Blómlegt mannlíf á Suðurnesjum og friðsamleg starfsemi í stað hernaðar
Landsfundur Vinsti hreyfingarinnar græns framboðs haldinn í Reykjavík 23. – 25. febrúar 2007 ályktar:
Við viljum ákvæði í stjórnarskrána sem kveður á um að Ísland standi utan hernaðarbandalaga og hér verði hvorki her né hernaðarumsvif. Við gerum þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands að hún lýsi því yfir að Íslendingar verði teknir af lista þeirra þjóða sem styðja innrás og hernám í Írak og að hætt verði þátttöku í hernámi Afganistans.
Við krefjumst þess að Miðnesheiði verði borgaralegt svæði en ekki haldið í gíslingu bandaríska hersins, Nató og Natóríkja. Keflavíkurflugvöllur verði skilgreindur sem flugvöllur fyrir borgaralegt flug en ekki herflugvöllur. Svæðið verði þegar í stað endurskipulagt í heild sinni til borgaralegra afnota og sveitarfélagamörk þess skilgreind.
Við krefjumst þess að allir samningar sem varða brotthvarf bandaríska hersins verði gerðir opinberir. Það sama á við um alla samninga um áframhaldandi notkun Keflavíkurflugvallar í hernaðarþágu sem gerðir hafa verið við bandaríska herinn, við Nató og Natóríki eða hugmyndir sem eru uppi um það.
Við viljum að Alþingi og ríkisstjórn segi upp herverndarsamningnum við Bandaríkin frá 1951 og að Ísland segi sig úr NATO og verði þannig ekki lengur aðili að vígbúnaðar- og kjarnorkuvopna-bandalagi sem stendur fyrir árásum og hernámi í fjarlægum löndum.
Við mótmælum eindregið hernaðarhyggju forystumanna Framsóknarflokksins, Samfylkingar-innar og Sjálfstæðisflokksins og ásetningi þeirra um að betla til landsins hernaðartól og hervald. Við viljum bann við heræfingum á Íslandi, og stingum upp á að Miðnesheiði, og Ísland allt, verði gert að vopnalausu svæði, með áherslu á friðarrannsóknir og friðun á náttúru.
Við krefjumst þess að ítarleg úttekt fari fram á mengun og umhverfisspjöllum af völdum hersetunnar og að bandaríska hernum og Nató verði þegar í stað gert að hreinsa allt vallarsvæðið og rífa og fjarlægja þær byggingar og mannvirki sem ekki nýtast til borgaralegra þarfa. Landssvæðinu verði skilað í sama ástandi og það var þegar herinn og Nató tóku það til hernaðarafnota, en að öðrum kosti verði hernum og Nató gert að greiða mengunarbætur fyrir öllum kostnaði við að koma svæðinu í sama horf. Við teljum rétt að stjórnvöld setji þessar kröfur tafarlaust fram.
Við leggum höfuðáherslu á að það þurfi að bregðast mjög skjótt við og nýta mannvirki og aðstöðu á Miðnesheiði sem liggja nú undir skemmdum. Við viljum að þar verði margþætt starfsemi:
1 Friðarmiðstöð með aðstöðu til alþjóðlegra friðarrannsókna
2 Miðstöð eldfjallagarðs fyrir ferðamenn og vísindamenn.
3 Háskólasamfélag með alþjóðlegum listaháskóla, aðstöðu til listköpunar og leiguhúsnæði fyrir námsmenn með tíðum stætisvagnaferðum til höfuðborgarinnar.
4 Miðstöð ferðaþjónustu og flugsamganga til og frá Íslandi og um Ísland, miðstöð lággjaldaflugfélaga og alþjóðleg vöruflutningamiðstöð tengd flugvellinum og Helguvíkurhöfn.
5 Miðstöð smáríkjastofnunar Sameinuðu þjóðanna
6 Björgunarstöð fyrir N-Atlantshaf sem Landhelgisgæslan, björgunarsveitir og alþjóðlegur björgunarskóli verði hluti af.
7 Fullkomið sjúkrahús tengt flugvellinum og björgunarstöðinni.
8 Starfsaðstaða fyrir fyrirtæki í þekkingar- og hátækniðnaði.
Tillöguna lögðu fram: Atli Gíslason, Ragnheiður Eiríksdóttir, Hólmar Tryggvason, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Agnar Sigurbjörnsson, Karl G. Sigurbergsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórunn Friðriksdóttir og Anna Björg Þormóðsdóttir. Hún var efnislega samþykkt á landsfundinum og vísað til flokksstjórnar og svæðisfélagsins til áframhaldandi vinnu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá VG til Víkurfrétta.