Besta heilbrigðiskerfi í heimi?
- Aðsend grein frá Guðnýju Birnu
Heilbrigðiskerfið okkar er þungt í vövum, gamaldags og algerlega að hruni komið. Byggingarnar og búnaðurinn er gamall, álag á starfsfólk er meira með hverjum mánuði og kulnun heilbrigðisstarfsfólks er daglegt brauð.
Við eigum Landspítala háskólasjúkrahús í tveimur byggingum og ennþá er verið að rífast um hentugan stað til að byggja nýjan spítala, þrátt fyrir að byrjað sé á byggingunni við Hringbraut. Þetta málefni á ekki að vera pólitískur skotspónn, það verður að reisa spítalann hratt og örugglega.
HSS er hinsvegar heilbrigðisstofnunin okkar. Hana eigum við að verja og betrumbæta fyrir íbúana okkar á Reykjanesinu. Til þess að geta það skortir okkur fjármagn. Stofnunin hefur verið fjársvelt of lengi en fjárframlög til stofnunarinnar eru þau lægstu á landinu (fáum minnst fjármagn á hvern íbúa á landinu) en engin haldbær afsökun eða ástæða hefur fundist fyrir því. Þetta einfaldlega „hefur alltaf verið svona“.
Stofnunin er sirka 30 milljónir í mínus í ár og þar af leiðandi er erfitt að auka starfsfólk. Staðreyndin er hinsvegar sú að íbúafjöldi hefur aukist stórkostlega á þessu ári, fjölgun um 1356 íbúa bara í Reykjanesbæ (frá mars 2015 – september 2016) en einnig er talsverð fjölgun í öllum nágranna sveitarfélögunum. Það er augljóst að slík gífurleg aukning íbúa kallar á aukið þjónustustig heilsugæslu og bráðamóttöku. Hér er ekki heldur talið upp þann gífurlega fjölda erlendra ferðamanna sem leitar í auknum mæli á bráðamóttökuna.
Á bráðamóttöku HSS er ekki til nægjanlegt fjármagn til að hafa hjúkrunarfræðing í vinnu allan sólarhringinn. Eftir klukkan 19 á laugardögum og sunnudögum og til 11 morguninn eftir (í 16 klst) er ekki hjúkrunarfræðingur í vinnu á bráðamóttökunni og engar nætur heldur. Upptökusvæði HSS er 23.500 íbúar ásamt því að sinna alþjóðaflugvelli Íslands.
Árið 2014 komu til dæmis 1478 sjúklingar á bráðamóttökuna án viðveru hjúkrunarfræðinga, þ.e. sjúklingar sem læknar tóku einir á móti! Hér má rökfæra talsvert um öryggi sjúklinga...
Það sem af er af þessu ári 2016 er 34% aukning í komum á bráðamóttökuna með engri aukningu starfsfólks! Bráðamóttakan er að sjá sirka sömu komutölur og Akureyri sem þýðir að hún er orðin önnur til þriðja annasamasta bráðamóttaka landsins. Ef horft er til mönnunar þá eru jafnmargir hjúkrunarfræðingar á morgunvakt á bráðamóttökunni í dag eins eins og fyrir 12 árum síðan.
Málið er einfalt. Bráðamóttakan okkar er ekki að anna þessu álagi. Við önnum ekki öllum þeim mikla fjölda sem til okkar leitar sem samanstendur af gríðarlegri íbúaaukningu og aukningu ferðamanna. Við erum hornsteinn samfélagsins og grunnstoð íbúa og því verðum við sem stofnun að standa undir þjónustuþörf íbúanna.
En hvað er svo hægt að gera?
Að mínu mati þurfum við að efla tekjur stofnunarinnar og það getum við gert með því að opna skurðstofurnar okkar aftur sem eru einar nýjustu og flottustu skurðstofur landsins. Biðlistar eftir aðgerðum hafa aukist til muna síðustu árin. Við gætum einbeitt okkur að kvennaaðgerðum. Bið eftir kvennaaðgerðum er allt upp í 2 ár sem er allt of langur tími. Við gætum auðveldlega sinnt þessum aðgerðum hér og dregið þar með úr álagi á skurðstofur LSH. Að mínu mati er alger vitleysa að miða allri skurðtengdri starfssemi á einn spítala og dreifa þarf álaginu. Einnig verðum við að knýja fram aukin fjárlög til stofnunarinnar og leiðrétta þetta glataða, langdregna fjársvelti.
Við Jón Garðar hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku HSS munum halda umræðufund um HSS fimmtudaginn 27. október á kosningarskrifstofu Samfylkingarinnar á Hafnargötu 19. Samfylkingin hefur sett heilbrigðiskerfið sem aðal baráttumál sitt fyrir komandi kosningar og við munum leggja mikla áherslu á eflingu HSS.
Við erum góð, við getum þetta og við eigum að gera þetta.
Það verður að bregðast við þessu ástandi, ekki bara fyrir íbúana heldur einnig fyrir starfsfólkið sem er að sligast.
Við getum þetta ekki mikið lengur.
Guðný Birna.
Deildarstjóri bráðamóttöku HSS
Skipar 5. Sæti S - listans í Suðurkjördæmi