Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Björgvin segir af sér. Hvað svo?
Sunnudagur 25. janúar 2009 kl. 14:24

Björgvin segir af sér. Hvað svo?

Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar í okkar kjördæmi og viðskipta-og bankamálaráðherra hefur beðist lausnar frá embætti sínu. Til að skapa traust þurfi þeir sem voru í forustu þegar bankakrísan varð að víkja, svo aðrir geti komist að við enduruppbygginguna, sagði Björgvin, þegar hann sagði af sér í morgun. Betra seint en aldrei. 
Á blaðamannafundinum kom fram að hann muni óska eftir endurnýjuðu umboði til að leiða lista Samfylkingarinnar í kosningunum í vor og kemst þar með í mótsögn við sjálfan sig. Ef hann vill í raun að aðrir komi að endurreisninni, verður að endurnýja lista Samfylkingarinnar. Aðrir einstaklingar verða að leitast eftir að bera ábyrgð á endurreisninni en þeir sem með andvaraleysi sínu og gáleysi gerðu það mögulegt að hér hrundi allt að grunni. M.ö.o. aðrir en hann verða að koma að þeirri uppbyggingu ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur og trúverðugur.
Þegar á það var bent strax í október-nóvember að Björgvin ætti að axla ábyrgð, m.a. á fundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, tók hann ekki frumkvæðið, hvorki varðandi sjálfan sig né Fjármálaeftirlitið. Hann og Róbert Marshall, varaþingmaður, lögðust þá eindregið gegn slíkum sjónarmiðum, töldu þau af og frá. En hver vegna bregst Björgvin við núna? Er það til að bjarga ríkisstjórninni eða sínum eigin pólitíska ferli? Það er ljóst að ríkisstjórnin nýtur ekki trausts, ný ríkisstjórn verður að sækja umboð sitt í kosningum í vor. Núverandi ríkisstjórn verður ekki bjargað, það er öllum ljóst. Það að Björgvin segi nú af sér hefur þess vegna ekkert með það að gera að axla ábyrgð, til þess kemur afsögnin of seint. Björgvin áttar sig hins vegar á því að ef hann ætlar sér áfram hlutverk í pólitík, verður hann að koma til móts við óskir fólksins. Gerir hann það núna? Já, hann gefst upp fyrir kröfum fólksins, hann nánast hrökklast loksins frá völdum. En dugar það honum til ábyrgðar á nýjan hátt? Vill Samfylkingin í Suðurkjördæmi að hann leiði flokkinn áfram í vor?
Skúli Thoroddsen, Keflavík.
Höfundur er í Samfylkingunni
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024