Blinduð valdafíkn
– Starkaður Barkarson skrifar
Í hátt í áratug starfaði ég við Vinnuskóla Reykjanesbæjar, fyrst sem flokkstjóri en síðar sem yfirflokkstjóri. Yfir höfuð voru þetta góð ár enda ungmennin suður með sjó upp til hópa frábært fólk. Þó man ég eftir mikilli reiði og pirringi eitt sumarið þegar alls óreyndur einstaklingur var ráðinn sem yfirflokkstjóri, þvert á allar venjur sem gerður ráð fyrir að viðkomandi hefði starfað og sannað sig sem flokkstjóri. Fyrir vikið varð álagið á okkur hinum meira. Við vorum nógu gömul til að sjá að hér var verið að hygla manni með réttar skoðanir og í réttum flokki og vildum láta heyra í okkur. En við gugnuðum á því. Næsta ár var viðkomandi gerður að skólastjóra vinnuskólans, staða sem óx mjög hratt úr sumarstarfi í ágætlega launað heilsársstarf. Viðkomandi hefur starfað hjá bænum síðan en er einnig virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins, m.a. við að gera lítið úr Styrmi Barkarsyni sem hefur vogað sér að gagnrýna stjórn bæjarins.
Ég rifja upp þessa sögu því ég tel hana því miður endurspegla stöðuna í Reykjanesbæ. Sjálfstæðisflokkurinn hefur raðað sínum mönnum í kringum sig, mönnum sem voga sér ekki að gagnrýna neitt í stefnu flokksins og eru boðnir og búnir að rægja og níða þá sem voga sér að tala gegn valdhöfunum. Þessi saga sýnir einnig hvernig meðvirknin leikur lítil samfélög. Of mikil nánd ríkir milli fólks til að það þori að stinga á kýlum. Það var mín synd.
Því fylltist ég stolti þegar bróðir minn, Styrmir Barkarson, hóf að benda á ýmislegt sem betur mætti fara í stjórn bæjarins. En viðbrögðin létu ekki á sér standa. Kona bæjarstjórans fær birta grein í því sem er augljóslega málgagn Sjálfstæðisflokksins, Víkurfréttum, og úthúðar Styrmi sem netníðingi. Hafnarstjórinn skrifar því næst grein í sama málgagn og ásakar hann um að hafa meðvitað reynt að eyðileggja fyrir bænum með því að efast um hreinlæti hafnarinnar og afhendingu bláfánans rétt fyrir kosningar (sumir halda því jafnvel fram að hann hafi persónulega létt á sér í höfnina). Því næst bregður Kolfinna Magnúsdóttir, sjálfstæðiskona, fyrir sig blæju kristindómsins og þykist ansi hreint sorgmædd yfir ljótum skrifum Styrmis um það góða fólk sem fórnar sér fyrir bæjarbúana. Ekkert þeirra sem gagnrýna Styrmi fyrir þessi ljótu skrif hans virðast hafa lesið þau, alla vega hafa þau ekki fært nein rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að um níðskrif sé að ræða.
Ég ákvað að lesa yfir bloggið hans Styrmis til að fá skýra mynd af því sem þar segir og að finna hið mikla níð sem þar hlyti að leynast. Þetta eru umfjöllunarefni hans:
Hann lýsir yfir stuðningi við Gunnar Þórarinsson sem bauð sig fram í oddvitasæti lista sjálfstæðisflokksins og telur tími kominn á nýjan oddvita flokksins. Í framhaldi fjallar hann um það hvernig Gunnari var bolað úr flokknum.
Hann fjallar um tómu húsin í Reykjanesbæ.
Hann fjallar um milljónagjaldþrot fyrirtækis í eigu Böðvars Jónssonar, forseta bæjarstjórnar, og rifjar upp aðkomu hans að viðskiptum við bæinn sem hljóta að teljast á gráu, ef ekki kosvörtu, svæði. Nokkuð sem les má um í fjölmiðlum.
Hann bendir á að vandræðalegar færslur hafi horfið af Fascebook síðu bæjarins.
Hann bendir á fjármagnsaustur til að prýða bæjarskrifstofur, gera vel við bæjarstjórnarmenn á meðan skólarnir sitji á hakanum.
Hann telur Sjálfstæðisflokkinn misnota aðstöðu sína þegar skyndilega var farið að dreifa graut í grunnskólum Reykjanesbæjar, rétt fyrir kosningar og talar um einvaldstilburði bæjartjóra og augljósar kosningabrellur.
Hann bendir á að skoðanakönnun, sem birtist í VF og sýndi óvenju mikinn styrk Sjálfstæðisflokksins, hafi verið keypt af Sjálfstæðifélagi í Reykjanesbæ og að úrtakið hafi verið ansi lágt.
Hann bendir á að Víkurfréttir sé málgagn Sjálfstæðisflokksins.
Ef bæjarbúi má ekki tjá sig um viðlíka mál án þess að valdhafar kveiki á flokksmaskínu sinni þá er illa komið fyrir því bæjarfélagi sem ól mig upp og svo sannarlega kominn tími á að aðrir taki við stjórninni og leyfi þeim einstaklingum sem hafa smitast og blindast af valdafíkn að stíga niður og hugsa sinn gang.
Starkaður Barkarson