Björgvin til forystu
Framundan eru tímar breytinga, það þarf að byggja upp orðspor þjóðarinnar og skapa á ný aukin fjölbreytt atvinnutækifæri og standa vörð um þau sem nú bjóðast. Það er nú á valdi okkar íbúa landsins að velja okkur þá fulltrúa á Alþingi sem við treystum til að leiða þær breytingar sem framundan eru.
Þar þurfa að veljast í bland stjórnmálamenn með reynslu og nýjar raddir sem í sameiningu hafa þann kraft sem nauðsynlegur er til að breytingar geti átt sér stað. Þingmenn sem ekki hræðast að hlusta eftir röddum kjósenda sinna og leggja verk sín í þeirra dóm ef því er að skipta. Þingmann eins og Björgvin G. Sigurðsson sem ákvað að segja af sér starfi sínu, axla þá pólitísku ábyrgð sem honum bar, og sækja á ný umboð sitt til kjósenda. Hann mun fá mitt umboð á nýjan leik.
Á skömmum tíma hefur Björgvin G Sigurðsson öðlast reynslu sem þingmaður og ráðherra á erfiðustu tímum sem þjóðin hefur þurft að ganga í gegnum. Á tíma þar sem flestir skyldu halda að það væri ærið starf að stýra skipinu út úr þeim ölduskafla sem þjóðarskútan lenti í , þó menn væru ekki samhliða að hringja út í kjördæmi sitt til að athuga hvernig málin gengju fyrir sig þar.
Fyrir mig sem sveitarstjórnarmann sem inn á milli þurfti að fá upplýsingar og ráðleggingar á þessum tíma, kom það mér mjög á óvart hve vel Björgvin virtist vera inni í hverju því máli sem undir hann var borið, hvort heldur það var Álver í Helguvík, málefni HSS eða önnur mál sem til umræðu voru rétt eftir hrunið. Ef hann svaraði ekki samstundis, brást það ekki að að kallinu var svarað, þó vel væri komið fram yfir miðnætti og ég náttúrulega löngu sofnaður. Hann hélt allan tímann puttanum á púlsinum.
Til þess að jafnréttis sé gætt og sjónarmið allra í Suðurkjördæmi nái fram að ganga verður sá listi sem við Samfylkingarmenn bjóðum fram að endurspegla allt kjördæmið og að til forystu veljist maður með reynslu. Þar tel ég Björgvin G Sigurðsson fari fremstur meðal jafningja. Ég styð hann í 1.sæti á lista og Oddnýju G Harðardóttur bæjarstjóra í Garði í 2.sæti í því prófkjöri Samfylkingarsem fram mun fara dagana 5.-7. mars og skora á sem flesta að gera slíkt hið sama. Það tel ég vera góða blöndu reynslu og nýrra radda.
Prófkjörið verðu opið öllum frá og með 5. mars og slóðin er http://www.samfylking.is
Með bestu kveðju
Ólafur Thordersen