Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Betri heilsugæsla fyrir Suðurnesjafólk
Fimmtudagur 20. maí 2021 kl. 11:02

Betri heilsugæsla fyrir Suðurnesjafólk

Allir eiga að geta sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu þarf að vera gott og hið sama gildir um gæði þjónustunnar sem og skilvirkni í rekstri. Umræða um einkarekstur hefur verið ansi hávær í umræðunni um HSS og framtíðarfyrirkomulag heilbrigðisþjónustu hér. Almennt eru menn sammála um að úrbóta sé þörf. Húsnæði heilsugæslunnar er t.a.m. löngu sprungið. Við höfum glímt við mikinn læknaskort þannig að heimilislæknar eru ekki í boði fyrir íbúa Suðurnesja, sem er bagalegt.

Einkarekstur skynsamlegur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég vil að stjórnvöld skoði að fara svokallað blandaða rekstrarleið varðandi heilsugæsluna, sem  samanstendur af ríkisrekinni og einkarekinni heilsugæsluþjónustu. Dæmin sýna okkur að slíkt rekstrarform getur bætt þjónustu við íbúa og einnig tryggt meiri skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Ég tek undir áskorun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja starfsemi nýrrar heilsugæslu á Suðurnesjum í síðasta lagi 1. október 2021 og ég vil að það sé skoðað af alvöru að flýta opnun nýrrar heilsugæslu með því að semja við einkaaðila. Ég hef einnig fulla trú á því að hægt sé að finna tímabundið húsnæði fyrir nýja heilsugæslu þar til nýja stöðin rís. Við eigum að skoða allar færar leiðir með opnum huga með það í huga að ná settum markmiðum, sem er bætt þjónusta fyrir alla.

Betri fjármögnun og ný heilsugæsla

Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn samkvæmt lögum. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem sjúklingar eiga kost á almennum lækningum, hjúkrun, heilsuvernd og forvörnum. Stefna stjórnvalda er að innleiða svokallað höfuðborgarmódel hjá heilsugæslu Suðurnesja en sú innleiðing hefur tafist vegna COVID. Það módel hefur gefist vel því þá fylgir fjármagn betur raunverulegri þjónustuþörf út frá íbúasamsetningu. Góðu fréttirnar eru líka þær að lokið hefur verið við stefnumótun HSS og framtíðarsýn stofnunarinnar lögð fram til samræmis við samþykkta heilbrigðisstefnu til 2030. Þar má m.a. sjá nýjar áherslur eins og öfluga fjarheilbrigðisþjónustu, breytingar á núverandi húsnæði og auðvitað nýja starfsstöð. Íbúar Suðurnesjabæjar hafa vakið athygli á því að eðlilegt er, miðað við stærð sveitarfélagsins, að þar væri einhver heilbrigðisþjónusta í boði, t.d. heilsugæslusel. Ég tek undir það því nú er Suðurnesjabær eina sveitarfélagið á Suðurnesjum sem hefur enga heilbrigðisþjónustu á staðnum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins.