Blettaskoðun á húð á Suðurnesjum
Krabbameinsfélag Suðurnesja og Helga Hrönn Þórhallsdóttir húðsjúkdómalæknir bjóða þeim sem hafa áhyggjur af blettum á húð að koma í blettaskoðun án endurgjalds á lækningastofuna að Hringbraut 99 í Keflavík sunnudaginn 11. maí. Metið verður hvort ástæða er til frekari aðgerða. Þeir sem vilja þiggja þetta boð þurfa að panta tíma í síma 4217575. Þessi þjónusta hefur verið veitt hér undanfarin ár og er góð reynsla af þessu starfi og dæmi um að mjög varhugaverðar breytingar hafi fundist.Tíðni húðkrabbameins hefur aukist hér á landi á síðari árum. Því er mikilvægt að fólk láti skoða bletti hjá lækni ef fram koma breytingar svo sem stækkun, breytingar á lögun og lit og myndun sára sem gróa illa. Fræðslurit um sólböð, sólvarnir og húðkrabbamein liggja frammi á heilsugæslustöðvum og í apótekum.