Besta heilbrigðiskerfi í heimi
Þetta eru stór orð. Einu sinni hefðum við geta heimfært þessi orð á okkar heilbrigðiskerfi. Reyndar áttum við ekki besta kerfið í heimi en allavega heilbrigðisþjónustu sem við gátum kynnt með stolti og var samkvæmt alþjóða stöðlum með því besta. Í dag er þetta kerfi beinagrindin ein og sífellt kvarnast úr.
Það er ekki góð tilfinning að þurfa að óttast það að leggjast inn á sjúkrastofnun. Óttast um sína nánustu ef eitthvað kemur upp á. Skyldu tækin bila akkúrat núna þegar þú eða þínir þurfa á þeim að halda? Eru bestu fáanlegu lyfin fyrir hendi eða fer það eftir því hver bauð lægst hvað þér er skammtað. Stendur ekki einhverstaðar að hagsmunir og heilbrigði sjúklinga skuli hafðir að leiðarljósi.
Ég veit að það er ekki við starfsfólkið að sakast. Við eigum lækna og hjúkrunarfólk á heimsmælikvarða. Fólk sem hefur lagt sig alla fram á undanförnum árum , álagið sem unnið er undir nánast ómanneskjulegt.Ég dáist að þrautseigju þeirra og langlundargeði. Hversu lengi er hægt að ætlast til að fólk vinni við þessar aðstæður. Hvað þurfum við að missa marga úr landi áður enn stjórnvöld taka við sér?
Það er staðreynd að heilbrigðiskerfinu er að blæða út. Hvað er langt í það að skaðinn verði óbætanlegur og óafturkræfur ? Hvað þurfa margir að verða fyrir heilsutjóni ? Hvenær þurfum við að horfast í augu við að mannslíf glatist vegna sparnaðar, er það kannski þegar orðin staðreynd. Hvað með lífsgæðin , var það ekki eitt af markmiðum heilbrigðisþjónustunnar að bæta lífsgæði þjóðarinnar.
Það er skorið niður allstaðar, landsbyggðin fær sérstaka meðhöndlun. Þar hefur hnífnum verið beitt hvað grimmilegast. Sem dæmi, það eru sjúkrastofnanir bæði á Sauðárkróki og Blönduósi. Einhverjum datt í hug að sameina þær. Hvar og hvernig átti það að gerast? Gleymdist að það er yfir fjallvegi að fara. Í Reykjanesbæ standa fullbúnar skurðstofur ónotaðar vegna fjárskorts. Hvar sem borið er niður á landsbyggðinni er alstaðar sama sagan. Hvað með öldrunarstofnanir, þeim er lokað. Fólkið sem vann hörðum höndum til þess að við gætum búið við betri lífskjör er nánast flutt hreppaflutninga í sparnaðarskyni. Hvað á að gera ef sjúkrastofnanir á höfuðborgarsvæðinu svo vanbúnar sem þær eru orðnar, verða óstarfhæfar vegna náttúruhamfara. Hvert leitum við þá.
Við eigum að standa vörð um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni ekki síður en á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum að setja hnífana niður í skúffu og læsa vel, nóg er skorið, óvitar eiga ekki að hafa aðgang að hnífum. Össur gæti ef til vill upplýst almenning um hvar hann ætlar að taka miljarðinn sem á að veita aukalega í þróunaraðstoð samkvæmt fjárlögum sem eru til umfjöllunar núna, miljarð sem myndi klárlega skipta sköpum fyrir okkar heilbrigðisþjónustu. Mál er að linni.
Pálmey Gísladóttir
Varaformaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar.