Björgunarsveitir og íþróttafélög skína skært
Árið 2011 er nú að renna sitt skeið á enda og eins og ætíð fara síðustu dagar ársins í uppgjör, fjölmiðlar rifja upp helstu atvik þess og svo kveðjum við það með miklum skothvellum um leið og við fögnum nýju ári sem vonandi verður sem flestum hamingjuríkt.
Tíðin veðurfarslega séð hefur verið óvanalega erfið síðustu vikur ársins og fréttir bárust af því að björgunarsveitarmenn hafi í sumum bæjarfélögum verið við störf um jólahátíðina. Björgunarsveitirnar eru í mikilli umræðu á milli jóla og nýárs því þá takast þær á við eitt stærsta verkefni þeirra sem er flugeldasala. Það má segja að það sé svolítið öfugsnúið að björgunarsveitir þurfi í rekstri sínum að stóla á sölu á flugeldum og því dúndreríi sem fylgir áramótum því ekki er þetta hættulaust dót. Þrátt fyrir fræðslu og forvarnir því samfara verður ekki hjá því komist að óhöpp verða vegna notkunar á þessum varningi, eins skemmtilegur og hann er fyrir marga. Þetta leiðir hugann að því hvers vegna í ósköpunum björgunarstarf á Íslandi þurfi að treysta á þennan þátt því öll erum við jú sammála um mikilvægi þess að björgunarsveitir séu til staðar og hafi græjur og þann tækjakost sem nauðsynlegur er. Fólkið sem þar leggur jafnvel líf sitt í hættu fyrir okkur hin, fer í útköll á hvaða tímum sem er og gerir þetta allt í sjálfboðavinnu. Er ekki kominn tími til að ríkisvaldið láti hluta af okkar skattfé renna í þennan þátt svo björgunarsveitir þurfi ekki algerlega að treysta á flugeldasölu? Síðan er spurning hvort björgunarsveitirnar geti ekki fundið fleiri leiðir til að styrkja tekjustofn sinn. Það gæti t.d. verið gott verkefni fyrir fólkið í háskólum landsins sem er að læra markaðsfræði, að finna nýjar tekjuleiðir.
Ekki er ætlunin í þessum pistli að tala niður sölu á flugeldum því margar íþróttadeildir stóla einnig á þessa sölu. Þá kemur upp umræða um það hvort fólk eigi að kaupa flugeldana sína af sínu félagi sem sinnir íþróttastarfi og er ekki síður mikilvægur þáttur í okkar samfélagi. Við vitum öll að íþróttir eru taldar gríðarlega mikilvægar í uppeldi barna og unglinga og ein besta forvörn í baráttunni við ýmis konar óreglu sem kostar samfélagið stórfé. Þetta verður hver og einn að eiga við sig þegar hann fer og kaupir sinn fjölskylduskotpakka. Og svo kemur upp sú spurning hvort fara ætti alla leið í okkar frjálsa landi að leyfa eingöngu aðilum sem sinna björgunarstörfum eða íþróttamálum að selja flugelda?
Hvernig sem flugeldasalan fer þá er ljóst að bæði björgunarsveitir og íþróttafélög þurfa á stuðningi að halda til að sinna sínum mikilvægu störfum. Höfum það í huga þegar við kveðjum gamla árið og fögnum nýju.
Gleðilegt nýtt ár, þökkum góðar stundir á því gamla með von um að okkur bíði björt framtíð og góðir tímar.