Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Blái hnefinn
Miðvikudagur 2. maí 2007 kl. 23:26

Blái hnefinn

Miðað við skoðanakannanir ætla um fjörtíu prósent íbúa í suðurkjördæmi að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir algert aðgerðarleysi í samgöngumálum í 16 ár. Það er makalaust. Svo virðist sem stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins líti fremur á pólitík sem keppni í íþróttum frekar en spurningu um lífskjör alls almennings næstu fjögur árin. Sú fullyrðing er enda sönn að Sjálfstæðisflokkurinn er fyrst og fremst hreyfing fólks sem hefur ekki skoðun á stjórnmálum, aðra en að Flokkurinn sé bestur.
Haldi Sjálfstæðismenn áfram að stjórna verður ekkert gert í samgöngumálum kjördæmisins næstu fjögur árin. Þeir hafa leikið þann leik ítrekað að lofa öllu fögru; framkvæmdum og lífskjarabótum fyrir kosningar en draga svo þau loforð til baka á innan við ári frá kosningum. Útrétt blá höndin kreppist í hnefa á nokkrum mánuðum. 

Ótrúleg afrekaskrá
Afrekaskráin er ótrúleg sé hún tekin saman yfir undanfarin ár. Salan á Búnaðarbanka, Landsbanka, Landssímanum og Íslenskum Aðalverktökum til einkavina undir kostnaðarverði. Þúsundir einstaklinga eru á biðlistum í heilbrigðiskerfinu, gamla fólkið er hlunnfarið, geðfötluð börn fá ekki greiningu og meðferð, ríkið stendur í ítrekuðum málaferlum við öryrkja. Loforð í samgöngumálum hafa verið svikin, gegndarlaus stóriðja hefur leitt af sér þennslu og verðbólgu, fólki fækkar á landsbyggðinni, bændur bregða búi og hæstu vextir og matvælaverð í Evrópu eru viðtekin sannindi. Stuðningurinn við Íraksstríðið, fjölmiðlalögin og klúðrið í varnarmálum virðist ekki vefjast fyrir kjósendum Sjálfstæðisflokksins. Ef þið kjósið Samfylkinguna .þá fer herinn, sögðu Sjálstæðismenn við kjósendur á Suðurnesjum fyrir síðustu kosningar! Hver er aftur staðan núna? Þeir hafa skipað frændur og einkavini í hæstarétt sem svo taka létt á olíubarónum sem svindluðu á almenningi um árabil. Þeir stóðu fyrir Baugsmálinu, þeir brutu jafnréttislög og sögðu þau barn síns tíma. Þeir bera ábyrgð á Byrgismálinu.

Ábyrgur valkostur
Ég skora á þá sem eru að gefa sig upp í stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum að yfirgefa hriplekt skip Sjálfstæðisflokksins og kjósa á kjördag eitthvað sem gerir meira gagn. Ég vil benda ykkur á að Samfylkingin er ábyrgur valkostur sem ekki hefur fengið að reyna sig við stjórn landsins.  Samfylkingin er lýðræðis- og umbótaflokkur sem berst fyrir neytendur og bætt velferðarkerfi. Hún berst fyrir almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum. Hún skilur réttlætishugtakið. Hún er með jákvæða stefnu í málefnum fjölskyldunnar, heimilanna, fólksins í landinu. Hún er friðarsinnuð, hún er alþjóðasinnuð. Hún er jafnaðarflokkur. Hún er allt það sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki. Við ætlum að hrinda í framkvæmd stórátaki í samgöngumálum í Suðurkjördæmi. Það er loforð og við munum standa við það.

Róbert Marshall
Skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.  
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024