Aðsent

Föstudagur 2. nóvember 2018 kl. 06:00

Bílstjórinn

Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar eru um Reykjanesbrautina

Var á ferðalagi með góðum vinum þar sem aka þurfti um langan veg. Í slíkum ferðum er nauðsynlegt að allir hafi hlutverk. Ökumaðurinn er sá sem situr við stýrið. Bílstjórinn er í farþegasætinu frammí. Hans hlutverk að sjá um að ökumaðurinn sé ekki truflaður við aksturinn og allt sem máli skiptir svo ferðin gangi sem best s.s.tónlist, vegvísun ofl. Farþegar afturí hafa hin ýmsu hlutverk eftir því sem hentar hverju sinni, sjá um mat, aðstoða bílstjórann og almennt eftirlit með akstri.

Bílstjórinn sem ég hafði í þessari ferð var óvanur. Oftast var hann grjótsofandi við  hliðina á mér, hraut þegar best lét, spilaði leiðinlega tónlist og veitti rangar upplýsingar við vegvísun. Á einum tímapunkti reif hann upp bók og fór að lesa. Samningatækni. Þar sem ég hafði aðeins lesið yfir honum um hversu illa hann sinnti hlutverki bílstjóra óskaði hann eftir að fá að lesa uppúr bókinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Þú átt aldrei að taka fyrsta tilboði í viðskiptum. Sá sem selur verður svekktur því hann verður viss um að hann hefði getað látið þig borga meira. Fer að spyrja sjálfan sig af hverju bað ég bara um 1.000 krónur, ef ég hefði getað fengið 1.200. Ef þú sem kaupandi hefðir boðið 800 krónur í vöruna þar sem seljandinn bað um 1.000 hefði hann að öllum líkindum komið með gagntilboð uppá 900 kr.og báðir hefðu farið glaðari heim. Hann fyrir að hafa náð 900 en ekki 800 og þú fyrir að hafa borgað 900 en ekki 1.000.“

Við aksturinn sem var á beinum og breiðum vegi varð mér hugsað til Reykjanesbrautarinnar. Ríkisvaldið ætlar að klára tvöföldun árið 2033. Stopp - hópurinn berst á móti og heimtar framkvæmdir strax. Allir verða glaðir ef framkvæmdum lýkur árið 2026.

Er það ásættanlegt?