Betri er friður en bardagi
Kristinn Þór Jakobsson skrifar.
Verði niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í Reykjanesbæ þann 31. maí næstkomandi svipuð og skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti fyrir skömmu, að núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks til 12 ára væri fallinn, þá væru það skýr skilaboð um að kjósendur vilja breytingar.
Það væri því skylda annara framboða að mynda meirihluta án Sjálfstæðismanna. Það er vilji okkar í Framsókn að mynda og vinna í þeim meirihluta. Við höfum lagt fram tillögur til hagræðingar í rekstri Reykjanesbæjar og stefnuskrá okkar, sem við myndum leggjum inn í það samstarf, er uppbyggjandi, ítarleg og heilsteypt. Þá eru skuldir og fjármál Reykjanesbæjar orðin risavaxin klafi sem þarf að ná tökum á. Vandinn er mikill en tækifærin eru líka mikli og mörg.
Framsókn mun leggja sig fram í samstarfi og samvinnu um að ná tökum á rekstri bæjarsjóðs og þeim verkefnum sem þarf til að auka hér atvinnu og drift svo samfélagið hér í Reykjanesbæ styrkist og dafni.
Að skila auðu er afstaða í kosningum en ekki ákall um breytingar og er í raun samþykki fyrir óbreyttu ástandi. Við hvetjum þig því kjósandi góður til þess að taka afstöðu og nýta atkvæðisréttinn til breytinga því við óbreytt ástand er ekki unandi lengur.
KJÓSUM X – B
Framsókn fyrir betri og meiri Reykjanesbæ - fyrir okkur öll.
Með bestu kveðjum
Kristinn Þór Jakobsson
Oddviti framsóknar í Reykjanesbæ