Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Bestu baklöndin
Laugardagur 22. mars 2014 kl. 13:11

Bestu baklöndin

Ritstjórnarleiðari.

 

Stundum er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Samfélag sem börn og unglingar alast upp í er mikilvægur hluti af baklandi þeirra og gott bakland er síður en svo sjálfgefið. 
 
Í viðtali við Víkurfréttir segir Erlingur Jónsson, forstöðumaður forvarnafélagsins Lundar, mikilvægt að foreldrar séu vinir barna sinna, styðji þau og skilji, og minni ekki bara á neikvæðu hlutina. Það geti verið algjört eitur í samskiptum við þau. Hann segir einnig að samstaða foreldra skipti miklu máli þegar erfið vandamál komi upp sem taka þurfi á af festu. Stundum viðurkenni bara annað foreldrið vandamál. „Hitt er heima að skammast sín en vill bara fá að fylgjast með úr fjarlægð,“ segir Erlingur og bætir við að konur séu opnari fyrir því að tala um mál sem komi á borð hjá honum. „Þetta er erfitt og hefur alltaf áhrif á sambúð og sambönd á heimilum þegar annar aðilinn er að byggja sig upp en hinn ekki.“
 
Um þessar mundir stendur yfir verkfall framhaldsskólakennara. Skólar eru meðal mikilvægustu stoða í lífi ungs fólks, því þar eru festan, rútínan og félagslegur aðbúnaður sem þarf til að viðhalda velferð þess. Í samtali við Víkurfréttir í vikunni sagðist skólameistiar FS, Kristján Ásmundsson, vonast til þess að nemendur reyni að hittast og halda hópinn þrátt fyrir verkfall. „Það skiptir svo miklu máli, sérstaklega fyrir nemendur sem standa síður vel, að halda eins mikilli rútínu og hægt er.“ Kristján hvetur nemendur til að huga að náminu því ef verkfall dregst á langinn gæti orðið erfitt að ná upp því sem misst hefur verið úr.
 
Líklega óskar enginn þess að verkfall eins og þetta dragist á langinn. Sýnt hefur verið fram á að meiri hætta sé á að nemendur flosni þá úr námi og hætta eykst  á að leita í slæman félagsskap eða að vera slæmur félagsskapur sjálf. Sem betur fer lenda fáir í slíkum sporum en þáttur hins fjölmenna meirihluta samnemenda og vina getur skipt sköpum. Jafningjakennsla, stuðningur og hvatning frá þeim um að kíkja eitthvað í námsefnið á hverjum degi gæti bjargað misserinu. 
 
Reykjanesbær hefur lagt sitt á vogarskálarnar og býður nemendum FS í sund fram að hádegi á meðan á verkfalli stendur. Það er vissulega hvetjandi og tilvalið að bæta sundferð inn í rútínuna og bæta um leið andlega líðan og skerpa hugann. Birtingarmyndir baklandanna eru víða. 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024