Björgvin í fyrsta sæti
Samþykkt kjördæmisráðs Samfylkingar á Suðurlandi frá í gær eru mikil og góð tíðindi. Þar hefur kjördæmisráðið tekið af skarið og sagt að jafnrétttis kynja skyldi gætt hvað varðar röðun á lista þess í kjördæminu. Fyrir okkur á Suðurnesjum er þetta tækifæri sem ber að nýta. Nú þurfum við að standa sameinuð að því að velja okkur frambjóðendur á þann lista, sem ljóst er að séu tilbúnir og hafi þann gegnumslagskraft til að standa vörð um hagsmuni okkar.
Bæði þurfum við að hugsa um að standa vörð um þá fulltrúa sem reynsluna hafa og jafnframt að velja okkur inn nýja sem ljóst er að staðið geti undir því trausti sem á þá er lagt. Við þurfum þingmenn sem við getum treyst að tilbúnir séu til að standa að baki jafnaðarstefnunni.
Þær kosningar sem framundan er, verða uppgjör við liðna tíma. Uppgjör við stefnur og gildi sem við höfum nú séð afleiðingarnar af. Sú taumlausa frjálshyggju og einkavæðingarstefna sem hér hefur verið fylgt hefur svipað og kommúnisminn hefur nú beðið sitt skipbrot, og ljóst að stefna jafnaðar og félagshyggju verður sú sem treyst verður á við endurbyggingu samfélagsins.
Við val á þeim þingmönnum sem við hyggjumst kjósa okkur í næstu kosningum ber okkur að hafa í huga, að framundan eru margar erfiðar ákvaraðnir sem þarf að taka. Þau okkar sem hyggjast kjósa í því prófkjöri Samfylkingar sem er framundan, þurfum nú að gera upp huga okkar hver það verður sem sem leiðir þann lista. Þar verðum við að velja þann mann eða konu sem í okkar huga er fremstur á meðal jafningja. Enn hafa ekki aðrir en Björgvin G Sigurðsson boðið sig fram á fyrsta sæti þess lista, hvað sem síðar kann að verða.
Björgvin G Sigurðsson hefur sýnt á undanförnum mánuðum að þar fer maður sem ekki er hræddur að takast á við þau verkefni sem fyrir liggja, og hann hefur í öllum sínum gjörðum og greinum sýnt að þar fer maður sem hægt er að treysta að standi fastur að baki skoðunum sínum og þeim gildum er hann boðar.
Hann hefur sem þingmaður Suðurlands og Suðurnesja sýnt hvar hans hjarta slær, og sýnt það meðal annars í harðfylgni sinni hvað varðar málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Álvers í Helguvík. Þar hefur hann ekki flíkað framgöngu sinni frekar en í öðrum málum sem hann hefur komið að, heldur látið verkin tala. Það vita þeir er fylgst hafa með.
Björgvin G Sigurðsson er í mínum huga sá stjórnmálamaður sem hvað sterkastur hefur komið út úr ölduróti síðustu mánaða. Hann stóð á meðan stætt var með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, en tók líka ábyrgðina þegar honum var ljóst að einhver þyrfti að taka af skarið. Hann hefur ákveðið að leggja gjarðir sínar í hendur kjósenda og sækja sér umboð að nýju til áframhaldandi góðra verka. Sú reynsla sem hann nú hefur öðlast og aðkoma hans að þeim verkefnum sem að Suðurnesjum snúa eru í mínum huga þess eðlis að óhætt er að segja að þar fari sá maður sem best er til þess fallinn að fara fyrir lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Hann hefur hagi heildarinnar að leiðarljósi.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson
íbúi í Reykjanesbæ