Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Biskupskosning
Föstudagur 2. mars 2012 kl. 14:42

Biskupskosning


„Nú, ertu tengdur við Suðurnesin? Það skiptir nú máli í biskupskjörinu.“ Þetta fékk ég að heyra þegar tilkynnt var, að ég gæfi kost á mér í kjöri til biskups. Raunar held ég að ættfræði eða fjölskyldubakgrunnur muni ekki skera úr um hvernig menn greiða atkvæði. Ást til kirkjunnar og mat á þörfum hennar mun ráða meiru um hvar x-ið lendir á atkvæðaseðlinum. En héraðstengingar skemma sjaldnast og eru skemmtilegar.


En konan mín Elín Sigrún Jónsdóttir, lögfræðingur, er fædd í Keflavík og alin upp í Sandgerði. Foreldrar hennar voru hjónin Magnea Dóra Magnúsdóttir og Jón Kr. Jónsson, sem var útgerðarstjóri hf. Miðnes í Sandgerði. Við hjónin njótum tengsla fjölskyldunnar við Suðurnesin. Og það er ekki tilviljun að mynd af Hvalsneskirkju prýðir forsíðu nýrrar bókar, Limits and Life, sem ég var að gefa út erlendis í þessum mánuði og Amazon selur.


Þjóðkirkjan er á tímamótum og nú verða brátt biskupaskipti. Mér er í mun að efla kirkjustarf í þágu barna og ungmenna, tryggja fjárhag sókna og hlúa að prestum og starfsfólki kirkjunnar. Ég hef verið prestur bæði í sveit og borg. Ég lærði guðfræði í Reykjavík, Oslo og Nashville, var rektor Skálholtsskóla, fræðari á Þingvöllum og síðan verkefnisstjóri safnaðaruppbyggingar þjóðkirkjunnar og guðfræði og þjóðmála á biskupsstofu. Síðustu ár hef ég þjónað sem prestur í Neskirkju í Reykjavík. Fyrir þau sem vilja fræðast nánar um nám, persónuhagi og fyrri störf vil ég benda á heimasíðu mína: www.sigurdurarni.is 


Biskupskosningin framundan verður með öðru móti en allar kosningar biskupa hingað til. Nú eru það ekki prestarnir einir sem velja prest prestanna. Stærsti hluti kjörmana eru formenn sóknarnefnda og 23 kjörmenn eru á Suðurnesjum. Þjóðkirkjan er að breytast og fleirum er gefinn kostur á að hafa áhrif á stjórn hennar. Mörgum kjörmönnum þykir ábyrgðin mikil. Ég óska þeim til hamingju með kosningaréttinn og hvet þau til að nýta sér hann og kjósa rétt og vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurður Árni Þórðarson.