Bílasmiðja fyrir ungt fólk í Grófinni
BG Bílakringlan ehf. vinnur að því að setja á laggirnar bílasmiðju þar sem ungu fólki gefst tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða áframhaldandi nám, í anda Fjölsmiðjunnar. Brotthvarf úr framhaldsnámi er vandi og ungir piltar hverfa frekar frá námi en stúlkur. Þegar rætt er við unga menn til að finna ástæður brotthvarfs kemur í ljós að algeng svör eru: „Til að eignast kærustu þurfi að eiga bíl, til að eiga bíl þurfi að vinna svo skólinn verður ekki lengur í fyrsta sæti“. Mikið af ungu fólki (piltum) er atvinnulaust og mikil forvörn falin í því að virkja kraft þessa fólks og nálgast þau á þeirra áhugasviði.
Þar sem hugmyndin hefur verið kynnt, hjá bæjaryfirvöldum og á Vinnumálastofnun hefur hún fengið góðan hljómgrunn.
Verkefnið er þarft og sérstaklega á tímum sem þessum þar sem afar mikilvægt er að halda utan um unga fólkið okkar og vinna að því að auka sjálfsbjargarviðleitni þess, sjálfstraust, þekkingu og áhuga á frekara námi eða starfi.
Nú er leitað að áhugasömum aðila til að sjá um þetta frumkvöðlastarf hér í bæ. Áhugasamir geta sett sig í samband við skrifstofu BG Bílakringlunnar ehf. S: 421-4242.