Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 15. febrúar 2001 kl. 22:00

Blinda auga Jóhanns Geirdal

Þegar liðsmaður hættir að hafa heildaryfirsýn….Jóhann Geirdal, oddviti Samfylkingarinnar (núverandi samheiti yfir vinstrimenn) í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ritar grein í Morgunblaðið 14.02 s.l. og fjallar um samsærið mikla gegn honum einum í umfjöllun um Reykjaneshöllina. Skal sannleikurinn dregin fram í dagsljósið hvað sem það kostar. Gott hefði verið að sannleiksgleraugun hefðu verið á nefinu þegar blað Samfylkingarinnar var gefið út fyrir síðustu jól.

…á vellinum öllum…
Lýsing Jóhanns á efnislegum þáttum málsins eru að stæðstum hluta rétt. Þó var krafan um að löggiltur endurskoðandi færi yfir fjárreiður Reykjaneshallarinnar augljóslega ásökun um að misjafnlega væri farið með fjármuni á þeim stað. Flestir hefðu kannað í fyrstu hverju sætti þessum mun á tekjum og uppgefnum útleigðum tímum í húsinu áður en starfsmaður sveitarfélagsins var sakaður um að hafa rangt við hvað varðar fjárreiður sveitarfélagsins. Það er hins vegar lýsandi dæmi fyrir vinnubrögð minnihlutans að skjóta fyrst en spyrja svo.
Áhugavert er að oddviti minnihlutans hefur minni áhuga á að vita hvers vegna fjöldi iðkenda í húsinu var aðeins sagður 14.000.- þegar hið rétta var um 34.000.-. Ekki gerir hann athugasemdir við það.

…og sér aðeins einn þátt…
Hitt er hins vegar öllu skemmtilegra en það er samsæriskenning Jóhanns þar sem bæjarstjóri, a.m.k. þrír aðrir starfsmenn bæjarins, Víkurfréttir, og Suðurnesjafréttir (fyrir nokkrum árum hefðu herinn og Nató verið þátttakendur í samsærinu) vinna sameiginlega að því að leyna upplýsingum um “…það er sannara reynist” í Reykjaneshöllinni. Líklega er það þó bara svo, Jóhann Geirdal, að engum nema þér finnst málið áhugavert eða fréttnæmt.

…í leikskipulagi andstæðingsins…
Vissulega er það slæmt að upplýsingar sem lagðar voru fram væru rangar, - en þær voru leiðréttar innan við mánuði síðar þar sem m.a. var yfirlýsing frá framleiðanda tölvukerfisins um að útreikningur í kerfinu gæfi ranga heildarniðurstöðu. Leiðrétta niðurstöðu hefði oddviti minnihlutans getað fengið án þess að saka starfsmenn sveitarfélagsins ýmist um lygi, misferli eða lélega yfirsýn yfir starfssvið sitt.

…skal leggja skóna á hilluna.
Nú er liðið rúmt ár síðan Reykjaneshöllin var opnuð. Almenn ánægja er með tilkomu hennar og hefur hún verið þétt setin og mikið notuð. Neikvæður áhugi minnihlutans á höllinni hefur hins vegar verið með ólíkindum og er hún enn eitt helsta umræðuefni þeirra í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Af gefnu tilefni er því rétt að benda á að þegar menn hætta að hafa heildaryfirsýn yfir rekstur fyrirtækisins og einblína á einn rekstrarþátt, þegar ofsóknaræði grípur menn og telja alla vinna gegn sér, þegar fjölmiðlar, starfsmenn og aðrir sem að máli koma hafa ekki áhuga á sömu málum og oddviti minnihlutans, er kominn tími til að snúa sér að öðrum verkefnum.

Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024