Bjóða Suðurnesjamönnum á fjármálanámskeið
Útibú Arion banka í Hafnarfirði heldur fjármálanámskeið um mikilvægi markmiða í fjármálum heimilisins í Hafnarborg þann 14. apríl kl. 20.00.
Útibú Arion banka, Fjarðargötu 13-15 býður Suðurnesjamenn velkomna á fjármálanámskeið um mikilvægi markmiða í fjármálum heimilisins. Námskeiðið verður haldið í Hafnarborg miðvikudaginn 14. apríl.
Tilgangurinn með námskeiðinu er að kynna mikilvægi þess að hafa yfirsýn yfir fjármál heimilisins og að sett séu markmið í rekstri þess. Nú þegar þrengir að í fjármálum heimilanna er það enn mikilvægara en áður. Það er t.d. mikilvægt fyrir ungt fólk sem er að stofna heimili og þá sem eru að hætta að vinna og þurfa að bregðast við breyttum tekjum. Einföld fjárhagsáætlun er gott hjálpartæki sem gefur yfirsýn og bætir stjórnun á ráðstöfun tekna. Þá er nauðsynlegt að gera ráðstafanir í tíma til að mæta stórum útgjaldaliðum.
Með námskeiðinu viljum við aðstoða fólk við gerð fjárhagsáætlana og sérstaklega alla þá sem ekki byrjaðir að sinna þessum þætti í heimilisfjármálum. Á námskeiðinu verða jafnframt kynntar nokkrar sparnaðarleiðir fyrir heimilin.
Það hefur sýnt sig að þeir sem hafa góða stjórn á fjármálum sínum uppskera og geta leyft sér meira en þeir sem huga ekki nógu vel að þessum mikilvæga þætti. Þetta er því án efa spurning um aukin lífsgæði.
Við hvetjum alla til að mæta í Hafnarborg þann 14. apríl kl. 20.00 og njóta léttra veitinga í bland við fróðleik sem kemur sér vel. Hægt er að skrá sig á námskeiðið á heimasíðu bankans - arionbanki.is eða í síma 444-7000. Einnig er hægt að skrá sig í útibúinu í Fjarðargötu 13-15 sem er opið alla virka daga frá kl. 9-16.
Námskeiðið er ókeypis og öllum opið.
Mynd: Rúnar Gíslason útibússtjóri (t.h.) og Jóhanna Reynisdóttir aðstoðarútibússtjóri Arionbanka í Hafnarfirði.