Fjárfestingarsamningurinn vegna álvers í Helguvík er eitt þeirra mála. Í því máli hafa sjálfstæðismenn ekki staðið á móti, en hins vegar hefur afgreiðsla þess dregist vegna þess sem á undan er gengið vegna þeirra aðferða sem þeir sjálfstæðismenn beittu er þeir hófu sína stjórnarandstöðu. Um það fjallar hin meinta sneið. Ef það að benda á þetta er það óskammfeilnasta sem ég hef gert í stjórnmálum, er víst tímabært fyrir mig að endurskoða aðkomu mína þar að.

Böðvar Jónsson dregur inn í umræðuna málefni Heilbrigðistofnunar Suðurnesja og talar um þau atvinnuskapandi tækifæri sem þar í leggja að mati þeirra Sjálfstæðismanna. Er þar væntanlega að tala um aðkomu Róberts Wessmann að rekstri skurstofanna.   Þar hinsvegar og sökum þess að Böðvar dregur það inn í umræðuna er full ástæða til að staldra við og fara yfir það mál  og hve vel Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vel með þeirri stofnun og baráttu þeirra fyrir rekstri HSS.

Þar hefur lítið heyrst frá þeim sjálfstæðismönnum, fyrr en nú að rekstur þeirrar stofnunar hefur verið tryggður út þetta ár að minnsta kosti, og það er ekki sjálfstæðismönnum að þakka, heldur fyrst og fremst starfsfólki HSS sem af fórnfýsi  hefur tekið á sig launalækkun til að tryggja þá þjónustu sem okkur ber. Þar hafa einnig komið að málum þau hollvinasamtök sem í gegnum áranna rás hafa styrkt rekstur HSS, auk núverandi heilbrigðisráðherra sem valdi þvert ofan í það sem fyrirrennari hans, sjálfstæðismaðurinn gerði, að hlusta á hverjar þarfir nærsamfélagsins væru. Þar hafa Böðvar Jónsson og sá meirihluti sem hann fer fyrir hvergi komið að málum, mér liggur við að segja þökk sé þeim.

Ólafur Thordersen
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Reykjanesbær


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024