Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Blómstrandi samfélag
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 13:55

Blómstrandi samfélag

Nú er fyrirsjáanleg töluverð íbúafjölgun í Sveitarfélaginu Vogum og gæti svo farið að á næstu tíu árum þrefaldist íbúafjöldinn. Það má því segja að samfélagið í Vogum sé í töluverðum blóma enda skiljanlegt að fólk hafi áhuga á að flytjast í Vogana þar sem hægt er að njóta kyrrðar og fegurðar steinsnar frá tveimur stærstu atvinnusvæðum landsins. Í vextinum felast bæði tækifæri og áskoranir. Við í E-listanum erum tilbúin að takast á við áskoranirnar og nýta okkur tækifærin íbúum til heilla.
Það þarf að gæta þess að innviðir samfélagsins vaxi samhliða íbúafjölgun svo að þjónusta við íbúa skerðist ekki. Það er einmitt það sem E-listinn mun gera og þegar höfum við sett okkur stefnu til næstu tíu ára hvað það varðar. Sú stefna snýr að stækkun grunnskóla, byggingu leikskóla, eflingu umhverfisdeildar og bæjarskrifstofu.

Það er mikilvægt að taka nýjum íbúum opnum örmum svo þeir geti notið þeirra kosta sem samfélagið okkar hefur uppá að bjóða. Fjölgun íbúa er kjörið tækifæri til að efla íþrótta- og menningarlíf. E-listinn hyggst taka vel á móti nýju fólki og færa þeim „lykil að Vogum“ sem yrði kynningarefni á samfélaginu okkar, þeim félagasamtökum sem þar starfa og afþreyingu sem í boði er. Við viljum að Vogar og Vatnsleysuströnd sé opið samfélag og að nýir íbúar sláist í lið með okkur og geri góðan bæ betri.
Við hvetjum fólk til að mæta á kjörstað á laugardaginn og nýta atkvæði sitt til að móta framtíðina með okkur.

Áshildur Linnet
3. sæti E-listanum í Sveitarfélaginu Vogum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024